Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Ofurmennið í MK

Það er kannski ekki á allra vitorði að Dagfarinn hafi gengið menntaveginn í Menntaskólann í Kópavogi á sínum yngri árum. Átti ég þar fjögur gæfurík ár sem sneisafull eru af skemmtilegum minningum sem gaman er að rifja upp endrum og eins. Ég ætla einmitt að rifja upp eitt atriði og svo skemmtilega vill til að ég á það á myndbandi.

Atvikið átti sér stað á fyrstu önninni minni (2005) og Tyllidagar voru í gangi en það voru tveir dagar þar sem boðið var uppá allskonar skemmtun og svo lauk afþreyingunni með hressandi dansleik. Á meðal atriða var tískusýning sem var með stærri atburðum þessara daga og var engu til sparað, hvorki í fötum né módelum. Svo skemmtilega vildi til að ég var valinn til þess að taka þátt í sýningunni en á þessum tímapunkti var Landsbanka-auglýsingin sem ég lék í farin að vekja á sér athygli.

Eins og þið getið ímyndað ykkur var það mikil upplifun að vera baksviðs að klæða sig og mála með "best of" fólkinu í MK sem var allt svo fínt og fallegt. Dressman strákarnir báðu mig um að taka Landsbanka-svipinn fræga og höfðu gaman af útkomunni. Þegar ég hélt að lífið gæti ekki orðið betra kom stelpan sem sá um sýninguna að mér og rétti mér Superman búning.

Ég: Hvað er þetta?
Stelpan: Sko áður en þú ferð í fötin frá Dead þá áttu að fara í þennan búning og hlaupa inn á eftir Herdísi sem verður í náttkjól frá Spútnik.
Ég: ????
Stelpan: Svo var pælingin að þú myndir kíkja undir kjólinn hennar, hún bregst illa við og þú hleypur skelfingu lostinn til baka. Okei?

Hvað gat ég sagt? Ég stóð þarna sjokkeraður fyrir framan stelpuna sem beið eftir að ég myndi taka við búningnum. Öll módelin horfðu á mig með alvarlegum augum og biðu eftir svari frá aumingja busanum. Allir bjuggust við neikvæðu svari frá mér enda nýbyrjaður í skólanum og með sviðskrekk eftir því. Ég vissi að ef ég myndi segja nei þá yrði mér hent út og mér breytt í veggjarlús sem enginn myndi vilja tala við. Það var því enginn annar kostur í stöðunni en að segja já.

Ég var nú staddur frammi fyrir mikilli áskorun, þeirri stærstu hingað til í lífi mínu. Það er ekki hver sem er sem getur leikið ofurmennið og hvað þá perralega og veiklulega útgáfu af honum. Ég get varla líst stressinu og öllum fiðrildunum sem tóku þátt í því, Herdís var líka svo sæt og ég vissi vel að hún yrði ekkert sátt við það að ég myndi gægjast undir kjólinn hennar. En allra augu voru á mér og ég vissi að ef ég myndi klúðra þessu, þá væri ég búinn að klúðra menntaskólagöngu minni líka. 

En illu er best aflokið og hér er afraksturinn..


Dagfarinn í Hollywood

Ég nýtti síðustu jól mjög vel að mínu mati og eitt af því sem ég nýtti tímann í var að horfa á allar Narníu myndirnar. Þessar myndir hafa aldrei vakið upp neinn sérstakan áhuga hjá mér en það breyttist þegar ég las grein í Mogganum um Narníu bækurnar sem eru eftir C.S. nokkurn Lewis. Þar var verið að tala um ljónið Aslan og því haldið fram að þarna væri Lewis með sjálfan Guð almáttugan í ljóns líki. Eftir lestur þessarar greinar vildi ég ólmur kíkja á þessar myndir og ekki skemmdi fyrir jólabragurinn sem var yfir þeim, allavega þeirri fyrstu.

Myndirnar voru hin ágætasta skemmtun og gaman að horfa á þær með því sjónarmiði að taka eftir kristilegum töktum Aslans. Það fór ekki á milli mála hver Aslan ætti að vera og nú er ég eiginlega farinn að sjá fyrir mér Guð sem tilkomumikið ljón fullt af visku og fróðleik sem göfgar manninn. Liam Neeson á svo stórann þátt í að gera Aslan að þeim drottnara sem hann er. En nóg um Aslan.

Það sem vakti mikla kátínu hjá mér átti sér stað í þriðju myndinni. Þá sogast systkinin Lucy og Edmund ásamt frænda sínum Eustace inní málverk eitt og eftir nokkra stund eru þau stödd úti á Narníu sjó í sparifötunum. Þau þurfa þó ekki að örvænta þar sem að prins Caspian er skammt undan með hermönnum sínum á skipi sínu, Dagfaranum

Dawn Treader (Dagfarinn)
Dagfarinn á siglingu.
Já þið heyrðuð rétt, Caspian og hans fylgismenn voru á skipinu Dagfara eða Dawn Treader á frummálinu (reyndar hefði ég ekki þurft að gera meira en að líta á titil myndarinnar sem er The Voyage of the Dawn Treader). Myndin gat í raun ekki klikkað eftir þetta og ég lifði mig mjög mikið inní hlutverk skipsins.

Ég er gríðarlega ánægður með þessa skemmtilegu tilviljun og ég tel að þetta eigi eftir að gera síðunni gott í framtíðinni. Nú hefur bæst við enn ein hugsanleg meiningin fyrir titli síðunnar og er það af hinu góða. Hinsvegar ætla ég nú að taka seglin niður og hvet ég lesendur Dagfarans eindregið til þess að sjá Narníu myndirnar ef þeir sakna Múfasa ennþá.                 


Fimleikaskellur

Það vakti athygli að tímaritið Nýtt Líf skyldi velja fimleikastúlkurnar úr Gerplu sem konu(r) ársins 2010. Það var svo sem ekki úr miklu að moða að þessu sinni en í fljótu bragði dettur mér í hug hin unga Ástrós Gunnlaugsdóttir sem komst inná Stjórnlagaþing með glæsibrag. Dagfarinn ætlar þó ekki að fara að gagnrýna val tímaritsins heldur svipta hulunni af hrottalegum atburði sem átti sér stað innan veggja Gerplu fyrir nokkrum árum.

Söguhetjan að þessu sinni er vinkona mín og klippikona Svava Björk. Hún var á sínum tíma að æfa fimleika með Gerplu og keppti stöku sinnum með þeim. En ferillinn var ekki langur sökum þessa atburðar sem þið verðið brátt vitni af. Árið 2006 var hún að keppa með tromphópi Gerplu á móti einu sem átti eftir að hafa áhrif á líf hennar til frambúðar. Henni til varnar var hún ekki upp á sitt besta en hún hafði misst dálítið úr vegna veikinda og því var hún ekki 100% undirbúin. En þrjóska þrautir þreytir allar og var það svo í tilfelli Svöru þennan örlagaríka dag.

Sjón er sögu ríkari og eftir nokkra fína takta hjá stelpunum má sjá hvar Svava skellur í gólfið með tilþrifum, það gerist nákvæmlega þegar 54 sekúndur eru liðnar af myndbandinu. Alls ekki fyrir viðkvæma.

 
Ótrúlegt en satt þá heilsast Svövu vel daginn í dag og sést lítið sem ekkert á andliti hennar. Það verður að teljast kraftaverk en eins og gefur að skilja hætti hún samstundis iðkun fimleika eftir þetta og setti alla sína orku í klipparann sem hún sinnir af mikilli skyldurækni og alúð.
 
Með þessari frásögn vildi ég vekja athygli á því hversu hættulegt það getur verið fyrir fólk að stunda fimleika. Ég fullyrði það að allar stelpurnar úr hópi Evrópumeistarana 2010 í hópfimleikum hafa upplifað samskonar atvik eitthvern tímann á ferlinum en enginn dettur lengra en til jarðar og þá er um að gera að rísa á fætur og reyna aftur.
 
Lifið varlega en djarflega!

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband