Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Hinn gaurinn

Það getur oft verið snúið mál að bera sama nafn og einhver frægur og þá sérstaklega á Íslandi. Páll Óskar Hallgrímsson, 22 ára piltur frá Kópavogi er einn þeirra.

Páll Óskar sem gengur oftast undir nafninu Palli var skírður í mars árið 1989. Foreldrum Palla óraði ekki fyrir því að nokkrum árum seinna skyldi rísa upp samkynhneigður poppkóngur með sama nafn.

Blessunarlega var Palli laus við öll leiðindi í grunnskóla en hann segist þó hafa fundið aðeins fyrir stríðni í menntaskóla!

"Ég man eftir tveim strákum sem voru með mér í íslensku og sátu á fremsta bekk. Þegar kennarinn las upp nafn mitt bættu þeir alltaf við "Hjálmtýrsson" og bekkurinn flissaði í kjölfarið. Á endanum þurfti ég að segja mig úr áfanganum."

Annars gekk menntaskólagangan slysalaust fyrir sig segir Palli. Reyndar var hann einu sinni beðinn um að vera dómari í söngvakeppni skólans.

"Það voru kynnar keppnarinnar sem fengu þá skemmtilegu hugmynd að bjóða mér að vera dómari í söngvakeppninni. Því miður komst sú tillaga ekki í gegnum skólastjórnina en hún vildi meina að ég væri ekki fær um að dæma söng!"

Sorgarsaga enda hefði verið gaman að sjá viðbrögð fólks við algjörlega óþekktum manni í dómnefndinni. 

En það er ekki langt síðan að Palli þurfti að hringja í 118 og biðja um nýtt starfsheiti vegna leiðinlegs misskilnings.

"Undanfarna mánuði hef ég verið að fá símtöl á öllum tímum sólarhringsins. Þetta er að sjálfsögðu fólk sem ruglar mig við poppstjörnuna frægu."

Aðspurður hvers konar símtöl eru þau margskonar.

"Fólk hefur verið að hringja í mig og spyrja mig ráða hvernig eigi að koma út úr skápnum t.d. Einnig hefur fólk verið að reyna að panta mig á böll og árshátíðir en ég bendi þeim kurteisislega á nafna minn og gef þeim rétta númerið."

Símtöl sem þessi eiga sér stað endrum og eins en hann segist hreinlega slökkva á símanum yfir Gay Pride hátíðina frægu.

"Eftir fyrstu hátíðina var aldrei spurning um annað. Síminn hreinlega stoppaði ekki og fólkið sem hringdi var á barmi taugaáfalls. Þetta var aðallega fólk sem kom að skipulagningu hátíðarinnar að einhverju leyti og vildu ræða við mig tímasetningar, atriði og að sjálfsögðu Gay Pride ballið á Nasa. Það var erfitt fyrir mig að komast að í símanum og stundum varð ég að skella á þar sem fólkið trúði mér ekki er ég sagðist vera Hallgrímsson!" 

Á endanum fékk Palli nóg og hringdi upp í 118 og sagði símadömunni frá vanda sínum. Hann bað hana vinsamlegast um að setja "hinn gaurinn" fyrir aftan nafnið sitt í símaskránni. Símadaman sýndi Palla mikinn skilning og var það lítið mál að verða við bón drengsins. Ekki nóg með það heldur hefur ótímabærum símtölum fækkað verulega.

"Fólk veit vanalega ekki númerið hjá Páli Óskari og fer því á ja.is og flettir því upp þar. Þetta hefur greinilega komið sér vel fyrir mig því fólk hefur útilokað mig er það sér "hinn gaurinn" fyrir aftan nafnið mitt."

Þrátt fyrir allt segist Palli aldrei hafa hugleitt það að breyta um nafn enda sé það einkar fallegt, bæði í máli og ritun. Hann segir einnig að nafnið virki sem góður ísbrjótur á dömurnar í hundrað og einum og með þeim orðum lýkur Dagfarinn umfjöllun sinni um "hinn gaurinn".

Hinn gaurinn


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband