Færsluflokkur: Topp 5

Topp 5: Litlu listamennirnir á Rock Werchter

Dagfarinn er svo vel búinn að eiga miða á tónlistarhátíðina Rock Werchter sem fram fer í Belgíu í sumar. Í tilefni af því ætlar Dagfarinn að gera topp 5 lista yfir "litlu" hljómsveitirnar á hátíðinni.

Allir þekkja nöfn eins og The Cure, Pearl Jam, Florence + the Machine, Mumford and Suns o.s.frv. Færri hringja þó einhverjum bjöllum þegar talað er um listamenn á borð við Perfume Genius og Alabama Shakes. 

Dagfarinn ætlar að hringja þessum bjöllum fyrir ykkur. 

#5 Michael Kiwanuka 

michael-kiwanuka-e1326155098251Aðdáendur á facebook: 51.000
Breiðskífur: 1
Hvar: The Barn á laugardegi kl. 13:45 - 14:35
Á sama tíma og: t' Hof Van Commerce

Michael Kiwanuka lenti í fyrsta sæti BBC's Sound of 2012 en þau verðlaun eru veitt efnilegasta listamanninum ár hvert. Svo virðist vera að Michael sé uppi á röngum tíma en honum hefur verið líkt við kónga á borð við Otis Redding og Bill Withers. Home Again, fyrsta breiðskífa Michael er hugljúf og seiðandi og lofar góðu fyrir framtíðina. Það verður kósý stemning í loftinu hjá Kiwanuka á Rock Werchter í sumar.


#4 Perfume Genius

Perfume GeniusAðdáendur á facebook: 18.000
Breiðskífur: 2
Hvar: Pyramid Marquee á föstudegi kl. 15:15 - 16:15
Á sama tíma og: Wiz Khalifa

Perfume Genius er sóló verkefni Mike Hadreas. Hann gaf út plötuna Put Your Back N 2 It á þessu ári og hefur hún fallið vel í kramið hjá Dagfaranum. Myndbandið við lagið "Hood" hefur vakið mikla athygli en það skartar Arpad nokkrum Miklos, klámmyndaleikara á nærbuxunum.


#3 Alabama Shakes

alabamashakes-bigAðdáendur á facebook: 70.000
Breiðskífur: 1
Hvar: Pyramid Marquee á laugardegi kl. 14:35 - 15:30
Á sama tíma og: 't Hof Van Commerce

Alabama Shakes spilar góða blöndu af blús-, bílskúrs- og suðurríkjarokki með dassi af sál. Í apríl kom út frumburður þeirra, Boys and Girls og hefur hann hlotið góða dóma. Söngvarinn Brittany Howard er kannski ekki fallegasta kona sem Dagfarinn hefur séð en röddin hennar er svakaleg! Ef Janis Joplin og Tynu Turner yrði skellt saman yrði útkoman líklega Brittany. Ef þú fýlar The Black Keys þá er Alabama Shakes eitthvað fyrir þig. 

#2 Miles Kane

Miles-Kane-miles-kane-21184903-600-450Aðdáendur á facebook: 110.500
Breiðskífur: 1
Hvar: The Barn á föstudegi kl. 14:15 - 15:15
Á sama tíma og: Wiz Khalifa & Mastodon

Miles Kane er enginn nýgræðingur í tónlist þó hann hafi aðeins gefið út eina plötu undir sínu nafni. Hann er góðvinur Alex Turner (Arctic Monkeys) en saman voru þeir í The Last Shadow Puppets auk þess sem Turner hjálpaði til við að semja nokkur lög á sólóplötu Kane. Miles Kane fór einnig fyrir hljómsveitinni The Rascals svo drengurinn hefur næga reynslu og á sennilega eftir að slá í gegn á hátíðinni í sumar.


#1 M83

m83Aðdáendur á facebook: 405.000
Breiðskífur: 5
Hvar: Pyramid Marquee á laugardegi kl. 18:30 - 19:30
Á sama tíma og: Kasabian

Ferill M83 (Anthony Gonzales) hefur farið stigvaxandi í gegnum árin og er hann sennilega stærsta númerið á þessum lista. Hann sló endanlega í gegn í fyrra með tvöföldu plötunni Hurry Up, We're Dreaming sem innihélt meðal annars ofursmellinn "Midnight City". Dagfarinn gerir frekar ráð fyrir því að fólk fjölmenni á Kasabian sem spilar á sama tíma en hann ætlar ekki að láta sig vanta í draumaheim Gonzales!


Topp 5: Nostalgíulög á PoppTíví

Það eru líklega fleiri en ég sem áttu notalegar stundir með sjónvarpstöðinni PoppTíví fyrir nokkrum árum sem bauð uppá það allra ferskasta í tónlistinni á sínum tíma. Ég átti mínar bestu stundir með stöðinni á árunum 1999-2003 en þá var ég oftast einn heima eftir skóla og hafði lítið annað að gera en að glápa á PoppTíví.

Á þessum tíma uppgvötvaði ég marga listamenn, bæði góða og slæma, þó að mér finnist þeir góðu ekki endilega eins góðir í dag. Þrátt fyrir það fæ ég alltaf þessa nostalgíutilfinningu þegar ég heyri lögin aftur og minnist þeirra gömlu góðu daga sem ég átti í sjónvarpsherberginu heima.

Nú ætla ég að gera heiðarlega tilraun til að velja fimm "bestu" lögin sem toppuðu algjörlega hjá mér á þessum tíma. Það skiptir miklu máli að vera samkvæmur sjálfum sér í svona vali og hugsanlega mun ég ganga um með sært stoltið í kjölfarið. Hér kemur listinn.

5. The Lawyer - I Wanna Mmm

Ég veit í rauninni ekki hvað ég get sagt um þetta lag. Lítið er að finna um flytjandann á netinu nema það að hann kemur frá Bretlandi og skartar litlu hári. Ekki veit ég hvað heillaði mig svo mikið lagið en það var kannski frekar myndbandið og fíflalætin í þessum fábjána sem styttu mér stundirnar í sófanum heima. Mörgum finnst að lögfræðingurinn ætti að fara í mál við sjálfan sig fyrir þetta lag.

4. Pearl Jam - I Am Mine  

Þetta lag sá til þess að tónlistarsmekkur minn varð ekki að froðu vil ég meina. Afslappaður söngurinn og hið grípandi gítargrip fönguðu mig strax við fyrstu hlustun. Ég hafði aldrei heyrt um hljómsveitina fyrr en ég heyrði þetta lag og var diskurinn að sjálfsögðu keyptur en því miður fyrir hin lögin var þetta eina lagið sem var spilað. Ég verð Eddie Vedder og félögum ævinlega þakklátur fyrir framlag sitt á þessum mikilvægu árum barnæsku minnar.

3. Britney Spears - Oops!... I Did It Again

Það kann að hljóma undarlega (samt ekki) en ég var eitt sinn ástfanginn af söngkonunni Britney Spears. Hún snéri mér svo alveg í hringi þegar hún birtist í rauða latex gallanum í myndbandinu hér að ofan og er það ein af þessum minningum sem aldrei gleymist. Ég fór meira að segja svo langt með þetta að ég kunni dansinn við lagið og tók oft sporin með skólasystrum mínum í bekkjarafmælum. Á endanum þroskaðist maður svo upp úr þessu og þá fóru strákarnir loksins að láta heyra í sér aftur.

2. Eagle-Eye Cherry - Are You Still Having Fun?

Þó að popparinn frá Svíþjóð sé frægastur fyrir lagið "Save Tonight" þá var það þetta lag sem sló í gegn hjá mér á sínum tíma. Því miður fann ég ekki myndbandið við lagið en þar var Cherry í góðum gír á djamminu með gítarinn að vopni talandi við einhverjar skvísur. Það var sko partý í stofunni þegar að þetta lag dúkkaði upp á PoppTíví og já ég skemmti mér alltaf vel yfir þessu lagi elsku Cherry minn, takk fyrir að spyrja!

1. Eiffel 65 - Blue (Da Ba Dee)

Jú það er bláköld staðreynd en í efsta sætinu situr þríeykið frá Ítalíu, Eiffel 65 með sitt ódauðlega lag "Blue (Da Ba Dee)". Ég var líklega jafn hugfanginn og James Cameron af laginu en leikstjórinn geðþekki fékk mikinn innblástur af myndbandinu sem sást svo síðar meir í stórmyndinni Avatar. Alltaf var biðin eftir því að lagið poppaði upp á PoppTíví þess virði og hoppaði ég bókstaflega um af gleði þó að rassinn á mér væri álíka dofinn og vel deyft tannhold á tannlæknastofu. Þrátt fyrir að lagið sé komið langt fram yfir síðasta söludag er enn hægt að dilla sér við það daginn í dag og hafa gaman af því. Það myndi ég segja er ansi vel af sér vikið hjá liðsmönnum Eiffel 65.

Þessi lög komu einnig til greina:

Audioslave - Like a Stone
Bloodhound Gang - The Bad Touch
Bomfunk MC's - Freestyler
Britney Spears - (You Drive Me) Crazy
Crazy Town - Butterfly
Foo Fighters - Learn to Fly
Limp Bizkit - Take a Look Around
Metallica - I Disappear
Offspring - Pretty Fly (For a White Guy)
Puddle of Mudd - She Hates Me
Puff Daddy - Come with Me (ft. Jimmy Page)
Rammstein - Links 2 3 4
Rammstein - Sonne
Red Hot Chili Peppers - Californication
U2 - Stuck in a Moment You Can't Get Out Of
Vengaboys - Boom, Boom, Boom, Boom!!
Wamdue Project - King of My Castle
Wu-Tang Clan - Gravel Pit


Topp 5: Heitustu þjóðfræðinemarnir

Undanfarið hafa verið að birtast listar á bleikt.is yfir heitustu drengina í hinum og þessum fögum við Háskóla Íslands. Manni sárnar við að renna yfir þessa lista enda ekki um einn einasta þjóðfræðinema að ræða á neinum þeirra. Dagfarinn hyggst breyta því með því að velja 5 heitustu þjóðfræðinemana að hans mati. Listinn verður ónúmeraður og getið þið lesendur kosið þann sem ykkur þykir fallegastur hér til vinstri í þar til gerðri skoðanakönnun. Þar verður einnig hægt að velja um fleiri en þá sem náðu kjöri hjá Dagfaranum. Hér eru fimm heitustu þjóðfræðidrengirnir að mati Dagfarans.

Biggi Bassi Birgir Framboð
Birgir Bragason

Hver er ekki hrifinn af bassaleikurum? Nei ég bara spyr. Lífsgleðin skín úr augum Bigga allan daginn og öllum líður vel í kringum hann. Stelpur vilja vera hjá honum og strákar vilja vera hann! Biggi er Milljónamæringur af Guðs náð og á svo sannarlega skilið sitt sæti hér.

Guðjón alvarlegur Blikki
Guðjón Þór Grétarsson

Margfaldaðu saman Clint Eastwood og Owen Wilson og útkoman er Guðjón. Alvarlegur náungi sem sér samt fyndnu hliðarnar á málunum. Það er engin furða að Guðjón sé bundinn enda 'seriously good looking' drengur sem er með hlutina á hreinu.

Halldór Óli Fjalldór
Halldór Óli Gunnarsson

Hér erum við að tala um mann sem tekur sig ekki of alvarlega. Ávallt smekklegur til fara og vel greiddur hvað sem klukkuna vantar. Á ekki í erfiðleikum með fá fólk til að hlægja enda alltaf urmull af fólki (oftast stelpum) í kringum hann. Hyrnan í Borgarnesi er ekki söm eftir brotthvarf hans til Reykjavíkur.

Ólafur á sínum yngri árum Ólafur hissa
Ólafur Ingibergson

Maðurinn sem gerði lopapeysuna töff og gerði hana að kennileyti þjóðfræðinema í kjölfarið. Var í sjóhernum á sínum yngri árum en leystist uppí myndlistarmann sem endaði í þjóðfræði. Ólafi er margt til lista lagt og það lekur af honum karlmennskan. Ólafur er maður sem þú berð virðingu fyrir! 

Tóti tískulögga Tóti Trabant
Þorvaldur H. Gröndval


Það er ekki að ástæðulausu að Þorvaldur hafi lamið húðir í kynþokkafyllstu hljómsveit Íslandssögunnar. Þorvaldur er líklegast frægasti þjóðfræðineminn enn sem komið er. Hann hefur einstakt íslenskt útlit og maður getur léttilega gleymt sér í þykkri skeggrót hans. Hann þykir of gott módel fyrir Hagkaupsblaðið og í raun á engin stúlka svona ofurmenni skilið..

Aðrir sem komu til greina:

Andri Guðmundsson
Búi Stefánsson
Guðmundur D. Hermannsson
Jóhannes Jónsson
Nýnemafulltrúinn
Richard Allen
Sigurbjörn Gíslason
Tryggvi Dór Gíslason


Topp 5: Bestu körfuboltamyndir allra tíma

Körfuboltamyndir klikka seint enda eru þær lang vinsælustu íþróttamyndirnar. Ég meina hver nennir að horfa á bíómynd um krikket, golf eða sund? Ástæður fyrir vinsældum körfuboltamynda eru þrjár. Í fyrsta lagi eru leikmennirnir flestir hverjir aðeins of svalir og hata ekki að dólgast í frítíma sínum, í öðru lagi er unun að fylgjast með framgangi þjálfarans og hvernig honum tekst að ná árangri með vitleysingana sína og í þriðja og síðasta lagi er það taugaspennan sem myndast þegar liðið sem maður heldur með tekur þriggja stiga skot þegar bjallan er búin að hringja.

Dagfarinn ætlar nú að fara yfir 5 bestu körfuboltamyndir allra tíma að hans mati og hann lofar ykkur því að valið er ekki auðvelt enda um urmul af gæða körfuboltamyndum til!

5. The Cable Guy (1996)


Hversu gaman væri að spila með manni eins og honum?

Já ég veit, The Cable Guy er ekki körfuboltamynd en körfuboltaatriðið í myndinni á skilið 5. sæti listans hjá mér. Atriðið hefur allt, upphitunina, gredduna, skrínið og troðsluna sem brýtur spjaldið. Er hægt að biðja um mikið meira?

4. The Air Up There (1994)


Jimmy Dolan hittir Saleh í fyrsta skipti..


Aðstoðarþjálfarinn Jimmy Dolan (Kevin Bacon) ferðast til Afríku í þeirri von um að finna glænýja stjörnu fyrir háskólaliðið sitt og koma sér þannig í stöðu aðalþjálfara. Í Afríku finnur hann gæðablóðið Saleh (Charles Gitonga Maina) og kynnist þar að auki nýjum lífsháttum í menningu sem hann þekkti ei áður. Saman göfga þeir hvor annan og í hápunkti myndarinnar nær Saleh að gera "Jimmy Dolan Shake & Bake" og ég held ég segi ei meira.

3. Blue Chips (1994)


Ein svakalegasta ræða kvikmyndasögunnar, inn og út er aðferð
Pete's sem slær ræðu Al Pacino úr Any Given Sunday ref fyrir rass.


Þjálfarinn Pete Bell (Nick Nolte) er undir pressu hjá háskólaliðinu Western University Dolphins. Liðinu hefur ekki gengið sem skyldi og til að bæta úr því verður Pete að brjóta lögin. Hann þarf að lokka til sín góða leikmenn og færir hinum risavaxna Boudeaux (O'Neal) til að mynda Lexus og reddar móður skotbakvarðarins McRae (Hardaway) húsnæði og vinnu. Þetta skilar sér að sjálfsögðu í frábærum árangri en þar sem það er gert ólöglega fær Pete samviskubit og játar allt að lokum.

2. White Men Can't Jump (1992)


Frábær samvinna Sidney og Billy!

Það mætti halda að Larry Bird og Magic Johnson hafi hist útá velli en svo er ekki. Hér höfum við Sidney Deane (Wesley Snipes) og Billy Hoyle (Woody Harrelson) sem sameina krafta sína á vellinum. Þeir nýta sér það að hvíti maðurinn er ekki hátt skrifaður á vellinum og vinna veðmál eftir veðmál í kjölfarið. Woody og Snipes hafa sjaldan verið flottari á hvíta tjaldinu!

1. Space Jam (1996)


Michael Jordan niðurlægður í meira lagi..

Það er líklega ekki til sá maður sem varð ekki ástfanginn þegar hann sá Space Jam í fyrsta skipti. Plottið er frábært, geimverur stela kröftum frá mönnum eins og Patrick Ewing og Charles Barkley og ætla þannig að sigra Looney Tunes gengið sem hafði skorað á þá í körfubolta þegar þeir voru öllu minni. En geimverurnar gleymdu einum manni, Michael Jordan sem er nýhættur í boltanum til að reyna fyrir sér sem hafnaboltamaður. Útkoman er frábær og er unun að sjá hvernig teiknimyndaheimurinn og NBA-heimurinn tvinnast saman. Þar að auki var þeim Bill Murray og Wayne Knight hent inní myndina sem gerir hana ennþá áhugaverðari!

Aðrar myndir sem komu til greina:

Coach Carter (2005)
Glory Road (2006)
Love & Basketball (2000)
More Than a Game (2008)
The Sixth Man (1997)

Hvernig myndi ykkar listi líta út lesendur góðir?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband