Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Af skrímslum og mönnum

Vinsælasta hljómsveitin á Íslandi í dag hlýtur að vera Of Monsters and Men en hún hefur fengið ansi góðar viðtökur fyrir tónlist sína og þá helst lagið "Little Talks". Dagfarinn á afar myndarlega unnustu sem bauð honum á útgáfutónleika þeirra fyrir u.þ.b. mánuði síðan og hefur hann hugsað mikið um sveitina síðan þá. 

Stemningin í Gamla Bíó var góð og ljóst að mikil eftirvænting ríkti eftir heitasta bandi landsins. Að vísu voru þetta seinni tónleikar sveitarinnar þetta kvöldið en vegna mikillar eftirspurnar var bætt við öðrum tónleikum. Það kom þó ekki niður á sveitinni enda má líta á útgáfutónleika sem nokkurs konar leiksýningu sem hægt er að endurtaka að nýju.

Hljómsveitin steig ekki feilspor þetta kvöldið og lék lögin sín af mikilli innlifun og nákvæmni. Þau voru einnig búin að bæta við sig hljóðfæraleikurum sem gerði umgjörðina á tónleikunum enn stærri. Meðlimir voru svo í góðu skapi sem smitaði að sjálfsögðu út frá sér.

En hljómsveitin er ekki gallalaus því hún gerir eitt sem fer ofboðslega í taugarnar á mér. Þau eiga það til að "la la" sig í gegnum lögin. Að mínu mati er það ekkert annað en léleg redding og vísbending um hugmyndaleysi textahöfundar. Ég myndi kannski fyrirgefa hljómsveitinni ef þetta heyrðist í einu eða mesta lagi tveimur lögum en því miður er maður fljótari að telja lögin þar sem ekki bregður fyrir "la la" í.

Einn meðlimurinn sagði brandara á tónleikunum sem hljóðaði svona:

Af hverju kaupa kindur svona mikið af plötunni okkar?
Af því að það er svo mikið af heyi á henni.

Það er vissulega rétt hjá kauða, þau nota "hey" mikið á plötunni en þó ekki eins mikið og áberandi og "la la" og því kannski spurning um að semja nýjan brandara fyrir næstu tónleika? Það er afar einfalt að laga þennan vanda, það má annaðhvort sleppa öllu söngli og leyfa hljóðfærunum að njóta sín eða semja texta í þessar eyður.

Uppáhalds lögin mín af plötunni eru "King and Lionheart", "Little Talks" og "Love, Love, Love" en ekkert þeirra inniheldur "la la". Tilviljun? Annars vona ég að einhver úr hljómsveitinni lesi þetta og taki þetta til sín því þau eru augljóslega búin með "la la" kvótann sinn og geta ekki notað hann á næstu plötu.

Annars heyrði ég um daginn að fólk væri að tala um líkindi á milli laganna "Little Talks" og "Home" með Edward Sharpe and & the Magnetic Zeros og að Nönnu söngvara þætti það mjög leitt. Ég er reyndar ekki sammála þessu. Eina sem lögin eiga sameiginlegt er að þau eru sungin af báðum kynjum, innihalda "hey" og eru krúttleg. Hins vegar liggur munurinn í því að "Home" er í kærulausari kantinum á meðan að "Little Talks" er á alvarlegri nótum. Of Monsters and Men hefðu aldrei samið lag eins og "Home" að mínu mati. Það vill kannski óheppilega til að lögin komu út á svipuðum tíma og njóta mikilla vinsælda og því sér fólk kannski ástæðu til þess að bera þau saman.

Að lokum vil ég taka það fram að mér finnst Of Monsters and Men hörku hljómsveit sem er enn betri í lifandi flutningi. Platan er einnig þrusu góð og það eru líklega fáir þarna úti sem láta "la la" sönglið pirra sig jafn mikið og ég.

Jeff Who?
Hljómsveitin Jeff Who? gerði "la la" ódauðlegt í laginu "Barfly" árið 2005. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband