Árslisti: Erlendu plötur 2011 - seinni hluti (10.-1.)

noah-and-the-whale-last-night-on-earth# 10

Noah and the Whale - Last Night on Earth

Hápunktar:
Life Is Live, Tonight's the Kind of Night, L.I.F.E.G.O.E.S.O.N., Waiting for My Chance to Come


Noah and the Whale senda hér frá sér sína bestu plötu hingað til. Lagið "L.I.F.E.G.O.E.S.O.N." fór ansi vel í heiminn á árinu enda aðal hittarinn á plötunni. Restina má þó ekki vanmeta enda hálftími af afar notalegum og hlýjum lögum.

The-Black-Keys-El-Camino# 9

The Black Keys - El Camino

Hápunktar: Lonely Boy, Little Black Submarines, Hell of a Season, Stop Stop, Nova Baby

The Black Keys gáfu frá sér frábæra plötu árið 2010 í Brothers. Þessi er kannski ekki eins góð en góð er hún nú samt. Hér er að finna meira rokk og ról og minni blús heldur en í fyrri verkum enda voru áhrifavaldar plötunnar sveitir eins og T. Rex og Ramones. The Black Keys eru góðir í því að rokka og mega bara endilega halda því áfram!


null# 8

Baxter Dury - Happy Soup

Hápunktar: Isabel, Claire, Happy Soup, Trophies



Sonur pönkarans sáluga Ian Dury sendir hér frá sér frábæra plötu. Svolítið eins og Megas, þá veit maður ekki hvort Baxter sé að syngja eða tala í lögunum en það skiptir engu enda maðurinn með raddbönd pabba síns. Sér til hliðar hefur hann söngkonu, Madelaine Hart að nafni sem setur mikinn svip á plötuna. Kæruleysislegt popp í hæsta gæðaflokki hér á ferð.


Arctic-Monkeys-Suck-It-and-See# 7

Arctic Monkeys - Suck It and See

Hápunktar: She's Thunderstorm, Black Treacle, Reckless Serenade


Alex Turner og félagar hysja upp um sig buxurnar eftir skituna á síðustu plötu, Humbug. Þeir eru hér mættir með alveg hreint skínandi og fjölbreytta plötu. "Brick By Brick" og "Don't Sit Down 'Cause I've Moved Your Chair" gefa afar ranga mynd af plötunni en lögin virka helvíti vel á tónleikum eins og Dagfarinn hefur nú þegar kynnst. Annars er Suck It and See fjölbreytt eins og áður sagði og hér eru róleg lög í bland við rokk. Meira svona!


Ceremonials# 6

Florence + the Machine -
Ceremonials

Hápunktar: Shake It Out, What the Water Gave Me, Breaking Down, Spectrum, Leave My Body

Florence Welch og félagar fylgja hér á eftir hinni vel heppnuðu Lungs með hinni mögnuðu Ceremonials. Mér líður pínu eins og ég sé að hlusta á "best of" plötu er ég set Ceremonials í tækið enda næstum hvert einasta lag stórbrotið! Florence Welch er að mínu mati Janis Joplin okkar tíma enda mögnuð söngkona. Ekki má þó gleyma því að hún hefur góða menn á bakvið sig og hjálpast þau að við að búa til dramatíska og kraftmikla tónlist.


Kanye-West-Jay-Z-Watch-The-Throne# 5

Jay-Z and Kanye West - Watch the Throne

Hápunktar: No Church in the Wild, Niggas in Paris, Otis, Made in America, Why I Love You

Hvað gerist ef þú setur farsælustu rappara síðustu ára saman í stúdíó. Jú, þú færð eina bestu rappplötu í áraraðir í hendurnar. Rapprisarnir Jay-Z og Kanye West sameinast hér og færa heiminum konfektkassa fullan af góðum molum. Þeir vekja meira að segja til lífsins Otis Redding í laginu "Otis" og ég er viss um að Otis hafi velt sér í gröfinni yfir útkomunni. Beyonce, Frank Ocean og Mr. Hudson leggja þeim félögum einnig lið til að gera plötuna enn betri. Meistaraverk.


beirut-rip-tide-cover# 4

Beirut - The Rip Tide

Hápunktar: Santa Fe, East Harlem, Goshen, The Rip Tide, Port of Call


Zach Condon og félagar í Beirut voru eitthvað nískir á lögin á nýjustu plötu sinni The Rip Tide þrátt fyrir að fjögur ár væru liðin frá síðustu skífu. En það kemur ekki að sök því að hvert einasta lag er afar gott og áheyrilegt. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart að heyra að sveitin sé frá Bandaríkjunum enda tónlist Beirut ekki beint þessleg. Zach Condon tileinkaði sér annars vinnubrögð Bon Iver og einangraði sig í sex mánuði til að semja lög. Megi aðrir taka sér þetta til fyrirmyndar enda útkoman glæsileg.

null# 3

Bon Iver - Bon Iver

Hápunktar: Perth, Holocene, Towers, Calgary



Fólk var stressað fyrir hönd Bon Iver varðandi plötu númer tvö og töldu að hann gæti ekki fylgt frumburðinum nógu vel eftir. Þær áhyggjur voru óþarfar enda Bon mættur með betri plötu ef eitthvað er. Hún kickaði reyndar seint inn hjá mér en er veturinn kom með myrkrið var ekki aftur snúið, platan var á repeat! Okkur Íslendingum svo til mikillar ánægju fékk ungur drengur frá Akranesi þann heiður að leika í myndbandi við lagið "Holocene" sem tekið var upp hér á landi. Fagmaðurinn sem Bon Iver er.


Radiohead-The-King-of-Limbs# 2

Radiohead - The King of Limbs

Hápunktar: Morning Mr. Magpie, Little by Little, Lotus Flower, Codex


Thom Yorke og félagar komu heiminum á óvart þann 18. febrúar og gáfu út sína áttundu hljóðversplötu. Viðtökur í fyrstu voru ekki svo góðar en eins og með svo margar Radiohead plötur þá þurfa þær sinn tíma sem er ákveðinn kostur. Það er ástæða fyrir því að Radiohead sé talin ein besta hljómsveit heims og er The King of Limbs enn ein rósin í hnappagatið hjá þeim félögum.


null# 1 

Justice - Audio, Video, Disco

Hápunktar: Platan er hápunktur ársins!

Justice eru búnir að kveikja ljósið. Eftir drungalegt myrkur á Cross eru frakkarnir hér mættir með bjartari og hressari plötu. Fyrst kom "Civilization", svo kom "Audio, Video, Disco" og loks kom "Helix" og maður spurði sjálfan sig, hvað næst? Platan í heild sinni kom næst og sigraði Dagfarann! Sveitin tileinkar sér leikvangarokk á sjöunda áratugnum og gæti t.d. lagið "On 'n' On" alveg eins verið samið af The Who. Platan slakar ekkert á frá fyrstu sekúndu til þeirrar síðustu og eru engir farþegar með í för sem er ofboðslega sjaldgæft nú til dags. Guð hvað mig langar á tónleika með þeim! 


Árslisti: Erlendu plötur 2011 - fyrri hluti (20.-11.)

Þá er komið að þriðja og síðasta árslistanum en þar eru til umfjöllunar erlendu plötur ársins. Að þessu sinni er listinn spikfeitur enda sérlega gott ár að baki. 20 sæti skipa listann og af þeim sökum verður hann brotinn uppí tvennt. Við byrjum á sætum 20-11.


Alex Turner - Submarine# 20

Alex Turner - Submarine


Hápunktar: It's Hard to Get Around the Wind, Stuck on the Puzzle, Piledriver Waltz

Það var nóg um að vera hjá Alex Turner á árinu en auk þess að gefa út Arctic Monkeys plötu samdi hann tónlistina fyrir kvikmyndina Submarine. Alex Turner er afar einlægur á plötunni og textarnir henta myndinni gríðarlega vel!


James-Blake-Album-Cover-300x300# 19

James Blake - James Blake

Hápunktar: The Wilhelm Scream, Limit to Your Love, I Mind


Ég hreinlega elska þegar tónlistarmenn koma mér á óvart með tónum sem ég hef aldrei heyrt áður og get hvergi fundið áhrifavalda né svipaða listamenn. James Blake er gott dæmi um það. Hann kom mér gríðarlega á óvart með hrærigraut sínum af dubsteppi, elektróník, sálartónlist og ég veit ekki hvað! James Blake er hrærigrautur sem hristir uppí mér!


The-Streets-Computers-and-Blues-Album-Art# 18

The Streets - Computer and Blues

Hápunktar: Going Through Hell, Puzzled By People, Those That Don't Know, We Can Never Be Friends, OMG

Mike Skinner gaf það út á síðasta ári að The Streets væri að leggja upp laupana. Í tilefni af því gaf hann út tvær plötur, eina sóló og aðra þar sem hann fékk til sín gesti úr öllum áttum. Skinner sýnir snilli sína á Computer and Blues og þar með lokar hann Streets ævintýrinu með stæl. 


CUT-COPY-ZONOSCOPE
# 17

Cut Copy - Zonoscope

Hápunktar: Need You Know, Take Me Over, Blink and You'll Miss a Revolution

Þriðja breiðskífa áströlsku stuðsveitarinnar Cut Copy svíkur engan. Tónlistin á plötunni minnir mann oft á sveitir eins og New Order og Pet Shop Boys sem er alls ekki slæmt mál! Zonoscope virkar bæði á djamminu og heima fyrir sem er sjaldgæfur eiginleiki nú á dögum. Topp eintak!


null# 16

Bombay Bicycle Club - A Different Kind of Fix

Hápunktar: Your Eyes, Lights Out, Words Gone, Shuffle, Still


Ég var pínu smeykur um framhald BBC eftir velgengni þeirra með frumburði sínum árið 2009. Þær áhyggjur voru óþarfar enda um gæðagrip hér að ræða. Jack Steadman og félagar fara greinilega aðeins út fyrir þægindarammann og eru óhræddir við að prófa nýjar aðferðir. A Different Kind of Fix er þeirra metnaðarfyllsta verk hingað til.


m83_0# 15

M83 - Hurry Up, We're Dreaming

Hápunktar: Intro (ft. Zola Jesus), Midnight City, Wait, Steve McQueen


Það er ekki algengt að hljómsveitir gefi út tvöfaldar plötur í dag enda oft sem það misheppnast algjörlega. M83 lætur það hinsvegar virka með sinni fimmtu breiðskífu. Platan fjallar um drauma eins og titillinn gefur til kynna og er vel hægt að gleyma sér í draumum Anthony Gonzales í fimm kortér. 


null# 14

The Strokes - Angles

Hápunktar: Machu Picchu, Under Cover of Darkness, Games, Life Is Simple in the Moonlight


Ég verð að viðurkenna að ég var lengi að taka Angles í sátt. Alltaf er maður að bíða eftir næstu Room on Fire eða Is This It? og verður maður fyrir vonbrigðum í fyrstu. Strokes-liðar hafa verið í ströggli og er Casablancas söngvari meira að segja orðinn edrú. Samt sem áður koma þeir með þessa hörku fínu plötu sem toppar forvera sinn svo um munar. Gefðu Angles tíma og þú verður stundvís ástfanginn!


helplessnessblues# 13

Fleet Foxes - Helplessness Blues

Hápunktar: Montezuma, Battery Kinzie, Helplessness Blues, Grown Ocean


Fleet Foxes gerðu allt vitlaust hér á landi með laginu Mykonos fyrir nokkrum árum. Þeir eru samir við sig á annarri breiðskífu sinni og stíga ekki feilspor. Það er þó ljóst að þeir verða að krydda þetta eitthvað á næstu plötu svo fólk fái ekki leið á þessu annars yndislega fólk-poppi.


HermanDune-StrangeMoosic# 12

Herman Düne - Strange Moosic

Hápunktar: Tell Me Something I Don't Know, Be a Doll and Take My Heart Away, Lay Your Head On My Chest, The Rock

Herman Düne er franskur húmoristi sem veit samt nákvæmlega hvenær hann á að vera alvarlegur. Ég féll gjörsamlega fyrir þessum náunga á Benicàssim hátíðinni á Spáni síðasta sumar en frakkinn svipar mikið til Cat Stevens á sínum yngri árum í útliti. Ef þú fýlar Belle & Sebastian þá er Herman Düne eitthvað fyrir þig!


wounded rhymes# 11

Lykke Li - Wounded Rhymes

Hápunktar: I Follow Rivers, Get Some, Rich Kids Blues, Sadness Is a Blessing

Sænska frænkan okkar Lykke Li er mætt með plötu númer tvö og enga smá plötu. Wounded Rhymes er troðfull af fjölbreyttum lögum. Blús fyrir ríka, angurvært popp og vændisrokk er aðeins brotabrot af því sem er að finna á plötunni. Gangi henni vel að toppa sig eftir þetta! 


Árslisti: Plötur Íslands 2011

Dagfarinn heldur áfram að kryfja árið og nú er komið að bestu íslensku plötunum. Það var nóg um að vera á klakanum að þessu sinni og aragrúi af góðu efni sem kom út. Plötunum verður raðað í sæti og byrjum við á 10. sæti.

Hjalmar - Orar10.

Hjálmar -
Órar

Hjálmar eru alltaf góðir sem þýðir það að þeir gefa alltaf út góðar plötur. Órar er engin undantekning og er þar að finna urmul af sniðugum og grípandi lögum.

Hápunktar:
Áttu vinur augnablik, Borð fyrir tvo, Lítið lag.



null9. 

Of Monsters and Men - My Head Is An Animal

Of Monsters and Men slógu heldur betur í gegn með fyrstu breiðskífu sinni og héldu meira að segja tvo útgáfutónleika í Gamla bíói! Ef ekki væri fyrir ofnotað "la la" á plötunni sæti hún líklega ofar á þessum lista.

Hápunktar: King and Lionheart, Little Talks, Love Love Love.



Nolo_Nology8.

Nolo - Nology


Helsti styrkleiki Nolo er sá að þeir eru frumlegir og færa hlustendum sínum eitthvað sem þeir hafa aldrei heyrt áður. Samt svínvirkar það og sýndu þeir það á útgáfutónleikum sínum. Ef ég ætti að lýsa tónlist Nolo myndi ég segja Sci-Fi-partý tónlist.

Hápunktar:
Polka, When You're Gone, Bus Seats, Beautiful Way.



null7.

Vigri - Pink Boats
 

Frumburður Vigra er afar vel heppnað verk. Þrátt fyrir að upptökur færu fram hér og þar er um afar heilsteypta plötu að ræða. Vigri er spennandi hljómsveit sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni!

Hápunktar: Drag Down the Dark, Animals, Sleep, Í augsýn.



null6.

Prinspóló - Jukk

Prinspóló er hliðarverkefni Svavars Péturs (Skakkamanage) þar sem einfaldar útsetningar og afar kómískir textar mætast. Þessi blanda hittir beint í mark og minnir oft á hina goðsagnakenndu hljómsveit Súkkat. Því einfaldara, því betra.

Hápunktar: Mjaðmir, Skærlitað Gúmmilaði, Niðrá Strönd.



null5. 

Snorri Helgason - Winter Sun

Önnur breiðskífa fyrrum meðlims Sprengjuhallarinnar lukkaðist heldur betur vel og spilar þar kannski inní að upptökustjórinn var Sindri Már (Seabear, Sin Fang). Snorri er hörku lagahöfundur og verður bara betri og betri.

Hápunktar: River, Mockingbird, Julie, Caroline Knows.



GusGus - Arabian Horse4.

GusGus - Arabian Horse

Það er ótrúlegt að hljómsveit sem hefur starfað jafn lengi og GusGus sé að toppa með sinni sjöundu plötu á ferlinum. GusGus fá til sín góða gesti á plötunni þau Urði og Högna úr Hjaltalín ásamt fleirum. Það virðist hafa gert Arabíska hestinn að gæðingi.

Hápunktar: Deep Inside, Over, Within You, Magnified Love.



null3.

Mugison - Haglél

Loksins fékk Mugison þá athygli sem hann átti skilið og enga smá! Platan hans hefur selst í bílförmum og uppselt er á tónleika hans allstaðar á landinu. Að syngja á íslensku og gera lögin þannig útvarpsvænari var eina viðbótin sem þurfti til að sigra Ísland.

Hápunktar: Stingum af, Þjóðarsálin, Gúanóstelpan, Haglél.



Soley - We Sink2.

Sóley - We Sink


Ég heillaðist algjörlega af Sóley á tónlistarhátíðinni Reykjavík Music Mess sem haldin var á árinu. Síðan þá fylgdist ég spenntur með og keypti plötuna hennar um leið og hún kom út. Ekki var ég svikinn af þeim kaupum enda næstbesta plata ársins hér á landi!

Hápunktar: I'll Drown, Smashed Birds, Blue Leaves.



null1.

Sin Fang - Summer Echoes


Það er ekki í lagi með þennan mann, allt sem hann snertir breytist í gull. Þrátt fyrir titil plötunnar hentar hún öllum árstíðunum og það er mikill kostur. Allt þetta nostur í kringum lögin og pælingar minnir um margt á meistara Thom Yorke og ekki orð um það meir!

Hápunktar: Bruises, Fall Down Sleep, Because of the Blood, Slow Lights.


Aðrar plötur sem hlutu ekki náð fyrir augum Dagfarans:

Björk - Biophilia
FM Belfast - Don't Want to Sleep
Ham - Svik, harmur og dauði
Pétur Ben & Eberg - Numbers Game


Árslisti: Lögin 2011

Um þessar mundir eru að hrúgast inn hverjir árslistarnir á fætur öðrum. Þar keppast menn um að dæma lög ársins, plötur ársins og fleira til. Dagfarinn ætlar ekki að vera neinn eftirbátur í þeim efnum og birtir hér topp tíu lög ársins (í stafrófsröð) að hans mati. 

Bon Iver - "Calgary"



Ef Dagfarinn gæfi út safndisk sem héti Dálæti Dagfarans þá væri lagið "Calgary" eflaust á þeim disk. Bon Iver sá oftar en einu sinni til þess að ég sofnaði vært og rótt er kalt var í veðri og dagsbirtan engin. "Calgary" er eyrnakonfekt sem og öll platan hans.

Foster the People - "Pumped Up Kicks"



Þrátt fyrir að lagið hafi verið tekið upp árið 2009 og gefið út í fyrra fær það samt þann heiður að sitja á þessum lista þar sem platan kom út á þessu ári. Það má segja að lagið hafi slegið í gegn hér á landi í sumar og dilluðu drukknir unglingar rassinum óhikað við lagið niðri í hundrað & einum. Dagfarinn uppgvötvaði lagið stuttu eftir fjöldmorð Breiviks í Noregi sem er kaldhæðið í ljósi textans í laginu. Engu að síður ofboðslega hressandi og grípandi lag frá Foster fólkinu. 

Frank Ocean - "Swim Good"



Frank kynntist ég úti í Noregi en þar var einmitt þetta lag mikið spilað. Frank hefur unnið náið með mönnum eins og Jay-Z og Kanye West og syngur/rappar einmitt með þeim í tveimur lögum á Watch the Throne. "Swim Good" sýnir það og sannar að hann getur þetta alveg einn og óstuddur. Frank Ocean er að mínu mati "the next big thing" í rappheiminum og verður gaman að fylgjast með kauða í framtíðinni.

James Blake - "Limit to Your Love"



James Blake kom með ferska strauma inní árið 2011 með sinni frábæru fyrstu plötu James Blake. Þetta lag heillaði mig frá fyrstu hlustun og hefur það fengið að hljóma ófáum sinnum í græjunum á árinu. James Blake er snillingur þegar kemur að því að blanda saman allskyns stefnum í tónlist.

Justice - "Civilization"

Kannski ekki besta lagið á Audio, Video, Disco en þetta var fyrsta lagið á plötunni sem Justice-menn sýndu heiminum og guð minn góður hvað ég var spenntur! Justice voru búnir að skapa enn eitt skrímslið í hljóðverinu sínu og þvílika sprengju! Lagið smellpassaði svo inní snargeðveika Adidas auglýsingu sem hjálpaði ekkert við að minnka lof Dagfarans á því.

Lana Del Rey - "Video Games"



"Hvaðan kom hún? Hvert er hún að fara? Hvað er hún" hugsaði ég fyrst er ég heyrði þetta frábæra lag. Svo heillaður var ég af bæði laginu og söngkonunni. Lagið er eitthvað svo stórt en sagan eitthvað svo lítil. Kynþokkinn í rödd Lönu og íburðarmikil sinfonían í laginu vinna virkilega vel saman og ég segi bara Adele hvað? Ef ég ætti að velja lag ársins 2011 þá yrði það líklega "Video Games". 

Patrick Wolf - "Time of My Life"



Þetta lag uppgvötvaði ég eiginlega bara alveg óvart. Ég var í sakleysi mínu á YouTube þegar þetta lag kom allt í einu upp og ég gat ekki hætt að hlusta. Lagið minnti mig á jakkalakkana í Hurts en um Patrick sjálfan Wolf hafði ég aldrei heyrt talað um. Patrick Wolf er kraftmikil dramatík og þetta lag endurspeglar það.

Radiohead - "Lotus Flower"



Ekki einungis eitt besta lag ársins heldur einnig eitt besta myndband ársins sem skartar sjálfum Thom Yorke í trylltum dansi. Ég veit í raun ekki hvort ég geti kryfjað þetta lag yfir höfuð þar sem ég hef í raun bara eitt um það að segja, fullkomið.

Timber Timbre - "Black Water"



Timber Timbre er tónlistarmaður frá Kanada og kom meira að segja fram á Iceland Airwaves í fyrra. Síðan þá hef ég fylgst með þessum áhugaverða tónlistarmanni og í ár gaf hann út sína aðra breiðskífu. Á henni er einmitt að finna þetta stórgóða sex mínútna lag. Áberandi bassaleikur setur svip sinn á þetta drungalega og grípandi lag sem heldur manni rígföstum frá byrjun til enda.

TV on the Radio - "Will Do"



Hér höfum við stórgott lag úr smiðju Tunde Adebimpe og félaga úr TV on the Radio. Svo gott reyndar að sjö ára bróðir minn myndi setja þetta lag á sinn árslista. Það er greinilega nóg eftir á tankinum hjá þessari sveit þó að platan hafi ekki endilega komið sér á sama stall og forverar sínir.

Aðrar tilnefningar sem ekki náðu sæti:

Alex Turner - "Stuck on the Puzzle" & "Piledriver Waltz"
Arctic Monkeys - "Black Treacle"
Baxter Dury - "Happy Soup"
Beirut - "Santa Fe"
The Black Keys - "Lonely Boy"
Cut Copy - "Take Me Over"
Florence + the Machine - "Breaking Down"
Friendly Fires - "Hawaiian Air"
Gotye - "Somebody I Used to Know (feat. Kimbra)"
Hercules and Love Affair - "Painted Eyes"
Incubus - "Promises, Promises"
James Blake - "Wilhelms Scream"
Jay-Z and Kanye West - "Made in America (feat. Frank Ocean)"
Kurt Vile - "Baby's Arms" & "Jesus Fever"
Little Dragon - "Ritual Union"
M83 - "Midnight City"
Noah and the Whale - "L.I.F.E.G.O.E.S.O.N."
PJ Harvey - "The Words That Maketh Murder"
The Strokes - "Machu Picchu"
Veronica Maggio - "Välkommen in"
Wilco - "Dawned on Me"
Youth Lagoon - "Afternoon" & "Cannons"


Hinn gaurinn

Það getur oft verið snúið mál að bera sama nafn og einhver frægur og þá sérstaklega á Íslandi. Páll Óskar Hallgrímsson, 22 ára piltur frá Kópavogi er einn þeirra.

Páll Óskar sem gengur oftast undir nafninu Palli var skírður í mars árið 1989. Foreldrum Palla óraði ekki fyrir því að nokkrum árum seinna skyldi rísa upp samkynhneigður poppkóngur með sama nafn.

Blessunarlega var Palli laus við öll leiðindi í grunnskóla en hann segist þó hafa fundið aðeins fyrir stríðni í menntaskóla!

"Ég man eftir tveim strákum sem voru með mér í íslensku og sátu á fremsta bekk. Þegar kennarinn las upp nafn mitt bættu þeir alltaf við "Hjálmtýrsson" og bekkurinn flissaði í kjölfarið. Á endanum þurfti ég að segja mig úr áfanganum."

Annars gekk menntaskólagangan slysalaust fyrir sig segir Palli. Reyndar var hann einu sinni beðinn um að vera dómari í söngvakeppni skólans.

"Það voru kynnar keppnarinnar sem fengu þá skemmtilegu hugmynd að bjóða mér að vera dómari í söngvakeppninni. Því miður komst sú tillaga ekki í gegnum skólastjórnina en hún vildi meina að ég væri ekki fær um að dæma söng!"

Sorgarsaga enda hefði verið gaman að sjá viðbrögð fólks við algjörlega óþekktum manni í dómnefndinni. 

En það er ekki langt síðan að Palli þurfti að hringja í 118 og biðja um nýtt starfsheiti vegna leiðinlegs misskilnings.

"Undanfarna mánuði hef ég verið að fá símtöl á öllum tímum sólarhringsins. Þetta er að sjálfsögðu fólk sem ruglar mig við poppstjörnuna frægu."

Aðspurður hvers konar símtöl eru þau margskonar.

"Fólk hefur verið að hringja í mig og spyrja mig ráða hvernig eigi að koma út úr skápnum t.d. Einnig hefur fólk verið að reyna að panta mig á böll og árshátíðir en ég bendi þeim kurteisislega á nafna minn og gef þeim rétta númerið."

Símtöl sem þessi eiga sér stað endrum og eins en hann segist hreinlega slökkva á símanum yfir Gay Pride hátíðina frægu.

"Eftir fyrstu hátíðina var aldrei spurning um annað. Síminn hreinlega stoppaði ekki og fólkið sem hringdi var á barmi taugaáfalls. Þetta var aðallega fólk sem kom að skipulagningu hátíðarinnar að einhverju leyti og vildu ræða við mig tímasetningar, atriði og að sjálfsögðu Gay Pride ballið á Nasa. Það var erfitt fyrir mig að komast að í símanum og stundum varð ég að skella á þar sem fólkið trúði mér ekki er ég sagðist vera Hallgrímsson!" 

Á endanum fékk Palli nóg og hringdi upp í 118 og sagði símadömunni frá vanda sínum. Hann bað hana vinsamlegast um að setja "hinn gaurinn" fyrir aftan nafnið sitt í símaskránni. Símadaman sýndi Palla mikinn skilning og var það lítið mál að verða við bón drengsins. Ekki nóg með það heldur hefur ótímabærum símtölum fækkað verulega.

"Fólk veit vanalega ekki númerið hjá Páli Óskari og fer því á ja.is og flettir því upp þar. Þetta hefur greinilega komið sér vel fyrir mig því fólk hefur útilokað mig er það sér "hinn gaurinn" fyrir aftan nafnið mitt."

Þrátt fyrir allt segist Palli aldrei hafa hugleitt það að breyta um nafn enda sé það einkar fallegt, bæði í máli og ritun. Hann segir einnig að nafnið virki sem góður ísbrjótur á dömurnar í hundrað og einum og með þeim orðum lýkur Dagfarinn umfjöllun sinni um "hinn gaurinn".

Hinn gaurinn


Af skrímslum og mönnum

Vinsælasta hljómsveitin á Íslandi í dag hlýtur að vera Of Monsters and Men en hún hefur fengið ansi góðar viðtökur fyrir tónlist sína og þá helst lagið "Little Talks". Dagfarinn á afar myndarlega unnustu sem bauð honum á útgáfutónleika þeirra fyrir u.þ.b. mánuði síðan og hefur hann hugsað mikið um sveitina síðan þá. 

Stemningin í Gamla Bíó var góð og ljóst að mikil eftirvænting ríkti eftir heitasta bandi landsins. Að vísu voru þetta seinni tónleikar sveitarinnar þetta kvöldið en vegna mikillar eftirspurnar var bætt við öðrum tónleikum. Það kom þó ekki niður á sveitinni enda má líta á útgáfutónleika sem nokkurs konar leiksýningu sem hægt er að endurtaka að nýju.

Hljómsveitin steig ekki feilspor þetta kvöldið og lék lögin sín af mikilli innlifun og nákvæmni. Þau voru einnig búin að bæta við sig hljóðfæraleikurum sem gerði umgjörðina á tónleikunum enn stærri. Meðlimir voru svo í góðu skapi sem smitaði að sjálfsögðu út frá sér.

En hljómsveitin er ekki gallalaus því hún gerir eitt sem fer ofboðslega í taugarnar á mér. Þau eiga það til að "la la" sig í gegnum lögin. Að mínu mati er það ekkert annað en léleg redding og vísbending um hugmyndaleysi textahöfundar. Ég myndi kannski fyrirgefa hljómsveitinni ef þetta heyrðist í einu eða mesta lagi tveimur lögum en því miður er maður fljótari að telja lögin þar sem ekki bregður fyrir "la la" í.

Einn meðlimurinn sagði brandara á tónleikunum sem hljóðaði svona:

Af hverju kaupa kindur svona mikið af plötunni okkar?
Af því að það er svo mikið af heyi á henni.

Það er vissulega rétt hjá kauða, þau nota "hey" mikið á plötunni en þó ekki eins mikið og áberandi og "la la" og því kannski spurning um að semja nýjan brandara fyrir næstu tónleika? Það er afar einfalt að laga þennan vanda, það má annaðhvort sleppa öllu söngli og leyfa hljóðfærunum að njóta sín eða semja texta í þessar eyður.

Uppáhalds lögin mín af plötunni eru "King and Lionheart", "Little Talks" og "Love, Love, Love" en ekkert þeirra inniheldur "la la". Tilviljun? Annars vona ég að einhver úr hljómsveitinni lesi þetta og taki þetta til sín því þau eru augljóslega búin með "la la" kvótann sinn og geta ekki notað hann á næstu plötu.

Annars heyrði ég um daginn að fólk væri að tala um líkindi á milli laganna "Little Talks" og "Home" með Edward Sharpe and & the Magnetic Zeros og að Nönnu söngvara þætti það mjög leitt. Ég er reyndar ekki sammála þessu. Eina sem lögin eiga sameiginlegt er að þau eru sungin af báðum kynjum, innihalda "hey" og eru krúttleg. Hins vegar liggur munurinn í því að "Home" er í kærulausari kantinum á meðan að "Little Talks" er á alvarlegri nótum. Of Monsters and Men hefðu aldrei samið lag eins og "Home" að mínu mati. Það vill kannski óheppilega til að lögin komu út á svipuðum tíma og njóta mikilla vinsælda og því sér fólk kannski ástæðu til þess að bera þau saman.

Að lokum vil ég taka það fram að mér finnst Of Monsters and Men hörku hljómsveit sem er enn betri í lifandi flutningi. Platan er einnig þrusu góð og það eru líklega fáir þarna úti sem láta "la la" sönglið pirra sig jafn mikið og ég.

Jeff Who?
Hljómsveitin Jeff Who? gerði "la la" ódauðlegt í laginu "Barfly" árið 2005. 


Topp 5: Nostalgíulög á PoppTíví

Það eru líklega fleiri en ég sem áttu notalegar stundir með sjónvarpstöðinni PoppTíví fyrir nokkrum árum sem bauð uppá það allra ferskasta í tónlistinni á sínum tíma. Ég átti mínar bestu stundir með stöðinni á árunum 1999-2003 en þá var ég oftast einn heima eftir skóla og hafði lítið annað að gera en að glápa á PoppTíví.

Á þessum tíma uppgvötvaði ég marga listamenn, bæði góða og slæma, þó að mér finnist þeir góðu ekki endilega eins góðir í dag. Þrátt fyrir það fæ ég alltaf þessa nostalgíutilfinningu þegar ég heyri lögin aftur og minnist þeirra gömlu góðu daga sem ég átti í sjónvarpsherberginu heima.

Nú ætla ég að gera heiðarlega tilraun til að velja fimm "bestu" lögin sem toppuðu algjörlega hjá mér á þessum tíma. Það skiptir miklu máli að vera samkvæmur sjálfum sér í svona vali og hugsanlega mun ég ganga um með sært stoltið í kjölfarið. Hér kemur listinn.

5. The Lawyer - I Wanna Mmm

Ég veit í rauninni ekki hvað ég get sagt um þetta lag. Lítið er að finna um flytjandann á netinu nema það að hann kemur frá Bretlandi og skartar litlu hári. Ekki veit ég hvað heillaði mig svo mikið lagið en það var kannski frekar myndbandið og fíflalætin í þessum fábjána sem styttu mér stundirnar í sófanum heima. Mörgum finnst að lögfræðingurinn ætti að fara í mál við sjálfan sig fyrir þetta lag.

4. Pearl Jam - I Am Mine  

Þetta lag sá til þess að tónlistarsmekkur minn varð ekki að froðu vil ég meina. Afslappaður söngurinn og hið grípandi gítargrip fönguðu mig strax við fyrstu hlustun. Ég hafði aldrei heyrt um hljómsveitina fyrr en ég heyrði þetta lag og var diskurinn að sjálfsögðu keyptur en því miður fyrir hin lögin var þetta eina lagið sem var spilað. Ég verð Eddie Vedder og félögum ævinlega þakklátur fyrir framlag sitt á þessum mikilvægu árum barnæsku minnar.

3. Britney Spears - Oops!... I Did It Again

Það kann að hljóma undarlega (samt ekki) en ég var eitt sinn ástfanginn af söngkonunni Britney Spears. Hún snéri mér svo alveg í hringi þegar hún birtist í rauða latex gallanum í myndbandinu hér að ofan og er það ein af þessum minningum sem aldrei gleymist. Ég fór meira að segja svo langt með þetta að ég kunni dansinn við lagið og tók oft sporin með skólasystrum mínum í bekkjarafmælum. Á endanum þroskaðist maður svo upp úr þessu og þá fóru strákarnir loksins að láta heyra í sér aftur.

2. Eagle-Eye Cherry - Are You Still Having Fun?

Þó að popparinn frá Svíþjóð sé frægastur fyrir lagið "Save Tonight" þá var það þetta lag sem sló í gegn hjá mér á sínum tíma. Því miður fann ég ekki myndbandið við lagið en þar var Cherry í góðum gír á djamminu með gítarinn að vopni talandi við einhverjar skvísur. Það var sko partý í stofunni þegar að þetta lag dúkkaði upp á PoppTíví og já ég skemmti mér alltaf vel yfir þessu lagi elsku Cherry minn, takk fyrir að spyrja!

1. Eiffel 65 - Blue (Da Ba Dee)

Jú það er bláköld staðreynd en í efsta sætinu situr þríeykið frá Ítalíu, Eiffel 65 með sitt ódauðlega lag "Blue (Da Ba Dee)". Ég var líklega jafn hugfanginn og James Cameron af laginu en leikstjórinn geðþekki fékk mikinn innblástur af myndbandinu sem sást svo síðar meir í stórmyndinni Avatar. Alltaf var biðin eftir því að lagið poppaði upp á PoppTíví þess virði og hoppaði ég bókstaflega um af gleði þó að rassinn á mér væri álíka dofinn og vel deyft tannhold á tannlæknastofu. Þrátt fyrir að lagið sé komið langt fram yfir síðasta söludag er enn hægt að dilla sér við það daginn í dag og hafa gaman af því. Það myndi ég segja er ansi vel af sér vikið hjá liðsmönnum Eiffel 65.

Þessi lög komu einnig til greina:

Audioslave - Like a Stone
Bloodhound Gang - The Bad Touch
Bomfunk MC's - Freestyler
Britney Spears - (You Drive Me) Crazy
Crazy Town - Butterfly
Foo Fighters - Learn to Fly
Limp Bizkit - Take a Look Around
Metallica - I Disappear
Offspring - Pretty Fly (For a White Guy)
Puddle of Mudd - She Hates Me
Puff Daddy - Come with Me (ft. Jimmy Page)
Rammstein - Links 2 3 4
Rammstein - Sonne
Red Hot Chili Peppers - Californication
U2 - Stuck in a Moment You Can't Get Out Of
Vengaboys - Boom, Boom, Boom, Boom!!
Wamdue Project - King of My Castle
Wu-Tang Clan - Gravel Pit


Busalufsa

Busavígslur menntskælinga fóru fram í vikunni sem er að líða og þar á meðal gekk bróðir minn í gegnum eina slíka í Flensborg. Af því tilefni hef ég ákveðið að rifja upp mína busavígslu sem fór fram árið 2005 við Menntaskólann í Kópavogi og víðar.

Busavígslan í MK er af tvennum toga. Það er hefðbundna busavígslan sem er á vegum skólans og til að halda fólki á tánum eru nokkrir eldri nemendur búnir að setja sig í hlutverk böðla sem minna helst á orkana í LOTR. Í þessari vígslu þurfti maður að hlýða öllu því sem að böðlarnir báðu mann um að gera, eins og t.d. að halda á feitum nefndarfulltrúum, borða súrmat og drekka mysu.

Það má segja að hinn venjulegi busi hafi sloppið vel undan þessari busun og gat farið nokkuð sáttur heim. En það átti hinsvegar ekki við þá sem lentu í einkabusun en það er einmitt hinn leggurinn í busavígslunni.

Hvað varðar einkabusun þá er líklega betra að vera veggjarlús sem enginn þekkir. Einkabusun lýsir sér þannig að nokkrir eldri nemendur koma sér saman um að taka nokkra busa að sér, hella þá fulla og fara með þá niðrí bæ að leysa alls kyns þrautir. Því miður lenti ég í einni slíkri og hér fáiði söguna af því.

Ég hélt að ég væri hólpinn eftir busavígslu skólans en annað kom heldur betur á daginn. Gunni Torfa kom þá auga á mig og Davíð félaga minn og ákvað samstundis að við yrðum hans einkabusar. Gunni stóri eins og hann var gjarnan kallaður, hafði verið með okkur í Kársnesskóla og var gríðarlega bráðþroska unglingur en hann var til að mynda kominn með þykka skeggrót í sjöunda bekk!

Ferðinni var fyrst heitið í ríkið á Dalveginum en þar verslaði Gunni kassa af Lager ef mig minnir rétt. Ég var alls ekki vanur drykkju á þessum tíma en réttur minn var enginn á þessum degi. Bílakjallarinn í Hamraborginni var næsti áfangastaður en þar höfðu nokkrir safnað sér saman til að smána busana. Þarna fékk ég að bragða kattarmat í fyrsta skipti á ævinni og þykir mér mesta furða að kettir leggi sér slíkan viðbjóð til munns! Þarna mátti einnig sjá trektir þar sem boðið var uppá vodka og bjór í bland ásamt öðru sem hefur fallið í gleymsku.

Eftir þessa útreið var farið í Kringluna og beint í Vero Moda verslunina sem er nú aðallega hugsuð fyrir kvenfólk. Mér var komið fyrir í mátunarklefa og svo var séð um að henda í mig kvenmannstoppum og pilsum. Ég klæddi mig í fötin og sprangaði svo um búðina nokkuð ölvaður og bað um aðstoð starfsmanna.

Að Kringluferðinni lokinni var haldið heim til Viktors Sigurjóns en þar var boðið uppá bakkelsi og gúmmelaði. Ég hrúgaði í mig sætindum en komst fljótlega að því að ekki var allt með felldu í mallakútnum. Eftir fáeinar sekúndur var ég staddur úti á plani ælandi öllu sem ég hafði látið ofan í mig yfir daginn og nú leist Gunna stóra ekki lengur á blikuna, hann varð að fara með mig heim.

Hann fór reyndar ekki með mig alla leið heim. Hann henti mér út á ljósunum á Kársnesbraut sem er beint fyrir ofan húsið mitt. Ég kvaddi hann og þakkaði honum kærlega fyrir skemmtilegan dag og gekk svo niður brekkuna. Á þessum tímapunkti var ég mjög syfjaður og fannst mér það mjög góð hugmynd að leggja mig á grasblettinum fyrir neðan rafmagnsskúrinn en hann er einmitt 50 metrum fyrir ofan húsið mitt.

Ekki veit ég hvað leið langur tími þangað til að ég rankaði við mér í örmum lögreglunnar. En þá hafði líklega áhyggjufullur nágranni hringt í 112 og látið vita af ungum manni með litla meðvitund fyrir utan húsið sitt. Lögreglan var kurteis í alla staði og virtist gera sér grein fyrir því að um busadag væri að ræða. Hún spurði aðeins að kennitölunni minni og spurði svo hvar ég átti heima og blessunarlega gat ég bent á húsið mitt. Þar sem fjarlægðin var ekki meiri en þetta treysti lögreglan mér fyrir því að ganga sjálfur heim þar sem ég steinsofnaði einmitt í rúminu mínu.

Klukkan ca. 8 vaknaði ég svo við að félagi minn var kominn til að samferða mér á busaballið sem átti að hefjast fljótlega. Ég vissi í raun ekki neitt og af einhverjum völdum ákvað ég að sleppa sturtunni og mætti galvaskur á ballið með smá gubb í hárinu.

Engum sögum fer af busaballinu sjálfu en busadeginum gleymi ég seint og vil ég þakka Gunna stóra kærlega fyrir vel unnin störf á þessum viðburðaríka degi.

  uruk-hai
Hér er gott dæmi um hinn hefðbundna böðul.


Tvífarinn: Anna Özil & Daði Fabianski

Það er löngu kominn tími á nýja tvífara hér á Dagfaranum og eru þeir næstu ekki af verri gerðinni. Þeir eru afhjúpaðir núna þar sem að ný sparktíð var að hefjast og allt að gerast!

Fyrri tvífarinn er jafnframt fyrsti kvenkyns tvífarinn og ber að fagna því. Það er hún Anna Fanný Sigurðardóttir og er hennar tvífari enginn annar en þýska undrabarnið Mesut Özil sem spilar einmitt fyrir prímadonnurnar í Real Madrid. Dagfaranum líður eins og hann hafi leitt saman týnd systkini en þau þykja afskaplega lík eins og sjá má á myndunum.

Anna Fanný Mesut Özil
Líkindin eru í einu orði sagt sláandi og maður gapir gjörsamlega yfir þessu. Mesut Özil er aðeins ári eldri heldur en Anna Fanný og mikil leynd hvílir yfir þjóðerni mannsins en flestir vilja meina að hann sé hálfur Tyrki og hálfur Þjóðverji. Dagfarinn heldur hinsvegar að hann sé íslenskur og sé Sigurðarsson..

Næsti tvífari er ekki síðri en samt aðeins. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á fótbolta og eru sömuleiðis mikið meiddir. Þetta eru þeir Daði Þór Steinþórsson fyrrum bakvörður N.W.A. og Lukasz Fabianski varamarkvörður Arsenal. Þeir þykja nokkuð líkir þó að Daði sé í öllu betra formi en Pólverjinn. Daði hefur einmitt mikla reynslu af Pólverjum í Noregi og aldrei að vita nema að þeir taki kannski upp mikinn vinskap skyldu þeir hittast úti á götu.

Daði Þór Lukasz Fabianski
Eins og sjá má á þessum myndum munar ekki miklu á andlitum þeirra. Ef Daði myndi kíkja í nokkra ljósatíma og fá sér nokkra fæðingabletti þá erum við að tala um nánast sömu mennina.


Benicàssim 2011: Sunnudagur

Þá var komið að síðasta degi hátíðarinnar og sem fyrr fór kvöldið frekar hægt af stað. Það var ósk mín að sjá velsku hljómsveitina Joy Formidable en þar sem ég vildi kaupa hátíðar bol þurfti ég að sætta mig við að hlusta á sveitina í þéttum hópi fólks sem beið eftir afgreiðslu. Svekkjandi það.

En það þýddi ekkert að hengja haus enda hljómsveitin bara písl miðað við það sem framundan var. Það var ágætis spenna í hópnum fyrir hljómsveitinni Noah and the Whale en hún ætti að vera hlustendum X-ins og Rásar 2 að góðu kunn þar sem lagið þeirra "L.I.F.E.G.O.E.S.O.N." hefur verið mikið í spilun sem og fleiri lög. Strákarnir mættu í snyrtilegum klæðnaði uppá svið og hárgreiðslan "síður toppur til hægri" virðist vera að gera góða hluti á þeim bænum. Þeir tóku öll sín bestu lög að mati Dagfarans en náðu þó aðeins að spila í 40 mínútur en ekki 60 eins og til stóð. Þeir enduðu einmitt á fyrrnefndu "L.I.F.E.G.O.E.S.O.N." og gerðu heiðarlega tilraun til að láta klappa sig upp en lófatakið lét á sér standa. Lýðurinn var greinilega farinn að huga að næstu tveimur hljómsveitum.

Rúmlega klukkutíma síðar hóf hljómsveitin Portishead leikinn og þvílik veisla sem Beth Gibbons og félagar buðu uppá! Tónleikarnir voru í einu orði sagt fullkomnir. Lagavalið var virkilega gott en mest var tekið af síðustu plötu þeirra Third ásamt helstu slögurunum af Dummy. Sviðsetningin var ein sú flottasta á hátíðinni og minnti Dagfarann mikið á gjörninginn hjá Radiohead á Reading hátíðinni 2009. Portishead er hljómsveit í þungavigt og það þýðir í raun ekkert að fjölyrða neitt um þessa tónleika eitthvað frekar enda voru þeir fullkomnir í alla staði.

Portishead á FIB 2011

Þá var loksins komið að hljómsveitinni sem Dagfarinn hefur ætlað að sjá síðan að hann heyrði upphafslagið á plötunni Funeral árið 2005, Arcade Fire. Uppáhalds núlifandi hljómsveit Dagfarans og hefur verið það lengi. Meðlimir sveitarinnar hafa aldrei verið kenndir við neitt rugl og eru í senn afar þroskaðir einstaklingar sem lifa fyrir tónlistina og ekkert annað. Einskonar Lionel Messi tónlistarinnar.

Eins og hjá Portishead var sviðið fallega skreytt sem gerir upplifunina enn betri. Útlitið minnti helst á inngang á gamaldags kvikmyndahúsi sem auglýsti sýningu kvöldsins, The Suburbs. Og það var einmitt raunin því að tónleikarnir byrjuðu á smá stiklu af stuttmyndinni Scenes from the Suburbs en hún er skrifuð af söngvaranum Win Butler og leikstjóranum Spike Jonze.

Loks birtust meðlimirnir á sviðinu og töldu að sjálfsögðu í lagið "Ready to Start" enda vel við hæfi. Áfram hélt fjörið og voru leikin lög af öllum ferlinum þó mest af frumburðinum Funeral og þeirri nýju The Suburbs. Hápunktar tónleikanna voru líklega þegar þau tóku "Intervention" og "Neigboorhood #1 (Tunnels)" sem eru uppáhalds tónverk Dagfarans. Einnig komu "No Cars Go", "We Used to Wait" og "Sprawl II (Mountains Beyond Mountains)" sterk inn ásamt öllum hinum lögunum. Arcade Fire er nefnilega þeim kostum gædd að hún á engin léleg lög, svona svipað eins og Bítlarnir.

Það kom bersýnilega í ljós á þessum tónleikum hversu ofboðslega miklu máli það skiptir að hafa góðan "frontmann" eins og hann Win Butler er og skilur það á milli góðra og frábærra hljómsveita. Að vísu þarf Win Butler ekkert að kvarta yfir samstarfsmönnum sínum sem geta spilað á hvaða hljóðfæri sem er og eru óhrædd við að skipta um hlutverk á milli laga. Arcade Fire sannaði það á þessu kvöldi að þau eru ein besta hljómsveit og tónleikasveit samtímans ef ekki allra tíma.

Og þannig endaði Benicàssim hátíðin árið 2011... með fullkomnun!

AF 1 AF 4

AF 5 AF 2
Nokkrar myndir frá kærustunni og þar á meðal hópurinn sem Dagfarinn fór með.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband