Benicàssim 2011: Sunnudagur

Þá var komið að síðasta degi hátíðarinnar og sem fyrr fór kvöldið frekar hægt af stað. Það var ósk mín að sjá velsku hljómsveitina Joy Formidable en þar sem ég vildi kaupa hátíðar bol þurfti ég að sætta mig við að hlusta á sveitina í þéttum hópi fólks sem beið eftir afgreiðslu. Svekkjandi það.

En það þýddi ekkert að hengja haus enda hljómsveitin bara písl miðað við það sem framundan var. Það var ágætis spenna í hópnum fyrir hljómsveitinni Noah and the Whale en hún ætti að vera hlustendum X-ins og Rásar 2 að góðu kunn þar sem lagið þeirra "L.I.F.E.G.O.E.S.O.N." hefur verið mikið í spilun sem og fleiri lög. Strákarnir mættu í snyrtilegum klæðnaði uppá svið og hárgreiðslan "síður toppur til hægri" virðist vera að gera góða hluti á þeim bænum. Þeir tóku öll sín bestu lög að mati Dagfarans en náðu þó aðeins að spila í 40 mínútur en ekki 60 eins og til stóð. Þeir enduðu einmitt á fyrrnefndu "L.I.F.E.G.O.E.S.O.N." og gerðu heiðarlega tilraun til að láta klappa sig upp en lófatakið lét á sér standa. Lýðurinn var greinilega farinn að huga að næstu tveimur hljómsveitum.

Rúmlega klukkutíma síðar hóf hljómsveitin Portishead leikinn og þvílik veisla sem Beth Gibbons og félagar buðu uppá! Tónleikarnir voru í einu orði sagt fullkomnir. Lagavalið var virkilega gott en mest var tekið af síðustu plötu þeirra Third ásamt helstu slögurunum af Dummy. Sviðsetningin var ein sú flottasta á hátíðinni og minnti Dagfarann mikið á gjörninginn hjá Radiohead á Reading hátíðinni 2009. Portishead er hljómsveit í þungavigt og það þýðir í raun ekkert að fjölyrða neitt um þessa tónleika eitthvað frekar enda voru þeir fullkomnir í alla staði.

Portishead á FIB 2011

Þá var loksins komið að hljómsveitinni sem Dagfarinn hefur ætlað að sjá síðan að hann heyrði upphafslagið á plötunni Funeral árið 2005, Arcade Fire. Uppáhalds núlifandi hljómsveit Dagfarans og hefur verið það lengi. Meðlimir sveitarinnar hafa aldrei verið kenndir við neitt rugl og eru í senn afar þroskaðir einstaklingar sem lifa fyrir tónlistina og ekkert annað. Einskonar Lionel Messi tónlistarinnar.

Eins og hjá Portishead var sviðið fallega skreytt sem gerir upplifunina enn betri. Útlitið minnti helst á inngang á gamaldags kvikmyndahúsi sem auglýsti sýningu kvöldsins, The Suburbs. Og það var einmitt raunin því að tónleikarnir byrjuðu á smá stiklu af stuttmyndinni Scenes from the Suburbs en hún er skrifuð af söngvaranum Win Butler og leikstjóranum Spike Jonze.

Loks birtust meðlimirnir á sviðinu og töldu að sjálfsögðu í lagið "Ready to Start" enda vel við hæfi. Áfram hélt fjörið og voru leikin lög af öllum ferlinum þó mest af frumburðinum Funeral og þeirri nýju The Suburbs. Hápunktar tónleikanna voru líklega þegar þau tóku "Intervention" og "Neigboorhood #1 (Tunnels)" sem eru uppáhalds tónverk Dagfarans. Einnig komu "No Cars Go", "We Used to Wait" og "Sprawl II (Mountains Beyond Mountains)" sterk inn ásamt öllum hinum lögunum. Arcade Fire er nefnilega þeim kostum gædd að hún á engin léleg lög, svona svipað eins og Bítlarnir.

Það kom bersýnilega í ljós á þessum tónleikum hversu ofboðslega miklu máli það skiptir að hafa góðan "frontmann" eins og hann Win Butler er og skilur það á milli góðra og frábærra hljómsveita. Að vísu þarf Win Butler ekkert að kvarta yfir samstarfsmönnum sínum sem geta spilað á hvaða hljóðfæri sem er og eru óhrædd við að skipta um hlutverk á milli laga. Arcade Fire sannaði það á þessu kvöldi að þau eru ein besta hljómsveit og tónleikasveit samtímans ef ekki allra tíma.

Og þannig endaði Benicàssim hátíðin árið 2011... með fullkomnun!

AF 1 AF 4

AF 5 AF 2
Nokkrar myndir frá kærustunni og þar á meðal hópurinn sem Dagfarinn fór með.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband