Benicàssim 2011: Laugardagur

Þær voru ekki nema sex hljómsveitirnar sem mig langaði til að sjá þetta kvöldið og dreifðust þær á tvö svið svo ég gat ekki séð þær allar. Þetta er að mínu mati einn af fáum ókostum við hátíðina en úrvalið af góðum hljómsveitum er ekki eins og gott og verða vill á öðrum sambærilegum hátíðum í Evrópu. Þess í stað beita FIB-liðar sér fyrir því að hafa stóru hljómsveitirnar stórar og litlu hljómsveitirnar mjög litlar. Þetta er að sjálfsögðu bara mín skoðun.

Fyrst á dagskrá þetta laugardagskvöldið var hljómsveitin Bombay Bicycle Club en hún stóð sig með miklum sóma á síðustu Iceland Airwaves hátíð. Sveitin er að fara að gefa út nýja plötu í enda þessa mánaðar en lagið þeirra "Shuffle" hefur til að mynda verið í spilun á X-inu í sumar. Ég var því nokkuð spenntur fyrir tónleikum þeirra og í þetta sinn á stærri hátíð fyrir framan fleiri áhorfendur. Tónleikarnir voru í einu orði sagt mikil vonbrigði og á endanum fannst mér þeir það slappir að ég ákvað að færa mig yfir á Mumford & Sons. Ástæðan var algjört kraftleysi af þeirra hálfu og veit ég ekki hvort hægt sé að kenna hljóðkerfinu um eða þeirra eigin getuleysi. Söngvarinn var að sama skapi virkilega lélegur þetta kvöldið og virtist hann eiga í miklum erfiðleikum með sönginn sinn sem heyrðist varla fyrir utan sviðið. Þeir náðu aldrei að skapa stemninguna sem myndaðist t.d. á Airwaves hátíðinni og þrátt fyrir slagara sína komst aldrei nein almennileg hreyfing á gestina.

Það hefði þótt ólíklegt fyrir hátíðina að ég léti mig hafa það að fara að sjá Mumford & Sons en það var ekkert annað í boði eftir vonbrigði Bombay. Ég stóð á besta stað, á barnum fyrir framan risaskjá og gat verið silkislakur enda nauðsynlegt að hlaða batteríin fyrir Arctic Monkeys sem voru næstir í röðinni. Mumford-liðar voru þokkalegir en ég bjóst við betri tónleikum og meiri keyrslu ef ég á að segja eins og er. Kannski var ég of langt frá sviðinu en það ætti ekki að koma að sök enda risa hátalarar útum allt. En fólk var að fýla þetta vel og auðvitað enduðu þeir á laginu "The Cave" við mikinn fögnuð áhorfenda.

Spennan eftir Arctic Monkeys var orðin býsna mikil enda kvöldið ekki búið að fara neitt sérstaklega vel af stað. Fyrst var það skita Bombay, svo var það svekkelsið að missa af Beirut og eftir allt saman endaði maður á Mumford. Arctic Monkeys átti heldur betur eftir að rífa kvöldið upp. Dagfarinn hafði áður séð þá á Reading hátíðinni árið 2009 en þá voru þeir nýbúnir að gefa út plötuna Humbug. Stemningin á þeim tónleikum var nokkuð spes og minnti helst á jarðarför. Í þetta skiptið var allt annar bragur á þeim enda nýbúnir að gefa frá sér hina vel heppnuðu Suck It and See. Alex Turner forsprakki sveitarinnar var aðeins of svalur á því í eiturhörðum leddara og ekki síðri hlýrabol. Lagavalið var virkilega gott hjá Sheffield strákunum en mest var tekið af Favourite Worst Nightmare og Suck It and See. Aðeins tvö lög voru tekin af Humbug mér til mikillar ánægju en því miður var "Cornerstone" ekki eitt þeirra. "Still Take You Home" og "When the Sun Goes Down" af fyrstu plötunni voru svo sérlega miklir gleðigjafar fyrir Dagfarann. Heilt yfir frábærir tónleikar og sviðsframkoma Alex Turners var með besta móti enda skemmti hann sér greinilega vel og það smitaði að sjálfsögðu út frá sér.


Skemmtilegt viðtal við meðlimi Arctic Monkeys fyrir tónleikana.

Síðasta hljómsveit kvöldsins hjá Dagfaranum var Primal Scream en samkvæmt plakatinu áttu þeir sérstaklega að kynna til leiks meistaraverkið sitt Screamadelica sem er líklega ein besta plata allra tíma. Bobby Gillespie og félagar voru algjörlega með þetta og hlóðu í hvern slagarann á fætur öðrum. Að auki voru þeir með eina vel þétta svarta söngkonu sem fékk greinilega raddbönd í vöggugjöf og átti hún stóran part af sýningunni sem Primal Scream bauð uppá. Eftir að búið var að taka flest lögin af Screamadelica var stuðið keyrt ennþá meira upp með lögunum "Country Girl", "Jailbird" og "Rocks" og réð Dagfarinn sér ekki af gleði enda um eitt af hans uppáhalds lögum í gervöllum heiminum að ræða. Ekki amalegt að sjá þessa mögnuðu hljómsveit flytja sín bestu lög og virkilega góður lokahnykkur á þessu laugardagskvöldi.

Bobby Gillespie
Bobby Gillespie söngvari Primal Scream í fýling.

Erfitt var að sjá á eftir: Beirut, Big Audio Dynamite


Benicàssim 2011: Föstudagur

Eftir að hafa legið í skugga mest allan daginn var loksins komið að því að fara á tónleika og spennan var í hámarki því nú var komið að þeim hljómsveitum sem drógu okkur krakkana á hátíðina.

Ég byrjaði kvöldið á pönksveitinni goðsagnakenndu The Undertones sem tilkynnti strax í byrjun að þeir ætluðu að spila fyrstu plötu sína í heild sinni sem var að mínu mati mjög sterkur leikur. Lög eins og "Here Comes the Summer", "Jimmy Jimmy" og síðast en ekki síst "Teenage Kicks" fengu að óma við gríðarlega góðar undirtektir áhorfenda. Söngvarinn Paul McLoone var í banastuði uppi á sviði en vissulega hefði verið skemmtilegra að sjá upprunalega söngvarann Feargal Sharkey þenja raddböndin á FIBCLUB sviðinu þetta kvöldið. Mjög svo skemmtilegir tónleikar og góð byrjun á þessu föstudagskvöldi.

Stefnan var nú tekin á næststærsta svið hátíðarinnar FIBERFIB.COM til að sjá franska dúettinn Herman Düne en þeir eru sagðir undir áhrifum frá mönnum eins og Bob Dylan, Leonard Cohen og Chuck Berry. Þó þeir tali um sig sem dúett eru fleiri sem spila með þeim á tónleikum svo úr verður ansi þétt og góð hljómsveit. Ég var virkilega ánægður með Herman Düne en sveitin stóðst væntingar mínar og vel það. Það sveif yfir þeim gamaldags og þægileg stemning og færni gítarleikarans minnti oftar en ekki á stjörnutakta Chuck Berry. Þar að auki eiga þeir bara fjandi góð lög og fyrir Íslendinga mæli ég hiklaust með nýju plötunni þeirra Strange Moosic.

Eftir nokkur gefins karamelluskot var haldið aftur að FIBERFIB.COM sviðinu í þeim tilgangi að bera The Stranglers augum. Hljómsveitin hefur lengi verið í uppáhaldi hjá Dagfaranum og ekki síst lagið "Golden Brown" sem er líklega það besta sem samið hefur verið á þessari jörð. Því miður vorum við í tímaþröng þar sem stutt var í The Strokes en til allrar lukku var "Golden Brown" einmitt síðasta lagið sem þeir tóku áður en við héldum á brott. Það var með sorg í hjarta sem við kvöddum The Stranglers enda sýndu þeir að þeir hafa engu gleymt í tónleikahaldi.

Þá var komið að fyrstu hljómsveitinni sem var svona ástæðan fyrir því að við skelltum okkur á Benicàssim hátíðina, The Strokes. Spennan var mikil í hópnum enda um eina merkilegustu hljómsveit 21. aldarinnar að ræða. Þeir létu reyndar bíða eftir sér í nokkrar mínútur en byrjuðu með látum á laginu "New York City Cops" er þeir mættu loksins. Tekin voru lög af öllum ferlinum en þó var mest tekið af Is This It plötunni, gallhörðum aðdáendum til mikillar gleði. Þó að þeir hafi spilað lögin sín óaðfinnanlega mátti greinilega sjá að lítill kærleikur er í gangi hjá hljómsveitinni þessa stundina og fannst mér það bitna á skemmtanagildi tónleikana. Þeir spiluðu einnig hálftíma minna en til stóð og fannst mér alveg vera pláss fyrir lög eins og "12:51" og "Heart in a Cage" sem hefðu fullkomnað þessa tónleika fyrir mér. Góðir tónleikar en ekki fullkomnir.

Breska hljómsveitin Friendly Fires var næst á svið og þvílíkir tónleikar sem þeir buðu uppá! Ég vissi reyndar að þeir væru góðir en ekki svona góðir. Á eitthvern ótrúlegan hátt blanda þeir saman indí rokki, fönki og diskó tónlist svo úr verður svakaleg partý tónlist. Stemningin var einhvern veginn allt önnur en á The Strokes og var söngvarinn kófsveitti Ed Macfarlane í sérstaklega miklu stuði sem skilaði sér beint til áhorfenda. Þeir spiluðu lög af báðum plötum sínum og skiptu þeim bróðurlega á milli sín en þeir gáfu einmitt út plötuna Pala fyrr á þessu ári og sá Dagfarinn ástæðu til þess að nefna hana í færslu sinni um fyrri hluta plötuársins 2011. "On Board" var hápunkturinn að mínu mati enda dillaði ég mér eins og ég ætti lífið að leysa. Friendly Fires tókst að loka þessum góða flöskudegi með stæl og væri ég alveg til í að sjá þá aftur einn daginn.

Ed söngvari Friendly Fires
Eins og sjá má á þessari mynd var Ed Macfarlane í góðum gír!

Erfitt var að sjá á eftir: James Murphy, The Morning Benders, The Stranglers


Benicàssim 2011: Fimmtudagur

Dagfarinn hefur verið vant við látinn síðustu daga, bæði í Barcelona og á tónlistarhátíðinni FIB - Benicàssim í samnefndu sveitafélagi. Hátíðin hefur verið haldin frá árinu 1995 við góðan orðstír en hátíðina sækja aðallega Bretar ásamt Spánverjum. Ég ákvað snemma á árinu að þetta væri tónlistarhátíðin sem ég vildi fara á en mjög snemma var tilkynnt að Arcade Fire, Arctic Monkeys og The Strokes væru aðal númerin. Staðsetningin heillaði líka, sólarströnd á daginn og tónleikar á kvöldin. Gerist það betra? Líklega já.

Við vorum átta Íslendingar sem sóttum hátíðina saman og var tímanum eytt í Barcelona fyrir og eftir hátíðina. Við tókum lest til Benicàssim á miðvikudegi en hátíðin sjálf hófst daginn eftir. Eins og gefur að skilja er ekki hægt að hafa tónleika yfir daginn sökum hitans og styrk sólarinnar svo flestir tónleikarnir hófust um sex, sjö leytið.

Ég missti af fyrstu tónleikum dagins sökum verslunarleiðangurs sem ætlaði engan endi að taka. Það var hljómsveitin The Spires frá Sheffield í Bretlandi en hún minnir um margt á hljómsveitina White Lies. Mér til mikillar gremju heyrði ég aðallagið þeirra í fjarska þegar ég var að setja birgðirnar í tjaldið en það þýddi ekkert að hengja haus, kvöldið átti eftir að verða gott.  

Illa brenndur ráfaði ég um svæðið og skoðaði. Sviðin voru þrjú talsins og þar sem ekkert annað sérstakt var í gangi ákvað ég að kíkja á rokkarana í Layabouts en þeir eru einmitt frá Spáni. Samkvæmt þeim eru þeir eina spænska hljómsveitin sem syngur á ensku og fannst mér nokkuð sérstakt af þeim að vera hreyta því í lýðinn sem var líklega allur spænskur fyrir utan mig og frú. Það var mikið í gangi á sviðinu hjá þeim, mikið rokk og góð keyrsla en mér fannst því miður eins og þeir væru að spila sama lagið í þrjú kortér.

Næst á svið var Russian Red en það er listamannsnafn Lourdes Hernández sem ættuð er frá Spáni. Hin mjög svo myndarlega Lourdes er stundum kölluð Feist Spánar og ekki af ástæðulausu. Hún býr yfir virkilega góðri rödd og mikilli útgeislun. Hún átti góða spretti með hljómsveit sinni og smátt og smátt var kvöldið að braggast.

Paolo Nutini var næstur í röðinni en það var fyrsta nafn kvöldsins sem ég var virkilega spenntur fyrir. Hann byrjaði með látum í laginu "Jenny Don't Be Hasty" og hélt áhorfendum með þvílíku hreðjartaki alla tónleikana. Ég var að búast við ágætum söngvara í Nutini en hann sýndi það og sannaði að hann er einfaldlega hörku söngvari og gerði hann ágætis lög að frábærum lögum með flutningi sínum þetta kvöldið. Þökk sé pípum Nutinis og keyrslu hljómsveitarinnar voru þetta bestu tónleikar kvöldsins að mati Dagfarans!

Það vakti mikla athygli þegar taktkjafturinn Faith SFX mætti á sviðið á undan Plan B og sýndi listir sínar fyrir framan mörg þúsund manns. Líklega besti taktkjaftur sem ég hef heyrt í á ævinni og í raun ótrúlegt að aðeins einn maður geti framkvæmt svo mörg hljóð. Loks mætti Plan B á svæðið og byrjaði tónleikana á laginu "The Recluse". Það virtist há tónleikunum að upphitunin hjá Faith SFX var mun kröftugri heldur en sjálfir tónleikar Plan B og er það súrt í ljósi þess að Plan B er verulega flottur tónlistarmaður og flytjandi með mörg frábær lög. Ég ráðlegg Plan B að sleppa taktkjaftinum næst.

Þá var loksins komið að Mike Skinner og félögum í The Streets. Mike Skinner er búinn að gefa það út að þetta sé síðasta starfsár hljómsveitarinnar sem er skandall þar sem nýja efnið er rosa gott. Það var því mikilvægt að geta séð þennan snilling áður en hann hættir. Tónleikarnir voru mjög svo góðir enda kann Mike Skinner að skemmta áhorfendum sínum. Tekin voru lög af öllum ferli The Streets og meira að segja af plötunni Everything Is Borrowed sem Dagfarinn gagnrýndi á tíma sínum hjá Monitor. Það sem mér þótti þó merkilegast við tónleikana var söngvarinn Robert Harvey sem syngur og spilar með The Streets þessa dagana. Hann er fyrrum aðal söngvari hljómsveitarinnar The Music og þar minnti hann helst á Robert Plant með sítt liðað hár og alles. En í dag er hann nauða sköllóttur og ber sig eins og hinn versti rappari. Engu að síður flottir tónleikar og hefði ég líklega notið þeirra betur ef ekki hefði verið fyrir slæman sólbruna!

Kvöldinu var svo lokað með því að sjá restina af settinu hjá Chase & Status en gaman hefði verið að sjá þá tónleika í heild sinni enda eru þeir menn afar hrifnir af góðri stemningu. Frábær fimmtudagur að baki sem gaf góð fyrirheit um komandi helgi.

Erfitt var að sjá á eftir: Chase & Status, Congotronics Vs Rockers, Crystal Fighters, Julieta VenegasThe Spires


Plötuárið 2011: fyrri hálfleikur

Ég verð að viðurkenna að tónlistarárið í ár hingað til hefur verið býsna gott á öllum sviðum. Margir flottir tónleikar hafa verið í boði, búið er að opna Hörpuna og hljómsveitir hafa verið duglegar að gefa út nýjar plötur, þó aðallega erlendar. Þó verð ég að minnast á floppið sem tónleikar Hurts voru í Vodafone-höllinni en afar pínlegt var að vera á meðal gesta í rafmagnsleysinu þar.

Árið í plötuútgáfum fór þó nokkuð hægt af stað og náðu til að mynda plötur White Lies og Hercules & Love Affair ekki sömu hæðum og forverar þeirra gerðu. Adele sýndi heiminum að hún er hörku söngkona og stimplaði sig rækilega inní tónlistarflóruna með annarri plötunni sinni, 21. Í lok mánaðarins komu svo sitthvorar sprengjurnar frá hljómsveitunum Chase & Status og The Go! Team sem er líklegast að toppa hér á nýjustu plötu sinni Rolling Blackouts.

 

Febrúar var stuttur og laggóður og byrjaði blítt á frumburði James Blake sem býður uppá afbragðs döbbstepp í fallegum útsetningum. Gleðisveitin Cut Copy frá Ástralíu sendi svo frá sér vel heppnaða skífu en hljómsveitin treður einmitt uppá Nasa þann 20. júlí næstkomandi. PJ Harvey sendi frá sér sína áttundu breiðskífu Let England Shake en henni hefur verið tekið býsna vel af gagnrýnendum. Það voru svo engir aðrir en kóngarnir í Radiohead sem gáfu óvænt frá sér hina mögnuðu The King of Limbs sem hefur dafnað virkilega vel í eyrum Dagfarans.

 

Í mars leit önnur plata Sin Fang (ekki lengur Bous) dagsins ljós en Dagfarinn hafði beðið hennar með mikilli eftirvæntingu og var ekki svikinn. Fátt var um fína drætti fyrir utan landsteina en ég uppgvötvaði loksins Noah and the Whale sem sendu frá sér hina frábæru plötu Last Night on Earth en síngúllinn "L.I.F.E.G.O.E.S.O.N." hefur slegið gegn á öldum ljósvakans. Svo má alls ekki gleyma fjórðu breiðskífunni frá The Strokes, Angles, en hún tók sér tíma í að heilla Dagfarann en honum þykir hún dálæti daginn í dag.

 

Apríl var nokkuð rólegur mánuður en þó verð ég að nefna til sögunnar vel heppnaða plötu frá Timber Timbre sem spilaði á seinustu Airwaves hátíð við góðan orðstír. Panda Bear sendi frá sér Tomboy en það hlýtur að teljast hans aðgengilegasta verk til þessa. Sigurinn þennan mánuðinn áttu þó tilraunadýrin í TV on the Radio með nýjustu plötu sinni Nine Types of Light. Líklega ekki besta platan úr þeirra herbúðum en engu að síður mjög góð.

 

Eitthvað meira var í gangi í maí mánuði. Meðlimir Fleet Foxes stóðust pressuna og skiluðu af sér afbragðs breiðskífu í Helplessness Blues. Beastie Boys gáfu svo út hina klikkuðu Hot Sauce Committe Part Two en Dagfarinn á eftir að gefa henni frekari hlustanir en hann er rétt að jafna sig eftir þá fyrstu. GusGus + Urður og Högni gerðu allt vitlaust á Íslandi og víðar með áttundu plötu sinni, Arabian Horse sem þykir einkar vel heppnuð. Friendly Fires gera svo virkilega fína hluti á sinni annarri breiðskífu Pala og toppa frumburð sinn, ekki spurning! Dagfarinn á svo eftir að gefa nýju plötunum frá Death Cab for Cutie og Okkervil River frekari hlustanir.

 

Vigri opnaði júní mánuð á eftirminnilegan hátt með glæsilegum frumburði sínum sem hægt er að lesa gagnrýni við hér að neðan. Arctic Monkeys héldu júní-járninu heitu með hinni frábæru Suck it and See og hysja um leið upp um sig brækurnar sem þeir misstu með hinni slöku Humbug. FM Belfast gáfu loksins frá sér nýja plötu sem Dagfarinn þarf að gefa betri gaum. Patrick Wolf stimplaði sig svo inní i-Tunes möppu Dagfarans með hinni frábæru Lupercalia en hann minnir stundum á meistara Morrissey. Bon Iver gaf út samnefnda plötu en hann sló í gegn árið 2008 með frumburði sínum For Emma, Forever Ago. Hann gefur ekkert eftir á þeirri nýju og má vel vera að hér séum við að tala um eina af plötum ársins. Hann sá annars um að loka þessum spikfeita mánuði sem er að mati Dagfarans sá besti hingað til.

  

Mig grunar að fyrri hluti ársins verði sterkari en sá seinni en þó eru framundan nýjar plötur með hljómsveitum á borð við Beirut, Bombay Bicycle Club, Björk, Kanye West & Jay-Z, Pétur Ben, Red Hot Chili Peppers og Queens of the Stone Age. Einnig virðist árið 2011 ætla vera ár hinna gömlu rokkara en væntanlegar eru plötur frá Metallica, Megadeth, Soundgarden, Rage Against the Machine, Guns N' Roses og Aerosmith svo eitthvað sé nefnt.

Dagfarinn flautar nú til seinni hálfleiks og óskar eftir jafn miklum gæðum og sáust í þeim fyrri.

Skiptingar sem ekki voru notaðar í fyrri hálfleik: Battles, Deerhoof, Eberg & Pétur Ben, Eddie Vedder, The Joy Formidable, Kurt Vile, Lykke Li, Paul Simon, R.E.M., SebastiAn, The Vaccines, Yelle.


Skógarbjörn í Noregi (Myndband)

Fyrir nokkrum mánuðum lentu faðir minn og bróðir hans í hræðilegri lífsreynslu. Vegna aðstæðna í samfélaginu neyddust þeir til að flytja sig yfir til Noregs til að hafa í sig og á. Þeir vinna alla virka daga við smíðar en helgarnar nýta þeir í fjallgöngur og útivist. Það var einmitt í einni slíkri göngu sem þeir hittu fyrir hungraða birnu!

Skógarbirnir eru sjaldgæfir í Noregi en nokkrum sinnum á ári verður fólk vart við þá útí náttúrunni, ekki ólíkt hvítabirninum sem kíkir stundum í heimsókn hingað til Íslands. Því miður þurftu bræðurnir að verða fyrir þeirri leiðinlegu lífsreynslu að hitta fyrir einn slíkan.

Bræðurnir náðu herlegheitunum á myndband sem Dagfarinn hefur komist yfir og með leyfi þeirra bræðra birti ég það hér (í fyrsta skipti á alnetinu) fyrir ykkur kæru lesendur. Myndbandið er ósvikið en um leið nokkuð hrátt og ég biðst fyrirfram velvirðingar á óstabílli hönd myndatökumanns.

Eins og sjá má í myndbandinu voru bræðurnir heppnir að fara ekki verr úr viðskiptum sínum við birnuna skapstóru. Þarna kom sér einnig vel að kunna lagið "Litli björn og stóri björn" en lagið þykir ómissandi þáttur á bryggjuhátíðinni á Drangsnesi.

Af þeim bræðrum er annars allt gott að frétta og þrátt fyrir þessa uppákomu halda þeir kyrru fyrir í Noregi og láta eins og ekkert hafi í skorist. Minna er þó að frétta af birnunni en ekkert hefur sést til hennar eftir viðskiptin við bræðurna.


Tvífarinn: Gummi Goodman & Elfar Castrinos

Í tilefni af Evrópumótinu sem hefst um helgina fannst mér tilvalið að birta hér tvo leikmenn úr U21 árs landsliðinu sem eiga sér svo sannarlega tvífara útí heimi. Við byrjum á Guðmundi Kristjánssyni en fyrir stuttu sá ég kvikmyndina Raising Arizona eftir Coen bræður og eins í svo mörgum öðrum myndum eftir þá bræður bregður John Goodman fyrir í henni. Eitthvað fannst mér kauði minna mig á Gumma Kri og þá aðallega munnsvipurinn. Ég hef lagt þetta fyrir tvífaranefndina og þessi tvífari komst auðveldlega í gegn.

Gummi Kri John Goodman
Ég geri mér fulla grein fyrir bæði aldurs- og þyngdarmuni þeirra en þó finnst mér ekki ólíklegt að Guðmundur verði svona útilítandi eftir nokkra borgara á Bitabílnum þegar hann verður eldri.

Það er nú þegar orðið frægt að Elfar Freyr sé barnabarn Charles Bronson og því ákvað ég að opinbera nýjan tvífara fyrir ykkur kæru lesendur. Að þessu sinni er um kvenkyns tvífara að ræða og enga smá fegurðardrottningu. Þetta mun vera hin lagvissa söngkona Jade Castrinos úr hljómsveitinni Edward Sharpe and the Magnetic Zeros sem hafa verið að gera það gott á öldum ljósvakans með laginu "Home".

Elfar Freyr Helgason Jade Castrinos
Það má í raun segja að Jade Castrinos sé týnda systirin og með samböndin sem Elfar Freyr hefur ætti hann að reyna að hafa uppá henni og bjóða henni í kaffibolla.

Annars óska ég strákunum okkar í U21 landsliðinu góðs gengis á mótinu og þá sérstaklega þessum tvíförum hér að ofan. Áfram Ísland!


Plötudómur: Vigri - Pink Boats

Kápan af plötunni Pink Boats með VigraÚtgáfudagur: 02/06/2011
Útgefandi: Vigri
Tegund: Popp, Rokk, Póst-Rokk, Klassík, Draumkennt, Tilraunakennt, Prógressív
Lykillög: Awakening, Animals, Í Augsýn, Sleep
Kápa plötunnar: Falleg og smart, vel gert Þuríður og Jón Ingi!
Minnir á: múm, Patrick Watson, Sigur Rós, Sin Fang

80%

Dagfarinn hefur ákveðið að rifja upp gamla takta og gagnrýna eitt stykki plötu sem kom út núna í byrjun mánaðar. Um er að ræða frumburð hljómsveitarinnar Vigra, Pink Boats.

Vigra skipa fimm drengir og þar af tveir bræður sem stofnuðu sveitina árið 2008. Í upphafi átti að vinna plötuna hratt en meðlimir áttuðu sig fljótt á erfiði verkefnisins og tóku sér góðan tíma í upptökur.

Platan kom svo út á Uppstigningardaginn sem er fyndið í ljósi þess að þá eru allar plötubúðir landsins lokaðar. Hún hafði þó verið aðgengileg í nokkra daga á gogoyoko fyrir það.

Tónlist Vigra má lýsa sem draumkenndu og tilfinningaríku poppi með klassísku ívafi. Inní þetta blandast svo náttúrudýrkun meðlimanna en þeir una hag sínum best annaðhvort á Esjustofunni eða uppí Flatey.

Maður tekur strax eftir því við hlustun plötunnar að þarna er um metnaðarfullt verk að ræða. Meðlimir sveitarinnar eru allir fjölhæfir listamenn og er illa við að skilja hljóðfæri útundan sem skilar sér í þéttum útfærslum. Bræðurnir Hans og Bjarki skipta svo söngnum bróðurlega á milli sín. Ekki veit ég hvernig þeir fóru að því en þeir gerðu það vel þar sem ég get ekki séð Hans fyrir mér að syngja lögin hans Bjarka og öfugt.

"Awakening" opnar plötuna með nokkuð drungalegum hætti og vísar um leið í titil plötunnar, frábært lag þar á ferð. Á eftir fylgja "Drag Down the Dark" og "Animals" en þau eru á meðal sterkustu laganna á plötunni án efa. Upptökur á Pink Boats fóru svo meðal annars fram í nokkrum kirkjum á landinu og má greina áhrifin þaðan í laginu "Coin Finder" sem hefst á klukkuslögum, glæsilegt lag. Eftir góða byrjun markar svo hið stutta "(fyrir) Skikkan Skaparans" nokkurs konar hálfleik. Ef platan kæmi út á vínyl myndi ég giska á að eftir þetta lag ætti skipta um hlið. Lagið gefur jafnframt fyrirheit um að eitthvað meira sé í vændum og ferskeytlan sem er á trúarlegu nótunum sýnir að strákarnir kunna að yrkja á góðri íslensku.

Seinni hálfleikur hefst á laginu "Sleep" en myndbandið við það lag hefur hlotið mikla athygli, bæði hér á landi og úti. Eitt sterkasta lag plötunnar. "Maternal Machine" er lakasta lagið á plötunni. Söngurinn hjá Hans kemst ekki á það flug sem hann þyrfti að gera og því nær lagið ekki að fanga mann eins mikið og hin. "Í Augsýn" er eina lagið ásamt "(fyrir) Skikkan Skaparans" sem sungið er á íslenskri tungu sem er fínasta tilbreyting frá enskunni og væri gaman ef þeir gerðu meira af því í framtíðinni. Einlæg og falleg ballaða sem sungin er af mikilli snilld hjá Bjarka og píanóið í laginu er undurfagurt. "Fume" og "These are the Eyes" koma svo sterk inn og loka plötunni með sóma og sleppa við það þekkta vandamál að vera týndu lögin á plötunni.

Helsti kostur Vigra er sá að þeim hefur tekist að þróa sinn eigin stíl og tekst oft að gera hið ófyrirsjáanlega í lagasmíðum sínum sem er afar góður kostur. Hans og félagar geta gengið stoltir frá verki og nú er bara að fylgja plötunni eftir og kynna hana fyrir fólki. Hún á það nefnilega svo sannarlega skilið.

Niðurstaða: Pink Boats er áferðafallegur frumburður sem fellur snyrtilega saman í eina heild. Ein af bestu plötum ársins og ef stærri hljómsveit hefði gert hana þá seldist hún í bílförmum!

http://soundcloud.com/iceland-music-export/animals
http://soundcloud.com/iceland-music-export/coin-finder-vigri
http://soundcloud.com/iceland-music-export/drag-down-the-dark


Myndbandið við lagið "Sleep".


Hugleiðsla með Tobbu Marinós

Í síðasta mánuði skellti ég mér í ókeypis hugleiðslu með tveimur félögum mínum. Þetta var mín leið til að fagna próflokum og ég get ekki sagt að ég sjái eftir þessum þremur klukkustundum.

Fyrir ykkur sem komið af fjöllum þá var í boði ókeypis hugleiðsla að hætti Sri Chinmoy en hann sá reyndar ekki um þessa hugleiðslu þar sem hann lést árið 2007. En nafni hans og meðferðum er haldið á lofti meðal annars af lærlingi hans frá Kanada sem sá um hugleiðsluna þetta föstudagskvöld. sri-chinmoy-high-mediation-pavitrata

Námskeiðið átti að vera alla helgina. Einn tími á föstudegi, tveir tímar á laugardegi og svo var svokallað "Grand Finale" á sunnudeginum. Ég lét það nægja að fara bara í föstudags tímann enda átti þetta ekki beint við mig þó ég geti vissulega verið sammála nokkrum punktum sem þarna komu fram.

Boðberi kvöldsins mælti með því við okkur áheyrendurna að hugleiða ætti tvisvar sinnum á dag, kortér í senn, snemma á morgnana fyrir vinnu og á kvöldin. Eftir eitthvern tíma ættum við svo að sjá mikinn mun á okkur, bæði andlega og líkamlega. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugleitt eftir þennan fund en félagi minn hefur verið samviskusamur og gert það síðan en ég hef ekki séð neina breytingu á kauða ennþá.

Þetta "Grand Finale" kvöld var svo eins og við mátti búast á trúarlegum forsendum. Fólk átti að finna fyrir Guði í hugleiðslu sinni og upplifa þvílíka hamingju í kjölfarið. Ég er gríðarlega sáttur við þá ákvörðun að hafa látið eitt skipti nægja og ekki láta þetta "Grand Finale" plata mig.

Það sem náði samt mestu athygli minni eftir hláturskastið sem nokkrir aðilar inní salnum fóru í eftir Óm-hugleiðsluna var ung dama sem sat aftast í herberginu. Það var engin önnur en Tobba Marinós. Ég get ekki sagt að það hafi verið sami bragur yfir henni eins og maður hefur séð hana í sjónvarpinu. Það verður þó að taka það með í reikninginn að undanfarnar vikur höfðu verið henni erfiðar eftir grein sem birtist í Grapevine. Greinin fór mjög illa í hana og það vakti mikla athygli í fjölmiðlum þegar hún hringdi á vælubílinn og skrifaði opinbert bréf til ritstjóra Grapevine. Það að fara á frítt hugleiðslunámskeið Sri Chinmoys var líklega besti kosturinn í stöðunni fyrir hana í þeim tilgangi að ná aftur fyrri styrk og minnka áreitið í kringum sig. Skopmynd af Tobbu (Grapevine)

Ekki nóg með það heldur virðumst við Tobba Marinós vera að feta sömu spor eftir Sri Chinmoy hugleiðsluna. Við skelltum okkur bæði í sund einn blíðviðris laugardaginn og sóluðum okkur með bros á vör. Því næst skelltum við okkur á leiksýninguna Strýhærði Pétur í Borgarleikhúsinu og skemmtum okkur vel. Guð má vita hvað verður næst á dagskránni en ég er allavega gríðarlega spenntur fyrir næstu uppákomu.

Tobba Marinós getur brosað á ný þökk sé hugleiðsluaðferðum Sri Chinmoys og ég hvet alla sem geta til að fara á þetta námskeið hans, tala nú ekki um þegar það er fríkeypis!

Hér er svo íslenska vefsíða Sri Chinmoys fyrir áhugasama: http://www.srichinmoy.org/island/ 


Jim Carrey að syngja sitt síðasta?

Eftir akkúrat mánuð verður kvikmyndin Mr. Popper's Penguins með Jim Carrey í aðalhlutverki frumsýnd. Sem Jim Carrey aðdáandi verð ég að lýsa yfir áhyggjum mínum yfir þessari mynd. Myndin er gerð upp úr samnefndri barnabók eftir hjónakornin Richard og Florence Atwater sem kom út árið 1938. Söguþráðurinn er á þá leið að fátækur málari (Mr. Popper) kemst allt í einu yfir mörgæs og fær svo aðra frá dýragarði og eðla þær sig sem skilar sér í 10 mörgæsarungum. Að sjálfsögðu hafa mörgæsirnar áhrif á heimilislífið og eitthvað verður að taka til bragðs svo ekki fari illa. Bókin hefur oft verið notuð í kennslu hjá 2, 3 og 4 bekk í grunnskólum í Bandaríkjunum. Kápan á bókinni

Söguþráðurinn er örlítið breyttur í kvikmyndinni en þar er Mr. Popper ekki málari heldur mikill viðskiptamaður sem er algjörlega týndur þegar kemur að mikilvægu hlutunum í lífinu alveg þangað til að hann erfir 6 mörgæsir. Mörgæsirnar umbreyta íbúðinni hans og lífi hans um leið.

Upphaflega átti Ben Stiller að leika Mr. Popper og Noah Baumbach átti að leikstýra en þeir hættu báðir við. Eitthvern veginn sé ég Ben Stiller betur fyrir mér í myndinni heldur en Jim Carrey enda hokinn af reynslu í svona rugl myndum eins og Night at the Museum tvennunni. Í kjölfarið voru Jack Black, Owen Wilson og svo Jim Carrey orðaðir við hlutverkið. Ég vildi óska þess að Jack Black hefði verið fyrir valinu enda þótti seinasta mynd hans Gulliver's Travels einstaklega góð. Mark Waters var svo fenginn til að leikstýra myndinni en hann sá til þess að Lindsay Lohan varð stjórstjarna með myndunum Freaky Friday og Mean Girls.

Ekki veit ég hvað Jim Carrey er að láta hafa sig útí en mér fannst ferill hans vera að komast á gott skrið aftur með Yes Man og I Love You Phillip Morris. Að vísu hefur hann aldrei gleymt börnunum og fært þeim gleði í formi jólamynda og teiknimynda. Svo ég tali ekki um ódauðlega karaktera eins og Ace Ventura og Stanley Ipkiss.

En þrátt fyrir allt og allt mun ég samt klárlega fara á myndina og tek líklegast litla bróður með en það er alveg á hreinu að ég fer ekki með neinar væntingar í bíósalinn!


Tvífarinn: Steini Grant

Þorsteinn Björnsson og Hugh Grant eru fyrstu tvífararnir að mati Dagfarans og skal engan undra, þetta eru sömu mennirnir! Gleraugun spila auðvitað hrikalega stóra rullu en Grant skartaði sínum í kvikmyndinni Four Weddings and a Funeral í hlutverki hins ástfangna Charles. Hvort að Þorsteinn hafi vitað af þessum gleraugum þegar hann keypti sín skal ósagt látið en þau falla afskaplega vel að andliti drengsins. Hugh Grant hefur einnig sjaldan litið betur út en einmitt þarna.

Steini Grant
Hvor er hvað spyr ég bara?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband