Kossinn sem ég aldrei kyssti

Öllum strákum í heiminum dreymir að kyssa sætustu stelpuna í skólanum en vita það innst inni að það á aldrei eftir að gerast. Aðeins örfáir fá kannski tækifærið á að smella einum á gyðjuna og enn færri fá tvö tækifæri. Ég var einn af þeim.

Það var í Kársnesskóla sem fyrra tækifærið gafst og var ég þá í 8. bekk. Sætasta stelpan í skólanum þá var án efa Katrín Ella en hún var þá í 10. bekk. Þegar maður er í 8. bekk í Kársnesskóla er maður gjaldgengur á fyrstu alvöru árshátíðina þar sem hljómsveit spilar fyrir dansi, nammibás er handan við hornið og útnefndir eru myndarlegustu, fyndnustu og gáfuðustu nemendur skólans. Hljómar alls ekki illa en eitthvern náði þetta ekki til mín og Gunnars Þórs en í stað þess að kaupa okkur miða á árshátíðina hjóluðum við uppí Kringlu og keyptum okkur tölvuleik. Okkur fannst árshátíðarkvöldinu betur borgið heima hjá Gunna fyrir framan sjónvarpsskjáinn með tvær fjarstýringar. Þangað til síminn minn hringdi.

Arnar Kári bekkjarbróðir var á línunni og honum lá mikið á.

AK: "Torfi, þú varst valinn húmoristi ársins! Hvar í fjandanum ertu?"
Ég: "Ehh, ég er heima hjá Gunna að spilatölvuleik, ertu samt ekki að grínast?"
AK: "Nei ég lofa, drífðu þig niður í skóla, styttan bíður ennþá eftir þér en ég er hræddur um að þú hafi misst af kossinum hennar Katrínar Ellu."
Ég: "Ha!! Hvað meinarðu?"
AK: "Já hún var að kynna verðlaunin og kyssti alla þá sem fengu verðlaun á kinnina."
Ég: "Við erum á leiðinni!"

Það tók ekki langan tíma að sannfæra Gunnar um að fara á árshátíðina. Fataskiptin tóku fljótt af og stuttu síðar vorum við mættir móðir og másandi í miðasöluna uppí skóla. Friðjón, forstöðumaður Ekkó, tók vel á móti okkur og óskaði mér innilega til hamingju með titilinn, rétti mér styttuna og sagði það mikið afrek hjá mér að vinna húmorista ársins svo ungur að árum. En mér stóð á sama því að það eina sem ég gat hugsað um var kossinn hennar Katrínar en fyrir hann var ég því miður of seinn.

Ég var búinn að jafna mig er næsta tækifæri var í augsýn þrem árum seinna. Þá var ég í MK rétt eins og Katrín en hún var líka sætasta stelpan þar. Ég landaði þá hlutverki Brad Majors í uppfærslu MK á The Rocky Horror Picture Show og það þýddi að ég myndi leika á móti Katrínu þar sem hún lék unnustu Brad, Janet Weiss.

Í handritinu var allavega einn augljós koss og því var ég gríðarlega spenntur. Ekki ósvipað því þegar Hayden Christensen komst að því að hann myndi leika á móti Natalie Portman í Star Wars II. Nú myndi ég loks fá kossinn sem ég missti af í 8. bekk og ekki bara einn heldur nokkra þar sem að sýningarnar voru tíu talsins og mögulega þyrfti að æfa kossinn á æfingum. Lukkan var á mínu bandi.

Tíminn leið og æfingarnar hófust. Ég fékk gjarnan far með Katrínu á æfingar þar sem ég var ekki með bílpróf og átti heima í næsta nágrenni. Það var ekkert lítið skrítið að sitja hliðina á henni í fallegri eðalkerru og var ég greinilega öfundaður af mönnum úti á götu. Ég var einn af þessum "Ohh, er hún svo bara með svona lúða!" gaurum. Lífið var ljúft.

En þegar æfingarnar hófust var ekki útlit fyrir neinn koss. Eftir lagið mitt "Erfitt Janet" átti að vera koss í endann en í staðinn áttum við að horfast í augu og mætast svo með kinnarnar og horfa útí salinn. Gat þetta í alvörunni verið? Bjarni (Frank 'n' Furter) og Viktor (Rocky) myndarlegir menn með meiru fengu úr meiru að moða og voru atriðin þeirra með Janet svæsin svo ekki sé meira sagt. Brad litli var skilinn eftír sár með tár.

Auðvitað fór maður að pæla af hverju Brad fékk ekki að kyssa Janet í leikritinu. Það hlýtur bara að vera að Katrín hafi beðið leikstjórann um að fjarlægja kossinn úr handritinu enda ekkert sérlega spennandi að kyssa rauðhærðan busa og það hefði getað svert mannorð hennar. Það er allavega eina skýringin sem mér dettur í hug.

Hvað er maður svo sem að kvarta? Ég fékk tvö tækifæri til þess að kyssa sætustu stelpu skólans, tvisvar sinnum fleiri en skólabræður mínir fengu.

90014843RL142633880
Erfitt, Janet. Janet og Brad baksviðs í Tjarnarbíói.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hahaha, þú ert skemmtilegur.  OG þú varst tekinn í rassgatið af mér ef ég man rétt?

Bjarni (IP-tala skráð) 15.4.2012 kl. 15:06

2 Smámynd: Torfi Guðbrandsson

Jú það passar. Algjör óþarfi að rifja það upp ;)

Torfi Guðbrandsson, 15.4.2012 kl. 15:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband