Tvífarinn: Kjartan Szczesny & Brynjar Duff

Já þá er komið að því, Dagfarinn kynnir með stolti EM-tvífara sína en þeir eru ansi veglegir að þessu sinni.

Báðir tvífararnir eiga það sameiginlegt að stunda knattspyrnu af mikilli ástríðu og geta líklega ekki hugsað sér tilveruna án knattarins. Við hefjum leikinn á yngri leikmanninum.

 Brynjar Duff Damien Duff

Það þarf ekki að kynna þessa leikmenn en ég ætla samt að gera það. Brynjar Hlöðversson eða Brynjar Björn eins og hann er stundum kallaður þekkja allir sem búa í Breiðholtinu og einnig stuðningsmenn liða í næstefstu deild á Íslandi. Brynjar getur spilað allar stöður á vellinum en kann víst best við sig í vörninni eða á miðjunni fyrir framan miðverðina. Hann þykir mikilvægur innan sem utan vallar og hefur víst stórt hjarta að geyma.

Tvífari hans er Damien Duff en hann hefur komið víða við á ferli sínum og spilar nú með Írlandi á EM. Þeir eru ekki aðeins svipaðir í smettinu heldur þykja þeir sýna svipaða hörku og áræðni á grasinu græna. Glæsilegir tvífarar hér á ferð!

Kjartan Chesney Chesney 

Það er bara fáránlegt að Dagfarinn sé sá fyrsti sem opinberar þessa tvífara. Hlutverk þeirra á vellinum eru ansi ólík, Kjartan sér um að skora mörkin á meðan Szczesny sér um að koma í veg fyrir þau. En í útliti eru þeir líkir og gætu allt eins verið bræður, þeir eru meira að segja með sömu klippinguna!

Í öðrum fréttum má nefna að bjargvættur síðasta sumars, Gunnar á völlum, er mættur aftur á völlinn og hefur Dagfarinn tekið gleði sína á ný í kjölfarið. Nýjasta þáttinn, upphitunarþáttinn má sjá á þessari slóð hér: http://www.mbl.is/frettir/sjonvarp/73060/.

Njótið Gunnars sem og EM, góðar stundir!


Milljónamæringurinn Michel Teló

Þegar þetta er skrifað hefur lagið "Ai Se Eu Te Pego!" með Michel Teló fengið 339,934,590 áhorf á YouTube! Það er hæstu tölur sem Dagfarinn hefur nokkru sinni séð. Dagfarinn kynnti sér aðeins manninn á bakvið lagið og framvindu þess.

Michel Teló er fæddur 21. janúar árið 1981 í Brasilíu og er 31 árs gamall. Hann byrjaði ungur í tónlist og það kom fljótt í ljós að það yrði hans vettvangur í framtíðinni. En Teló var ekki aðeins flinkur fyrir framan míkrafóninn því að einnig spilaði hann á harmonikku, píanó og gítar ásamt því að dansa.

Á árunum 1998-2008 fór Teló fyrir hljómsveitinni Grupo Tradicao og þrátt fyrir ungan aldur var hann aðal gaurinn í sveitinni. Hann sagði svo skilið við þá árið 2008 og hugðist ætla að einbeita sér að sóló ferlinum. Teló hefur nú þegar gefið út þrjár plötur, eina stúdíó og tvær tónleika en þær hafa selst mikið betur en stúdíó platan. Það er ekki algengt í tónlistarheiminum nú til dags en það virðist vera tilfellið með Michel Teló. Hann nýtur sín greinilega betur á sviði heldur en inni í stúdíónu.

"Ai Se Eu Te Pego!" er einmitt fyrsta lagið á plötunni Michel na Balada sem kom út í fyrra. Eins og áður sagði hefur lagið fengið næstum 340 milljón áhorf á YouTube sem eru vægast sagt stjarnfræðilega háar tölur. Myndbandið við lagið sýnir Teló ásamt hljómsveit uppá sviði að gera allt brjálað frammi fyrir fullum sal af kvenfólki og kannski fimm karlmönnum. Dansinn sem konurnar dansa við lagið er áberandi en Dagfarinn er ekki viss eftir hvern dansinn er þó líklega sé hann eftir Teló. Dansinn hefur vakið mikla athygli og þá sérstaklega í fótboltaheiminum.

Ástæðan fyrir því er meðal annars Neymar, einn af efnilegustu framherjum heims en hann spilar fyrir Santos í Brasilíu. Hann hefur ekki farið leynt með ást sína á laginu og hefur ófáum sinnum sungið það eða dansað dansinn við hin ýmsu tilefni. Þar af leiðandi fóru fleiri leikmenn að stíga sömu spor og má þar nefna menn eins og Cristiano Ronaldo (Real Madrid), Eric Abidal og Dani Alves (Barcelona), André Santos (Arsenal) og fleiri og fleiri. Í kjölfarið var Teló boðið til Real Madrid að hitta nokkrar af stærstu stjörnum liðsins ásamt því að eignast treyju með nafni sínu á.

michel-telo-real-madrid--644x362
Real friends. Teló ásamt Pepe, Ramos, Coentrao & Ronaldo.


Það sem kom Dagfaranum mest á óvart við þetta allt saman er að lagið er ekki eftir Michel Teló. Nei gott fólk, lagið er eftir þau Sharon Acioly og Antonio Dyggs og var samið árið 2008. Lagið var fyrst flutt af hljómsveitinni Os Meninos de Seu Zeh en fyrsta sveitin til að taka það upp var hin brasilíska Cangaia de Jegue og eftir það voru margar sveitir sem gerðu sínar útgáfur af laginu. Teló gerði það hinsvegar heimsfrægt og ekki ólíklegt að nóg sé að gera í svefnherbergi drengsins um þessar mundir.

Ps. Ef einhver leikmaður úr Pepsi deildinni er að lesa þetta, eins og t.d. Hörður Árna eða Hafsteinn Briem þá væri gaman að sjá ykkur eða liðsfélagana fagna að hætti Michel Teló þegar þið skorið næst.

Nokkur myndbönd af laginu í allskyns útgáfum.

Os Meninos de Seu Zeh tekur lagið:  http://www.youtube.com/watch?v=lT38lha8PMo 
Cangaia de Jegue tekur lagið:  http://www.youtube.com/watch?v=-uIepZ9POfY 
Teló tekur lagið ásamt Neymar:  http://www.youtube.com/watch?v=M0fHu9LKzCs 
Teló syngur á ensku: http://www.youtube.com/watch?v=lBrXlZK9VIE


Topp 5: Litlu listamennirnir á Rock Werchter

Dagfarinn er svo vel búinn að eiga miða á tónlistarhátíðina Rock Werchter sem fram fer í Belgíu í sumar. Í tilefni af því ætlar Dagfarinn að gera topp 5 lista yfir "litlu" hljómsveitirnar á hátíðinni.

Allir þekkja nöfn eins og The Cure, Pearl Jam, Florence + the Machine, Mumford and Suns o.s.frv. Færri hringja þó einhverjum bjöllum þegar talað er um listamenn á borð við Perfume Genius og Alabama Shakes. 

Dagfarinn ætlar að hringja þessum bjöllum fyrir ykkur. 

#5 Michael Kiwanuka 

michael-kiwanuka-e1326155098251Aðdáendur á facebook: 51.000
Breiðskífur: 1
Hvar: The Barn á laugardegi kl. 13:45 - 14:35
Á sama tíma og: t' Hof Van Commerce

Michael Kiwanuka lenti í fyrsta sæti BBC's Sound of 2012 en þau verðlaun eru veitt efnilegasta listamanninum ár hvert. Svo virðist vera að Michael sé uppi á röngum tíma en honum hefur verið líkt við kónga á borð við Otis Redding og Bill Withers. Home Again, fyrsta breiðskífa Michael er hugljúf og seiðandi og lofar góðu fyrir framtíðina. Það verður kósý stemning í loftinu hjá Kiwanuka á Rock Werchter í sumar.


#4 Perfume Genius

Perfume GeniusAðdáendur á facebook: 18.000
Breiðskífur: 2
Hvar: Pyramid Marquee á föstudegi kl. 15:15 - 16:15
Á sama tíma og: Wiz Khalifa

Perfume Genius er sóló verkefni Mike Hadreas. Hann gaf út plötuna Put Your Back N 2 It á þessu ári og hefur hún fallið vel í kramið hjá Dagfaranum. Myndbandið við lagið "Hood" hefur vakið mikla athygli en það skartar Arpad nokkrum Miklos, klámmyndaleikara á nærbuxunum.


#3 Alabama Shakes

alabamashakes-bigAðdáendur á facebook: 70.000
Breiðskífur: 1
Hvar: Pyramid Marquee á laugardegi kl. 14:35 - 15:30
Á sama tíma og: 't Hof Van Commerce

Alabama Shakes spilar góða blöndu af blús-, bílskúrs- og suðurríkjarokki með dassi af sál. Í apríl kom út frumburður þeirra, Boys and Girls og hefur hann hlotið góða dóma. Söngvarinn Brittany Howard er kannski ekki fallegasta kona sem Dagfarinn hefur séð en röddin hennar er svakaleg! Ef Janis Joplin og Tynu Turner yrði skellt saman yrði útkoman líklega Brittany. Ef þú fýlar The Black Keys þá er Alabama Shakes eitthvað fyrir þig. 

#2 Miles Kane

Miles-Kane-miles-kane-21184903-600-450Aðdáendur á facebook: 110.500
Breiðskífur: 1
Hvar: The Barn á föstudegi kl. 14:15 - 15:15
Á sama tíma og: Wiz Khalifa & Mastodon

Miles Kane er enginn nýgræðingur í tónlist þó hann hafi aðeins gefið út eina plötu undir sínu nafni. Hann er góðvinur Alex Turner (Arctic Monkeys) en saman voru þeir í The Last Shadow Puppets auk þess sem Turner hjálpaði til við að semja nokkur lög á sólóplötu Kane. Miles Kane fór einnig fyrir hljómsveitinni The Rascals svo drengurinn hefur næga reynslu og á sennilega eftir að slá í gegn á hátíðinni í sumar.


#1 M83

m83Aðdáendur á facebook: 405.000
Breiðskífur: 5
Hvar: Pyramid Marquee á laugardegi kl. 18:30 - 19:30
Á sama tíma og: Kasabian

Ferill M83 (Anthony Gonzales) hefur farið stigvaxandi í gegnum árin og er hann sennilega stærsta númerið á þessum lista. Hann sló endanlega í gegn í fyrra með tvöföldu plötunni Hurry Up, We're Dreaming sem innihélt meðal annars ofursmellinn "Midnight City". Dagfarinn gerir frekar ráð fyrir því að fólk fjölmenni á Kasabian sem spilar á sama tíma en hann ætlar ekki að láta sig vanta í draumaheim Gonzales!


Fjallar 'Hafið, bláa hafið' um samfarir?

Allir þekkja lagið 'Sigling' og hafa líklegast sungið það ófáum sinnum í tónmennt í grunnskóla. Lagið er eftir Friðrik Bjarnason en textinn eftir Örn Arnarson. Dagfarinn hefur oft pælt í textanum og þykir hann afar dónalegur ef rýnt er rétt í hann. Í eitt skipti fyrir öll verður gerð krufning á þessum texta og brátt munuð þið banna börnum ykkar að syngja um "hafið, bláa hafið".

Hafið, bláa hafið, hugann dregur.
Hér á Örn líklega við um konu og áhuga karlsins á henni.
Hvað er bakvið ystu sjónarrönd?
Hvað er á bakvið Barmahlíðina?
Þangað liggur beinn og breiður vegur.
Við vitum hvað þú átt við Örn, en vegurinn er kannski ekki alltaf breiður.
Bíða mín þar æsku drauma lönd.
Greinilega látið sér dreyma um samfarir síðan hann var lítill.

Beggja skauta byr
Jú jú, hér er augljóslega verið að vísa í sköp kvenmannsins!
bauðst mér aldrei fyrr.
Hér komumst við að því að hann er að gera þetta í fyrsta sinn.
Bruna þú nú, bátur minn.
Báturinn orðinn sjófær , nú hefst fjörið!
Svífðu seglum þöndum,
Nú gengur mikið á og skiptstjórinn tekur stjórnina.
svífðu burt frá ströndum.
Skipstjórinn ætlar að sleppa sér og tjalda öllu til sem hann á.
Fyrir stafni er haf og himininn.
Markmiðið er að fá fullnægingu, hafið er sum sé vökvinn úr karlinum
og himininn jafnast á við þá tilfinningu að fá það.

Eins og sjá má á krufningunni er alls ekki ósennilegt að höfundur sé að meina eitthvað annað en hann segir. Nánast allar setningarnar eru frekar vafasamar þó þær séu að einhverju leyti tengdar sjómennsku.  

Það er auðvitað löngu orðið þekkt að textahöfundar eru ekki allir þar sem þeir eru séðir og búa oft til einhverja kápu yfir mjög svo viðkvæm málefni eins og fíkniefni og í þessu tilfelli samfarir. Dagfarinn var meira að segja að komast að því að Örn Arnason var bara dulnefni Magnúsar Stefánssonar. Þar með fá vangaveltur mínar um textann byr undir báða vængi.

Kor
Saklaus stúlknakór Akureyrar tekur lagið.  


Kossinn sem ég aldrei kyssti

Öllum strákum í heiminum dreymir að kyssa sætustu stelpuna í skólanum en vita það innst inni að það á aldrei eftir að gerast. Aðeins örfáir fá kannski tækifærið á að smella einum á gyðjuna og enn færri fá tvö tækifæri. Ég var einn af þeim.

Það var í Kársnesskóla sem fyrra tækifærið gafst og var ég þá í 8. bekk. Sætasta stelpan í skólanum þá var án efa Katrín Ella en hún var þá í 10. bekk. Þegar maður er í 8. bekk í Kársnesskóla er maður gjaldgengur á fyrstu alvöru árshátíðina þar sem hljómsveit spilar fyrir dansi, nammibás er handan við hornið og útnefndir eru myndarlegustu, fyndnustu og gáfuðustu nemendur skólans. Hljómar alls ekki illa en eitthvern náði þetta ekki til mín og Gunnars Þórs en í stað þess að kaupa okkur miða á árshátíðina hjóluðum við uppí Kringlu og keyptum okkur tölvuleik. Okkur fannst árshátíðarkvöldinu betur borgið heima hjá Gunna fyrir framan sjónvarpsskjáinn með tvær fjarstýringar. Þangað til síminn minn hringdi.

Arnar Kári bekkjarbróðir var á línunni og honum lá mikið á.

AK: "Torfi, þú varst valinn húmoristi ársins! Hvar í fjandanum ertu?"
Ég: "Ehh, ég er heima hjá Gunna að spilatölvuleik, ertu samt ekki að grínast?"
AK: "Nei ég lofa, drífðu þig niður í skóla, styttan bíður ennþá eftir þér en ég er hræddur um að þú hafi misst af kossinum hennar Katrínar Ellu."
Ég: "Ha!! Hvað meinarðu?"
AK: "Já hún var að kynna verðlaunin og kyssti alla þá sem fengu verðlaun á kinnina."
Ég: "Við erum á leiðinni!"

Það tók ekki langan tíma að sannfæra Gunnar um að fara á árshátíðina. Fataskiptin tóku fljótt af og stuttu síðar vorum við mættir móðir og másandi í miðasöluna uppí skóla. Friðjón, forstöðumaður Ekkó, tók vel á móti okkur og óskaði mér innilega til hamingju með titilinn, rétti mér styttuna og sagði það mikið afrek hjá mér að vinna húmorista ársins svo ungur að árum. En mér stóð á sama því að það eina sem ég gat hugsað um var kossinn hennar Katrínar en fyrir hann var ég því miður of seinn.

Ég var búinn að jafna mig er næsta tækifæri var í augsýn þrem árum seinna. Þá var ég í MK rétt eins og Katrín en hún var líka sætasta stelpan þar. Ég landaði þá hlutverki Brad Majors í uppfærslu MK á The Rocky Horror Picture Show og það þýddi að ég myndi leika á móti Katrínu þar sem hún lék unnustu Brad, Janet Weiss.

Í handritinu var allavega einn augljós koss og því var ég gríðarlega spenntur. Ekki ósvipað því þegar Hayden Christensen komst að því að hann myndi leika á móti Natalie Portman í Star Wars II. Nú myndi ég loks fá kossinn sem ég missti af í 8. bekk og ekki bara einn heldur nokkra þar sem að sýningarnar voru tíu talsins og mögulega þyrfti að æfa kossinn á æfingum. Lukkan var á mínu bandi.

Tíminn leið og æfingarnar hófust. Ég fékk gjarnan far með Katrínu á æfingar þar sem ég var ekki með bílpróf og átti heima í næsta nágrenni. Það var ekkert lítið skrítið að sitja hliðina á henni í fallegri eðalkerru og var ég greinilega öfundaður af mönnum úti á götu. Ég var einn af þessum "Ohh, er hún svo bara með svona lúða!" gaurum. Lífið var ljúft.

En þegar æfingarnar hófust var ekki útlit fyrir neinn koss. Eftir lagið mitt "Erfitt Janet" átti að vera koss í endann en í staðinn áttum við að horfast í augu og mætast svo með kinnarnar og horfa útí salinn. Gat þetta í alvörunni verið? Bjarni (Frank 'n' Furter) og Viktor (Rocky) myndarlegir menn með meiru fengu úr meiru að moða og voru atriðin þeirra með Janet svæsin svo ekki sé meira sagt. Brad litli var skilinn eftír sár með tár.

Auðvitað fór maður að pæla af hverju Brad fékk ekki að kyssa Janet í leikritinu. Það hlýtur bara að vera að Katrín hafi beðið leikstjórann um að fjarlægja kossinn úr handritinu enda ekkert sérlega spennandi að kyssa rauðhærðan busa og það hefði getað svert mannorð hennar. Það er allavega eina skýringin sem mér dettur í hug.

Hvað er maður svo sem að kvarta? Ég fékk tvö tækifæri til þess að kyssa sætustu stelpu skólans, tvisvar sinnum fleiri en skólabræður mínir fengu.

90014843RL142633880
Erfitt, Janet. Janet og Brad baksviðs í Tjarnarbíói.


Þorvaldur Davíð ósáttur við lagaval í Svartur á leik

Leikarinn Þorvaldur Davíð Kristjánsson segist vera ósáttur við þá Frank Hall og Árna Sveinsson varðandi lagaval eitt í kvikmyndinni Svartur á leik í viðtali við Morgunblaðið í dag. Um er að ræða lagið "Þú og ég" eftir Hljóma sem var endurhljóðblandað af Frank Hall með góðum árangri. Lagið var notað undir atriði með Þorvaldi og Maríu Birtu og þótti það afar vel heppnað.

Þrátt fyrir það er Þorvaldur ósáttur þar sem hann hafði bent leikstjóranum Óskari Þór á lagið sitt "Sumarsaga" sem kom út árið 2009. Óskar sagði Þorvaldi að hann myndi bera hugmyndina undir þá Árna og Frank sem sáu um tónlistina í myndinni. Sá fundur gekk ekki vel enda var löngu búið að ákveða að lögin í myndinni væru frá þeim tíma sem myndin gerðist eða í kringum aldamótin og að lagið "Sumarsaga" væri einfaldlega of nýtt fyrir myndina.

Óskar sagði Þorvaldi frá niðurstöðu fundarins og var leikarinn hneykslaður yfir útkomunni enda taldi hann að staða hans í myndinni gæti hjálpað honum við að koma laginu í gegn.

Í viðtali við Moggann í dag hafði hann þetta að segja:

Auðvitað er þetta leiðinlegt enda fannst mér lagið smellpassa við atriðið í myndinni enda kómískt og rómantískt. "Sjáumst aftur" eftir Pál Óskar var t.d. notað í myndinni og gerði mikla lukku og ég sé ekki neina ástæðu fyrir því að "Sumarsaga" hefði ekki gert það líka. Þar að auki hefði Frank alveg mátt leika sér með það eins og hann gerði með lagið "Þú og ég". En að þeirra mati var lagið of ungt og spyr ég þá á móti, er "Þú og ég" ekki of gamalt?

En maður er víst leikari eftir allt saman en ekki tónlistarráðgjafi og því verður maður bara að sætta sig við þetta. Þetta er samt synd því að mér fannst lagið alltaf henta karakterunum Stebba og Dagnýju vel.

Þorvaldur hefur kannski nokkuð til síns máls og hefði verið fróðlegt að sjá útkomuna ef lagið hefði verið notað. Annars eru víst allir Íslendingar búnir að sjá myndina nema hjónin í Kirkjubóli í Vaðlavík en Dagfarinn hvetur þau til að skella sér í bæinn við fyrsta tækifæri og sjá myndina!


Óskarinn dagfaraður

Eftir að Dagfarinn lofaðist hefur skapast hefð hjá honum undanfarin 2 ár að horfa á Óskarsverðlaunin á stöð 2. Það sem honum hefur þó fundist miður er að vera ekki búinn að sjá allar myndirnar sem tilnefndar eru fyrir bestu mynd. Hann var ansi nálægt því í fyrra en þá hafði hann séð níu af þeim tíu sem voru tilnefndar. Það hefði kannski ekki skipt máli ef þessi eina mynd hefði ekki verið sigurmyndin, The King's Speech. Þessi mistök ákvað hann að gera ei aftur og sunnudaginn 19. febrúar síðastliðinn náði hann settum áfanga og sá allar þær 9 myndir sem tilnefndar eru í ár.

Dagfarinn ætlar að gerast svo góður og taka stutta yfirferð yfir þessar myndir og hita ykkur því upp fyrir sunnudaginn en þá fer einmitt Óskarinn fram.

The-Artist-PosterThe Artist

Það þykir undarlegt að á tímum 3D tækninnar komi út svarthvít mynd án hljóðs. Þrátt fyrir það hefur myndin sópað að sér verðlaunum og verið lofuð hástert. Skal engan undra enda um frábæra mynd að ræða. Stjarna þöglu myndanna, George Valentine er á síðasta söludegi á meðan Peppy Miller er stjarna framtíðarinnar. Myndin segir frá sambandi þeirra og afdrifum í heimi kvikmyndanna. Þó að myndin sé þögul og ekki í lit leikur hún sér að sjálfri sér og sker sig þannig frá hinum gömlu myndunum sem höfðu ekki núverandi tækni til taks. Frábær mynd og að mati Dagfarans besta mynd síðasta árs. Lítið hlutverk Malcolm McDowell gerði svo mikla lukku hjá Dagfaranum.

Tilnefningar á Óskarnum: 10 | Aðalhlutverk: Jean Dujardin, Bérénice Bejo, John Goodman. | Líkur á sigri: Góðar en það að hún sé frönsk gæti orðið henni að falli.

DescendantsThe Descendants

Hjartaknúsari hjartaknúsaranna George Glooney hefur sjaldan verið betri en hér enda maðurinn tilnefndur sem besti leikari í aðalhlutverki. Matt King er tveggja barna faðir og er búsettur á Hawaii. Konan hans liggur í dái eftir óheppilegt bátaslys. Á meðan dáinu stendur kemst King að því að stórslösuð kona hans var honum ekki trú. King telur réttast að hafa uppi á hjásvæfunni til að láta hana vita af ástandi konunnar. Úr því verður absúrd eltingaleikur með allri fjölskyldunni. Á milli þess stendur King fyrir þeirri ákvörðun hvort selja eigi landflæmi sem er í eigu fjölskyldu hans en ástand konunnar og framhjáhald hennar hafa mikið um það að segja. The Descendants kemur manni virkilega á óvart og er leikur Glooneys og Shailene Woodley til fyrirmyndar.

Tilnefningar á Óskarnum: 5 | Aðalhlutverk: George Glooney, Shailene Woodley, Amara Miller. | Líkur á sigri: Vinnur kannski ekki verðlaun f. bestu mynd en ætti að taka eina tvær styttur heim.

ExtremExtremely Loud & Incredibly Close

Að mínu mati sísta myndin sem tilnefnd er. Myndin segir frá Oskar Schell sem missir föður sinn í 9/11 árásunum. Feðgarnir voru afar nánir svo Oskar tekur missirinn afar mikið inná sig. Eftir rúmt ár fer hann inní herbergi föður síns að gramsa. Hann brýtur í kjölfarið fallegan vasa sem hefur að geyma lítið umslag með lykli í. Oskar er ákveðinn í því að finna lásinn sem lykillinn gengur að og telur að það geti fært hann nær föður sínum. Myndin er kannski full dramatísk að mínu mati en hvernig er annað hægt þegar 9/11 á í hlut? Það kom ekki fram í myndinni en ég tók Oskari alltaf sem einhverfum dreng. Hann er gríðarlega klár miðað við níu ára barn og hefur mikla þráhyggju. Auk þess er hann lítið fyrir hávaða, lyftur og samgöngur. Thomas Horn sem leikur Oskar stendur sig engu að síður vel og fær góða hjálp frá Tom Hanks og Söndru Bullock.

Tilnefningar á Óskarnum: 2 | Aðalhluverk: Thomas Horn, Tom Hanks, Sandra Bullock, Max von Sydow. | Líkur á sigri: Afar litlar að mínu mati en þar sem hún fjallar um 9/11 að hluta til gæti hún vakið samúð hjá dómnefnd.

The-Help-poster1The Help

Sjaldan hefur ein mynd kveikt upp jafn margar tilfinningar hjá mér og Húshjálpin. Skeeter Phelan (Emma Stone) er efnilegur penni sem er ekki sátt við hvernig hvítu hefðarfrúrnar koma fram við ráðskonur sínar sem eru dökkar að lit. Hún nýtir sér stöðu sína sem rithöfundur og fær þær Aibileen og Minny til að segja sínar sögur. Skeeter verður þó að fara varlega enda ekki vel séð í hennar samfélagi að eiga í slagtogi við svarta.

Myndin er virkilega vel leikin og mikið af sterkum karakterum. Ég var pínu efins með Emmu Stone í byrjun myndarinnar en hún var ekki lengi að sannfæra mig. Bryce Dallas Howard er virkilega góð sem herfan Hilly Holbrook en hún er greinilega fædd í að leika leiðinlegu týpuna enda fer hún gjarnan í taugarnar á mér á hvíta tjaldinu. Viola Davis og Octavia Spencer eiga svo sannarlega skilið sínar tilnefningar á Óskarnum enda vinna þær leiksigur. Jessica Chastain er svo einnig tilnefnd enda var hún frábær sem hin misheppnaða og misskilda Celia Foote sem minnti mann stundum á Ásdísi Rán á góðum degi.

Tilnefningar á Óskarnum: 4 | Aðalhlutverk: Emma Stone, Viola Davis, Octavia Spencer. | Líkur á sigri: Sigurstranglegasta myndin að mínu mati. Ef Meryl Streep væri ekki tilnefnd einnig sem besta leikkona í aðalhlutverki væri Viola Davis búin að tryggja sér styttuna.


hugo-poster_400x592Hugo

Hugo eftir Martin Scorsese kom mér eiginlega mest á óvart af myndunum sem tilnefndar eru. Að vísu fór ég ekki á hana í 3D eins og Scorsese vildi en engu að síður var upplifunin góð. Ekki ósvipað og í Extremely Loud & Incredible Close missir Hugo föður sinn ungur rétt eins og Oskar. Faðir Hugo skildi eftir sig undarlegt "vélmenni" sem gengur ekki ósvipað og klukka sem Hugo er einmitt snillingur í en hann sinnir öllum klukkum á lestarstöð einni í Frakklandi. Það vantar hins vegar örlítið upp á og nái Hugo að laga þetta undarlega vélmenni er hann viss um að það eigi eftir að koma til hans einhverjum skilaboðum sem eigi að færa hann til betri vegar. Tilgangur þessa vélmennis kom mér skemmtilega á óvart annað en lykillinn í EL&IC gerði og í raun hófst annað ævintýri inní Hugo ævintýrinu sem var afar skemmtilegt. Sacha Baron Cohen fær svo sérstakt hrós enda var hann virkilega góður sem lestarstöðvarvörðurinn. 

Tilnefningar á Óskarnum: 11 | Aðalhlutverk: Asa Butterfield, Chloë Grace Moretz, Ben Kingsley, Sacha Baron Cohen. | Líkur á sigri: Ég efast um að Hugo taki verðlaun fyrir bestu mynd en þætti þó ekki skrítið skyldi það gerast. Tekur eflaust með sér nokkrar styttur heim enda með langflestar tilnefningar.


midnight-in-paris-posterMidnight in Paris

Woody Allen sannar hér enn og aftur að hann er snillingur þegar kemur að handriti og leikstjórn. Hér er hann mættur með eina af sínum betri myndum í nokkur ár og það með Owen Wilson innanborðs! Skrítið leikaraval hugsaði ég en Owen Wilson átti ekki í vandræðum með rithöfundinn Gil og fortíðardrauma hans. Á hverri nóttu í fríi sínu í París hvarf Gil aftur í tímann má segja og hitti hann merkilegt fólk eins og Fitzgerald hjónin, Ernest Hemingway og Picasso svo eitthvað sé nefnt. Það var svo miklu meira varið í þennan draumaheim heldur en raunveruleikann hjá Gil þar sem eiginkona hans taldi sig vita hvað væri honum fyrir bestu og bla bla. Maður gleymdi sér alveg í þessum heimi með Gil í Bíó Paradís og það er einmitt snilldin við myndina, hún tekur þig með í ferðalag aftur í tímann. Óvænt rigning þegar komið var út á Hverfisgötuna gerði svo algjörlega útslagið. Þið sem hafið séð myndina vitið hvað ég meina.

Tilnefningar á Óskarnum: 4 | Aðalhlutverk: Owen Wilson, Rachel McAdams, Michael Sheen, Kathy Bates. | Líkur á sigri: Ekki þessi týpíska Óskarsmynd að mínu mati. Gæti samt alveg unnið eins og hver önnur og væri vel að titlinum komin.


moneyballMoneyball

Eina myndin sem ég þurfti að ná í ólöglega enda var hún ekki lengi í sýningu og hvergi sjáanleg á Laugarásvideo. En hvað um það. Brad Pitt er hér í fantaformi en hann er víst farinn að velja hlutverk sín út frá gæðum sem er snilld. Moneyball er sannsöguleg en hún segir frá þjálfaranum Billy Beane sem þjálfar hafnarboltaliðið Oakland Athletics. Hann fer óhefðbundnar leiðir miðað við önnur lið og þarf að redda sér ódýrum en samt góðum leikmönnum. Þetta gerir hann með hjálp hafnarbolta nördsins Peter Brand (Jonah Hill). Eins og gefur að skilja gera þeir alla í kringum sig gráhærða en þessi aðferð Beanes virðist hafa breytt hugsunarhætti manna í íþróttinni til frambúðar. Það er best að segja ekki meira enda líklega ekki margir Íslendingar sem hafa séð myndina. Njótið vel segi ég bara og það skiptir engu máli þó þið botnið ekkert í íþróttinni, þessi saga af Billy Beane er mögnuð.

Tilnefningar á Óskarnum: 6 | Aðalhlutverk: Brad Pitt, Jonah Hill, Philip Seymour Hoffman. | Líkur á sigri: Ég veit ekki hvar Moneyball stendur en hún ætti að eiga ágætis möguleika og Brad Pitt ætti að gefa Jean Dujardin og George Glooney góða samkeppni um besta leikarann í aðalhlutverki.

the-tree-of-life-movie-poster-02The Tree of Life

Ég varð eiginlega fyrir pínu vonbrigðum með þessa. The Tree of Life minnir meira á ljóð heldur en kvikmynd. Mér leið pínu eins og að vera að horfa á ljóð í mynd. Kvikmyndatakan er einnig óhefðbundin og truflandi á köflum. Maður var eitthvern alltaf að bíða eftir einhverju svakalegu en svo gerðist afar lítið. Sean Penn var óvenju lítið í mynd en hann gegndi öðru og minna hlutverki en ég hafði gert mér vonir um. Myndin segir frá fjölskyldu í Texas. O'Brien hjónin eiga þrjá stráka en þau nota mismunandi leiðir í uppeldinu á þeim. Móðirin er blíð og umhyggjusöm eins og mæður eru nú flestar en faðirinn er strangur og á það til að missa tök á skapi sínu. Honum vegnar ekki nógu vel í starfi og er í raun að gera allt annað en hann langar til sem gæti útskýrt gremju hans. Synirnir taka uppeldinu misvel og þá aðallega elsti bróðirinn sem kemst í "slæman" félagsskap og gerir hluti sem foreldrar hans yrðu æfir útaf. Eins og ég segi afar ljóðræn mynd hér á ferðinni sem ég átti erfitt með að ná tengingu við. En áferðafalleg og nokkrir góðir kaflar gera hana allavega að mynd sem hægt er að horfa á.

Tilnefningar á Óskarnum: 3 | Aðalhlutverk: Brad Pitt, Jessica Chastain, Sean Penn. | Líkur á sigri: Afar litlar að mínu mati og yrði ég frekar ósáttur ef hún fengi styttuna eftirsóttu.


war-horse-art_510War Horse

Spielberg er greinilega annt um yngri áhorfendur en ásamt War Horse skilaði hann af sér Tinna á síðasta ári. War Horse sýnir samband á milli hests og drengs sem temur hann og sinnir honum af ást og alúð. Sökum fátæktar selur faðir drengsins hestinn til hersins og skilja þá leiðir þeirra í bili. Það er gaman að fylgjast með afdrifum hestsins í stríðinu en þegar kemur að stríði eru fáir betri en Spielberg. Hesturinn Joey kemur víða við og fer manni að þykja vænt um margar persónurnar sem vilja hestinum vel. Eitt besta atriðið í myndinni er þegar tveir hermenn frá sitthvorum þjóðunum hjálpast að við að losa Joey úr gaddavírsflækju og gleyma í smástund að þeir eiga í stríði við hvorn annan. Í því atriði birtist einmitt hálfíslenskur drengur úr Benjamín Dúfu genginu í hlutverki þýsks dáta. Sum sé hjartnæm mynd sem maður verður aldrei of gamall fyrir.

Tilnefningar á Óskarnum: 6 | Aðalhlutverk: Jeremy Irvine, Emily Watson, Peter Mullen, Tom Hiddleton. | Líkur á sigri: Fremur litlar myndi ég halda enda kannski heldur barnaleg að mati sumra.

Þá hefur Dagfarinn lokið við það að fara yfir myndirnar níu sem tilnefndar eru fyrir bestu mynd. Vonandi hafið þið haft gagn og gaman af þessari yfirferð og hvet ég alla til að kíkja í bíó á þessar myndir eða útá leigu. Í lokin vil ég lýsa yfir ánægju minni að leikkonan Melissa McCarthy hafi fengið tilnefningu sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir hlutverk sitt í Bridesmaids en hún fór hreinlega á kostum þar. Annars óska ég ykkur bara gleðilegs Óskars og farsælt komandi kvikmyndaár.

Megan-bridesmaids-21959358-648-452
Dagfarinn lætur líklega fara jafnvel um sig yfir Óskarnum eins
Megan gerði í þessari flugferð.

Gullkorn: Frumsaminn texti um himneska ást

Það er vel við hæfi á þessum degi að opinbera gamalt ljóð eða gamlan texta sem ég samdi í 9. eða 10. bekk. Á þeim tíma var ég í hljómsveit sem spilaði aðallega þungarokk og tók ábreiður með sveitum eins og Metallica og Megadeth. Ég var söngvarinn í þessari sveit og langaði einn daginn til að sýna á mér mýkri hliðar og samdi því þennan yndislega texta.

Mig dreymdi að einn daginn myndi einhver úr hljómsveitinni semja lag við textann en aldrei varð neitt úr því. Síminn er því opinn og hefur reyndar verið það í 8 ár.

Eins og venjan er með Gullkornið ætla ég að birta textann í upprunalegri mynd. Njótið vel og hafið bréfþurrkur við hendina.

Love in Heaven

I can show you heaven
Before you can count to seven
Come with me
Because I will let you see
What heaven is beautiful
And what God is faithful
We can walk on the sky
And use our wings to fly 
Both of us will be so glad 
Know that we are never going to be sad

We will never cry
Because we know were not going to die
Here on heaven we are always glad
No one can make us bad
We will always be together
And love each other
I will be yours
You will be mine
I will love you
And you will love me

Höfundur: Torfi Guðbrandsson 

Eins og sjá má er sögusviðið himnaríki og annaðhvort var ég að hugsa um yfirnáttúrulegan mann eða hreinlega nýlátinn mann sem vildi taka makann með í skoðunarferð. Ég myndi litlu breyta í dag nema kannski lagfæra málfræðina hér og þar og henda inn kommum og punktum þar sem við á. Annars er ég bara nokkuð sáttur en þess má geta að þetta er eini textinn/ljóðið sem ég hef samið á ensku.

Að lokum vil ég koma sérstökum þökkum til Elfars Freys en hann varðveitti textann á harða disk sínum í nokkur ár áður en hann sendi mér hann.

Ps. Hvet lagahöfunda til að hafa samband og gleðilegan valentínusardag!

Pic
Svona sá ég fyrir mér ástfangið par í himnaríki á sínum tíma.
 


Ástæðan fyrir sigri Dana á EM

Eins og flestum er nú kunnugt voru það Danir sem hömpuðu Evrópumeistaratitlinum í handbolta árið 2012 eftir sigur á gestgjöfunum í Serbíu. En það sem fáir hinsvegar vita er ástæðan fyrir gulli Dana á mótinu. Ég ætla að vera svo myndarlegur að segja ykkur hvers vegna.

Mikkel HansenÞannig er mál með vexti að í liðinu er maður að nafni Mikkel Hansen (að þið haldið) en hann er af mörgum talinn besti leikmaður mótsins og jafnvel einn sá besti í heimi. Hansen var markahæsti leikmaðurinn í úrslitaleiknum með 9 mörk og átti sannkallaðan stórleik.

Þessi velgengni kemur mér ekki á óvart enda þykist ég þekkja rétta eðli mannsins. Þið munið kannski eftir honum á hvíta tjaldinu í fyrra en þá hélt hann á hamri og lét öllum illum látum í kvikmyndinni Thor. Jú þið lásuð rétt, við erum að tala hérna um þrumuguðinn Þór en ekki eitthvern Mikkel Hansen. Þið voruð blekkt og það illa og þið getið þakkað mér fyrir að uppljóstra þessu leyndarmáli því að ég veit að enginn annar mun gera það. Í raun finnst mér ótrúlegt að Þór (Hansen) hafi ekki skorað fleiri mörk miðað við ofurkrafta sína en hann hefur greinilega verið að halda aftur af sér til að vekja ekki á sér of mikla athygli!

THOR-movie-photosEins og sjá má á myndunum hér að ofan og hér til vinstri þá er ekki um að villast. Mikkel Hansen er Þór og Þór er Mikkel Hansen. Á því leikur enginn vafi og hvet ég Serbíu til að kæra úrslitin eins og skot.

Ég er svo heppinn að ég er að vinna með Serba sem hefur ágætis sambönd í heimalandinu. Kem ég til með að nýta þetta vinasamband í tengslum við þetta leiðinda mál og koma skilaboðunum á framfæri. Dragan hefur nú þegar hafist handa við að þýða þessa færslu á móðurmál sitt.

Þegar titlinum er svo loksins svipt af Dönum þá vitið þið hvar þið heyrðuð þetta fyrst, að sjálfsögðu hjá Dagfaranum! 


Tvífarinn: Brynjar Wilson & Arnar Helgi Johnston

Það er löngu kominn tími á nýja tvífara hér á Dagfaranum og eru þeir ekki af verri endanum í þetta skiptið. Báðir gengu þeir í Menntaskólann í Kópavogi en þar kynntist einmitt Dagfarinn þeim.

Sá fyrri hefur oft lent í vandræðum þar sem fjölmennt er en margir rugla honum einmitt saman við tvífara sinn. Fólk veitist að honum, kvenkynið reynir að koma kossi á hann, strákarnir biðja um eiginhandaráritun og enn aðrir velta fyrir sér læknavísundum í tengslum við nefið hans.

Ég er að sjálfsögðu að tala um Brynjar Árnason eða Brynjar Wilson eins og ég kýs að kalla hann.

Brynjar Wilson Owen Wilson
Eins og sjá má á þessum myndum er það alls engin vitleysa að halda því fram Owen Wilson leikari sé tvífari Brynjars. Eini sjáanlegi munurinn er auðvitað nefið á Wilson greyinu sem er í öðru sæti yfir þekktustu nef heims, á eftir nefi hins sáluga MJ.

Næstur í röðinni er Arnar Helgi Jónsson en ég tek það fram að hann var mun líkari tvífara sínum fyrir nokkrum árum en þá voru þeir nánast með sömu greiðslu. Einnig fara þeir svipað að þegar kemur að kvennamálum en það er önnur saga. Hans tvífari er ekki beint eins augljós og tvífarinn hér að ofan en maður sér samt ansi fljótt að hugmyndin er ekki alvitlaus.

Arnar Helgi Johnston
Ekki náðist að finna betri mynd af Arnari Helga með gömlu greiðsluna en þetta ætti að duga. Fyrir þá sem ekki þekkja Gary Johnston þá er hann einn af aðal karakterunum úr grínmyndinni Team America: World Police frá árinu 2004. Þeir hafa nákvæmlega sama munnsvip eins og myndirnar bera með sér og svo eru augun alveg jafn seiðandi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband