Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Óskarinn dagfaraður

Eftir að Dagfarinn lofaðist hefur skapast hefð hjá honum undanfarin 2 ár að horfa á Óskarsverðlaunin á stöð 2. Það sem honum hefur þó fundist miður er að vera ekki búinn að sjá allar myndirnar sem tilnefndar eru fyrir bestu mynd. Hann var ansi nálægt því í fyrra en þá hafði hann séð níu af þeim tíu sem voru tilnefndar. Það hefði kannski ekki skipt máli ef þessi eina mynd hefði ekki verið sigurmyndin, The King's Speech. Þessi mistök ákvað hann að gera ei aftur og sunnudaginn 19. febrúar síðastliðinn náði hann settum áfanga og sá allar þær 9 myndir sem tilnefndar eru í ár.

Dagfarinn ætlar að gerast svo góður og taka stutta yfirferð yfir þessar myndir og hita ykkur því upp fyrir sunnudaginn en þá fer einmitt Óskarinn fram.

The-Artist-PosterThe Artist

Það þykir undarlegt að á tímum 3D tækninnar komi út svarthvít mynd án hljóðs. Þrátt fyrir það hefur myndin sópað að sér verðlaunum og verið lofuð hástert. Skal engan undra enda um frábæra mynd að ræða. Stjarna þöglu myndanna, George Valentine er á síðasta söludegi á meðan Peppy Miller er stjarna framtíðarinnar. Myndin segir frá sambandi þeirra og afdrifum í heimi kvikmyndanna. Þó að myndin sé þögul og ekki í lit leikur hún sér að sjálfri sér og sker sig þannig frá hinum gömlu myndunum sem höfðu ekki núverandi tækni til taks. Frábær mynd og að mati Dagfarans besta mynd síðasta árs. Lítið hlutverk Malcolm McDowell gerði svo mikla lukku hjá Dagfaranum.

Tilnefningar á Óskarnum: 10 | Aðalhlutverk: Jean Dujardin, Bérénice Bejo, John Goodman. | Líkur á sigri: Góðar en það að hún sé frönsk gæti orðið henni að falli.

DescendantsThe Descendants

Hjartaknúsari hjartaknúsaranna George Glooney hefur sjaldan verið betri en hér enda maðurinn tilnefndur sem besti leikari í aðalhlutverki. Matt King er tveggja barna faðir og er búsettur á Hawaii. Konan hans liggur í dái eftir óheppilegt bátaslys. Á meðan dáinu stendur kemst King að því að stórslösuð kona hans var honum ekki trú. King telur réttast að hafa uppi á hjásvæfunni til að láta hana vita af ástandi konunnar. Úr því verður absúrd eltingaleikur með allri fjölskyldunni. Á milli þess stendur King fyrir þeirri ákvörðun hvort selja eigi landflæmi sem er í eigu fjölskyldu hans en ástand konunnar og framhjáhald hennar hafa mikið um það að segja. The Descendants kemur manni virkilega á óvart og er leikur Glooneys og Shailene Woodley til fyrirmyndar.

Tilnefningar á Óskarnum: 5 | Aðalhlutverk: George Glooney, Shailene Woodley, Amara Miller. | Líkur á sigri: Vinnur kannski ekki verðlaun f. bestu mynd en ætti að taka eina tvær styttur heim.

ExtremExtremely Loud & Incredibly Close

Að mínu mati sísta myndin sem tilnefnd er. Myndin segir frá Oskar Schell sem missir föður sinn í 9/11 árásunum. Feðgarnir voru afar nánir svo Oskar tekur missirinn afar mikið inná sig. Eftir rúmt ár fer hann inní herbergi föður síns að gramsa. Hann brýtur í kjölfarið fallegan vasa sem hefur að geyma lítið umslag með lykli í. Oskar er ákveðinn í því að finna lásinn sem lykillinn gengur að og telur að það geti fært hann nær föður sínum. Myndin er kannski full dramatísk að mínu mati en hvernig er annað hægt þegar 9/11 á í hlut? Það kom ekki fram í myndinni en ég tók Oskari alltaf sem einhverfum dreng. Hann er gríðarlega klár miðað við níu ára barn og hefur mikla þráhyggju. Auk þess er hann lítið fyrir hávaða, lyftur og samgöngur. Thomas Horn sem leikur Oskar stendur sig engu að síður vel og fær góða hjálp frá Tom Hanks og Söndru Bullock.

Tilnefningar á Óskarnum: 2 | Aðalhluverk: Thomas Horn, Tom Hanks, Sandra Bullock, Max von Sydow. | Líkur á sigri: Afar litlar að mínu mati en þar sem hún fjallar um 9/11 að hluta til gæti hún vakið samúð hjá dómnefnd.

The-Help-poster1The Help

Sjaldan hefur ein mynd kveikt upp jafn margar tilfinningar hjá mér og Húshjálpin. Skeeter Phelan (Emma Stone) er efnilegur penni sem er ekki sátt við hvernig hvítu hefðarfrúrnar koma fram við ráðskonur sínar sem eru dökkar að lit. Hún nýtir sér stöðu sína sem rithöfundur og fær þær Aibileen og Minny til að segja sínar sögur. Skeeter verður þó að fara varlega enda ekki vel séð í hennar samfélagi að eiga í slagtogi við svarta.

Myndin er virkilega vel leikin og mikið af sterkum karakterum. Ég var pínu efins með Emmu Stone í byrjun myndarinnar en hún var ekki lengi að sannfæra mig. Bryce Dallas Howard er virkilega góð sem herfan Hilly Holbrook en hún er greinilega fædd í að leika leiðinlegu týpuna enda fer hún gjarnan í taugarnar á mér á hvíta tjaldinu. Viola Davis og Octavia Spencer eiga svo sannarlega skilið sínar tilnefningar á Óskarnum enda vinna þær leiksigur. Jessica Chastain er svo einnig tilnefnd enda var hún frábær sem hin misheppnaða og misskilda Celia Foote sem minnti mann stundum á Ásdísi Rán á góðum degi.

Tilnefningar á Óskarnum: 4 | Aðalhlutverk: Emma Stone, Viola Davis, Octavia Spencer. | Líkur á sigri: Sigurstranglegasta myndin að mínu mati. Ef Meryl Streep væri ekki tilnefnd einnig sem besta leikkona í aðalhlutverki væri Viola Davis búin að tryggja sér styttuna.


hugo-poster_400x592Hugo

Hugo eftir Martin Scorsese kom mér eiginlega mest á óvart af myndunum sem tilnefndar eru. Að vísu fór ég ekki á hana í 3D eins og Scorsese vildi en engu að síður var upplifunin góð. Ekki ósvipað og í Extremely Loud & Incredible Close missir Hugo föður sinn ungur rétt eins og Oskar. Faðir Hugo skildi eftir sig undarlegt "vélmenni" sem gengur ekki ósvipað og klukka sem Hugo er einmitt snillingur í en hann sinnir öllum klukkum á lestarstöð einni í Frakklandi. Það vantar hins vegar örlítið upp á og nái Hugo að laga þetta undarlega vélmenni er hann viss um að það eigi eftir að koma til hans einhverjum skilaboðum sem eigi að færa hann til betri vegar. Tilgangur þessa vélmennis kom mér skemmtilega á óvart annað en lykillinn í EL&IC gerði og í raun hófst annað ævintýri inní Hugo ævintýrinu sem var afar skemmtilegt. Sacha Baron Cohen fær svo sérstakt hrós enda var hann virkilega góður sem lestarstöðvarvörðurinn. 

Tilnefningar á Óskarnum: 11 | Aðalhlutverk: Asa Butterfield, Chloë Grace Moretz, Ben Kingsley, Sacha Baron Cohen. | Líkur á sigri: Ég efast um að Hugo taki verðlaun fyrir bestu mynd en þætti þó ekki skrítið skyldi það gerast. Tekur eflaust með sér nokkrar styttur heim enda með langflestar tilnefningar.


midnight-in-paris-posterMidnight in Paris

Woody Allen sannar hér enn og aftur að hann er snillingur þegar kemur að handriti og leikstjórn. Hér er hann mættur með eina af sínum betri myndum í nokkur ár og það með Owen Wilson innanborðs! Skrítið leikaraval hugsaði ég en Owen Wilson átti ekki í vandræðum með rithöfundinn Gil og fortíðardrauma hans. Á hverri nóttu í fríi sínu í París hvarf Gil aftur í tímann má segja og hitti hann merkilegt fólk eins og Fitzgerald hjónin, Ernest Hemingway og Picasso svo eitthvað sé nefnt. Það var svo miklu meira varið í þennan draumaheim heldur en raunveruleikann hjá Gil þar sem eiginkona hans taldi sig vita hvað væri honum fyrir bestu og bla bla. Maður gleymdi sér alveg í þessum heimi með Gil í Bíó Paradís og það er einmitt snilldin við myndina, hún tekur þig með í ferðalag aftur í tímann. Óvænt rigning þegar komið var út á Hverfisgötuna gerði svo algjörlega útslagið. Þið sem hafið séð myndina vitið hvað ég meina.

Tilnefningar á Óskarnum: 4 | Aðalhlutverk: Owen Wilson, Rachel McAdams, Michael Sheen, Kathy Bates. | Líkur á sigri: Ekki þessi týpíska Óskarsmynd að mínu mati. Gæti samt alveg unnið eins og hver önnur og væri vel að titlinum komin.


moneyballMoneyball

Eina myndin sem ég þurfti að ná í ólöglega enda var hún ekki lengi í sýningu og hvergi sjáanleg á Laugarásvideo. En hvað um það. Brad Pitt er hér í fantaformi en hann er víst farinn að velja hlutverk sín út frá gæðum sem er snilld. Moneyball er sannsöguleg en hún segir frá þjálfaranum Billy Beane sem þjálfar hafnarboltaliðið Oakland Athletics. Hann fer óhefðbundnar leiðir miðað við önnur lið og þarf að redda sér ódýrum en samt góðum leikmönnum. Þetta gerir hann með hjálp hafnarbolta nördsins Peter Brand (Jonah Hill). Eins og gefur að skilja gera þeir alla í kringum sig gráhærða en þessi aðferð Beanes virðist hafa breytt hugsunarhætti manna í íþróttinni til frambúðar. Það er best að segja ekki meira enda líklega ekki margir Íslendingar sem hafa séð myndina. Njótið vel segi ég bara og það skiptir engu máli þó þið botnið ekkert í íþróttinni, þessi saga af Billy Beane er mögnuð.

Tilnefningar á Óskarnum: 6 | Aðalhlutverk: Brad Pitt, Jonah Hill, Philip Seymour Hoffman. | Líkur á sigri: Ég veit ekki hvar Moneyball stendur en hún ætti að eiga ágætis möguleika og Brad Pitt ætti að gefa Jean Dujardin og George Glooney góða samkeppni um besta leikarann í aðalhlutverki.

the-tree-of-life-movie-poster-02The Tree of Life

Ég varð eiginlega fyrir pínu vonbrigðum með þessa. The Tree of Life minnir meira á ljóð heldur en kvikmynd. Mér leið pínu eins og að vera að horfa á ljóð í mynd. Kvikmyndatakan er einnig óhefðbundin og truflandi á köflum. Maður var eitthvern alltaf að bíða eftir einhverju svakalegu en svo gerðist afar lítið. Sean Penn var óvenju lítið í mynd en hann gegndi öðru og minna hlutverki en ég hafði gert mér vonir um. Myndin segir frá fjölskyldu í Texas. O'Brien hjónin eiga þrjá stráka en þau nota mismunandi leiðir í uppeldinu á þeim. Móðirin er blíð og umhyggjusöm eins og mæður eru nú flestar en faðirinn er strangur og á það til að missa tök á skapi sínu. Honum vegnar ekki nógu vel í starfi og er í raun að gera allt annað en hann langar til sem gæti útskýrt gremju hans. Synirnir taka uppeldinu misvel og þá aðallega elsti bróðirinn sem kemst í "slæman" félagsskap og gerir hluti sem foreldrar hans yrðu æfir útaf. Eins og ég segi afar ljóðræn mynd hér á ferðinni sem ég átti erfitt með að ná tengingu við. En áferðafalleg og nokkrir góðir kaflar gera hana allavega að mynd sem hægt er að horfa á.

Tilnefningar á Óskarnum: 3 | Aðalhlutverk: Brad Pitt, Jessica Chastain, Sean Penn. | Líkur á sigri: Afar litlar að mínu mati og yrði ég frekar ósáttur ef hún fengi styttuna eftirsóttu.


war-horse-art_510War Horse

Spielberg er greinilega annt um yngri áhorfendur en ásamt War Horse skilaði hann af sér Tinna á síðasta ári. War Horse sýnir samband á milli hests og drengs sem temur hann og sinnir honum af ást og alúð. Sökum fátæktar selur faðir drengsins hestinn til hersins og skilja þá leiðir þeirra í bili. Það er gaman að fylgjast með afdrifum hestsins í stríðinu en þegar kemur að stríði eru fáir betri en Spielberg. Hesturinn Joey kemur víða við og fer manni að þykja vænt um margar persónurnar sem vilja hestinum vel. Eitt besta atriðið í myndinni er þegar tveir hermenn frá sitthvorum þjóðunum hjálpast að við að losa Joey úr gaddavírsflækju og gleyma í smástund að þeir eiga í stríði við hvorn annan. Í því atriði birtist einmitt hálfíslenskur drengur úr Benjamín Dúfu genginu í hlutverki þýsks dáta. Sum sé hjartnæm mynd sem maður verður aldrei of gamall fyrir.

Tilnefningar á Óskarnum: 6 | Aðalhlutverk: Jeremy Irvine, Emily Watson, Peter Mullen, Tom Hiddleton. | Líkur á sigri: Fremur litlar myndi ég halda enda kannski heldur barnaleg að mati sumra.

Þá hefur Dagfarinn lokið við það að fara yfir myndirnar níu sem tilnefndar eru fyrir bestu mynd. Vonandi hafið þið haft gagn og gaman af þessari yfirferð og hvet ég alla til að kíkja í bíó á þessar myndir eða útá leigu. Í lokin vil ég lýsa yfir ánægju minni að leikkonan Melissa McCarthy hafi fengið tilnefningu sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir hlutverk sitt í Bridesmaids en hún fór hreinlega á kostum þar. Annars óska ég ykkur bara gleðilegs Óskars og farsælt komandi kvikmyndaár.

Megan-bridesmaids-21959358-648-452
Dagfarinn lætur líklega fara jafnvel um sig yfir Óskarnum eins
Megan gerði í þessari flugferð.

Gullkorn: Frumsaminn texti um himneska ást

Það er vel við hæfi á þessum degi að opinbera gamalt ljóð eða gamlan texta sem ég samdi í 9. eða 10. bekk. Á þeim tíma var ég í hljómsveit sem spilaði aðallega þungarokk og tók ábreiður með sveitum eins og Metallica og Megadeth. Ég var söngvarinn í þessari sveit og langaði einn daginn til að sýna á mér mýkri hliðar og samdi því þennan yndislega texta.

Mig dreymdi að einn daginn myndi einhver úr hljómsveitinni semja lag við textann en aldrei varð neitt úr því. Síminn er því opinn og hefur reyndar verið það í 8 ár.

Eins og venjan er með Gullkornið ætla ég að birta textann í upprunalegri mynd. Njótið vel og hafið bréfþurrkur við hendina.

Love in Heaven

I can show you heaven
Before you can count to seven
Come with me
Because I will let you see
What heaven is beautiful
And what God is faithful
We can walk on the sky
And use our wings to fly 
Both of us will be so glad 
Know that we are never going to be sad

We will never cry
Because we know were not going to die
Here on heaven we are always glad
No one can make us bad
We will always be together
And love each other
I will be yours
You will be mine
I will love you
And you will love me

Höfundur: Torfi Guðbrandsson 

Eins og sjá má er sögusviðið himnaríki og annaðhvort var ég að hugsa um yfirnáttúrulegan mann eða hreinlega nýlátinn mann sem vildi taka makann með í skoðunarferð. Ég myndi litlu breyta í dag nema kannski lagfæra málfræðina hér og þar og henda inn kommum og punktum þar sem við á. Annars er ég bara nokkuð sáttur en þess má geta að þetta er eini textinn/ljóðið sem ég hef samið á ensku.

Að lokum vil ég koma sérstökum þökkum til Elfars Freys en hann varðveitti textann á harða disk sínum í nokkur ár áður en hann sendi mér hann.

Ps. Hvet lagahöfunda til að hafa samband og gleðilegan valentínusardag!

Pic
Svona sá ég fyrir mér ástfangið par í himnaríki á sínum tíma.
 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband