Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

127 Hours (2010)

*****/***** 

Ég skellti mér á myndina 127 Hours um helgina en ég hafði beðið hennar með mikilli eftirvæntingu. Að vísu fór raunverulegi atburðurinn sem átti sér stað 2003 algjörlega framhjá mér í fjölmiðlum enda líklega að pæla í allt öðrum hlutum á þeim tíma.

Leikstjóri myndarinnar er meistari Danny Boyle en hann hefur meðal annars leikstýrt myndum a borð við Trainspotting, 28 Days Later og Slumdog Millionaire sem fór sigurför um heiminn fyrir ekki svo löngu síðan. James Franco fer svo með aðalhlutverkið en hann hefur verið að koma sterkur inn síðustu ár með myndum eins og Pineapple Express, Milk og auðvitað Spider-Man þríleiknum.

Aron Ralston (James Franco) er nettur adrenalín fíkill sem unir sér best í náttúrunni og að þessu sinni er hann staddur í Utah þar sem hann stundar að príla í gljúfrum í öllum stærðum og gerðum. Allt gengur vel og kynnist hann meira að segja tveimur skvísum sem hann platar í smá vatnsleik í einni klettasprungunni. Hann heldur svo sína leið sem á eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar á líf hans til frambúðar og hér mæli ég með að fólk stoppi ef það er ekki búið að sjá myndina.

Aron er í eigin heimi þegar hann dettur um lausan grjóthnullung ofan í stóra sprungu með þeim afleiðingum að hann festist þar sem grjótið lendir beint á hægri handlegg hans. Hann reynir hvað hann getur til að losa sig en steinninn haggast ekki þrátt fyrir nokkrar ágætis tilraunir. Eins og titillinn gefur til kynna þá dúsir hann niðri í sprungunni í 127 klst. eða í rúmlega 5 daga. Hjálpin hefði kannski komið hefði hann látið eitthvern nákominn vita af ferðum sínum en hann klikkaði á því.

Ég get vel skilið að fólk kannski heillist ekki beint að hugmyndinni, að horfa á mann fastan í einhverri sprungu í einn og hálfan tíma. En það er vel þess virði enda er Danny Boyle klárlega rétti maðurinn í að matreiða svona mynd og koma henni vel til skila. Áhorfandinn dettur inn í þankaganga Arons og það að hann skildi gleyma rauða Gatorade drykknum í fjandans bílnum er eitt og sér frábært atriði. Þar að auki var hann með upptökuvél á sér sem hann tjáði sig í á mismunandi hátt í gegnum myndina. Maður fékk því nett að upplifa þessa ömurlegu stöðu sem hann var staddur í. Atriðin þegar hann er að drekka vatnið sitt (í hófi) gerðu mig líka virkilega þyrstann fyrir hlé, svo ég mæli með að þið farið ekki þyrst á myndina!

Að lokum fer það svo að hann ákveður að brjóta á sér hendina og skera hana af með vasahníf enda var það eina ráðið ef hann vildi halda lífi. Það var erfitt að sitja í salnum og hlusta á alla þá braki og bresti í beinunum á meðan hann var að losa sig við handlegginn en þá kom Sigur Rós til bjargar. Lagið "Festival" fær nefnilega að hljóma þegar Aron er búinn að frelsa sig og reynir að koma sér til læknishjálpar sem tekst að lokum. Lokasenan er gríðarlega falleg og "Festival" smellpassar inní atriðið enda var ég við það að breytast í gæs í sætinu mínu!

Mér finnst myndin vera góð ábending fyrir áhorfandann að náttúran hefur ennþá yfirhöndina og þó svo að við séum búin að eyðileggja marga hluta hennar og byggja upp stórhýsi og hvað eina að þá erum við ennþá svo lítil í samanburði við t.d. jarðskjálfta, flóð, fellibyli og í þessu tilviki grjóthnullung í Blue Canyon í Utah! Þar að auki eins og gagnrýnandi Frétta- eða Morgunblaðsins benti svo skemmtilega á að þá þarf Aron Ralston að taka ákvörðun sem mun hafa áhrif á líf hans til frambúðar. En einmitt stöndum við flest frammi fyrir því að þurfa að taka afdrifaríkar ákvarðanir á lífsleiðinni til að betrum bæta líf okkar á einn eða annan hátt. Það er erfitt að rífa sig upp af rassgatinu og gera eitthvað í málinu en það mun heldur betur borga sig á endanum.

Það er gaman að segja frá því að hinn raunverulegi Aron Ralston er á lífi í dag (35 ára) og á hann konu og eitt barn. Þrátt fyrir þessa hræðilegu lífsreynslu þá er hann hvergi banginn og heldur áfram að klífa fjöll og gljúfur.

Aron Ralston & James Franco
Meistararnir tveir, Aron Ralston og James Franco.


Jóhanna Guðrún kann ekki að tapa

Ég er búinn að reyna eins og ég get að skrifa ekki um það sem ég varð vitni af síðasta laugardagskvöld þegar ég sat í faðmi fjölskyldunnar og horfði á Söngvakeppni sjónvarpsins. Vanalega kenni ég mig ekki við keppnina öðruvísi en í glasi og góðum drykkjuleik en þátttaka Jóhönnu Guðrúnar vakti áhuga minn.

Vil ég meina að árangur hennar í keppninni árið 2009 hafi stigið henni gjörsamlega til höfuðs. Í rauninni hefði ég viljað óska þess að einhver annar hefði staðið í þessum bláu seglum og sungið sig inní hjörtu Evrópubúa. En sú varð raunin að litla barnastjarnan hreppti annað sætið og jafnaði þar með besta árangur Íslands í keppninni þökk sé Selmu og félögum 1999 í öllu hressari atriði.

Líklega hefur dagskrá söngkonunnar verið frekar þunnskipuð uppá síðkastið þar sem hún ákvað að taka þátt í annað sinn með það að markmiði að fá fleiri símtöl. Hún flutti lagið "Nótt" að þessu sinni ásamt kærastanum sínum, allt voðalega sætt eitthvað og hlaut náð fyrir augum landans að sjálfsögðu og komst áfram í úrslitaþáttinn.

Ég sá nokkur viðtöl við hana í fjölmiðlum fyrir úrslitaþáttinn og það er alveg æðislegt að hlusta á svona atvinnumann tala. Það virtist vera svo miklu meira lagt í hennar atriði heldur en öll hin og þar af leiðandi ekki við öðru að búast en að hún myndi lenda í fyrsta sæti. En annað kom heldur betur á daginn og var æðislegt að fylgjast með viðbrögðum fyrrum barnastjörnunnar.

Svo fór að Magni komst réttilega áfram með lagið sitt "Ég trúi á betra líf" og þar á eftir fylgdi lagið "Aftur heim" eftir Sjonna Brink heitinn sem endaði svo á því að vinna og verða fulltrúi Íslands í Þýskalandi í maí. Ég ætla að sleppa því að gagnrýna sigurlagið en að mínum dómi hefði Magni átt að fara með hálsklútinn út.

Þegar tilkynnt var að "Aftur heim" væri hitt lagið sem hefði endað efst í kosningunni sást borðið hennar Jóhönnu Guðrúnar afar vel og varð mér mikið skemmt. Vonbrigðin í augum hennar leyndu sér ekki og hún var ekkert að hafa fyrir því að klappa þó ekki væri nema bara til að sýna Sjonna Brink smá vott af virðingu. Úrslitin komu henni svo mikið á óvart að ég er hræddur um að nóttin hafi verið erfið fyrir hana og sérstaklega kærastann hennar.

Jóhanna Guðrún í fýlu
Þegar úrslitin voru tilkynnt.

Daginn eftir kom hún með yfirlýsingu á facebook síðu sinni undir fyrirsögninni "Júróvisjón í gær".

"Elsku íslendingar.

Það er ekki gaman að tapa, sérstaklega þegar maður er búin að leggja alla sína krafta í eitthvað sem maður trúði á.

Því finnst mér grátlegt þegar fólk gagnrýnir mann fyrir að fagna ekki þegar úrslitin voru tilkynnt, ég held að flestir hafi ekki hugmynd um vinnuna sem liggur að baki.

En fólk er búið að skjóta föstum skotum á mig í dag fyrir viðbrögð mín við vali kjósenda á tveimur efstu lögunum. Auðvitað er þetta sárt. En ég virði val þjóðarinnar, og áður en ég fór heim gekk ég hringinn og kyssti alla þá sem voru viðstaddir. Þetta eru allt kollegar mínir og ég samgleðst þeim innilega og óska þem góðs gengis. :)"

Hérna er hún augljóslega að reyna að bjarga andliti sínu eftir laugardagskvöldið en henni mistekst það að mínu mati. Heldur hún í alvöru að hún sé sú eina sem leggur eitthvað á sig til að gera atriði sitt sem flottast? Er það góð og gild ástæða þess að samgleðjast ekki þeim sem unnu sigur úr bítum? Ég sá ekki betur en að Magni hafi um leið og úrslitin voru tilkynnt labbað til allra strákanna og Þórunnar og óskað þeim til hamingju, ekki vottur af hroka eða fýlu enda er Magni algjör fagmaður.

Ef að Jóhanna ætlar eitthvað að enda í þessum bransa og taka þátt í svona keppni þá þarf hún líka að kunna að tapa því annars á hún bara alls ekkert erindi í svona lagað ef hún fer bara í fýlu ef hún vinnur ekki. Hún verður að átta sig á því að það verður ekki allt að gulli sem hún snertir. Ég vona bara innilega að hún fái einhver símtöl á næstunni svo hún þurfi ekki að hætta að leika sér og fara í skóla og læra. Hún hefði reyndar gott af því enda skrifar maður "íslendingar" með stóru í-i.


Hjörvar Hafliða & Erpur kjaftstopp!

Flestir Kópavogsbúar kannast við hátíð sem haldin var 28-29 ágúst í fyrra og gekk undir nafninu Hamraborgarhátíðin. Fljótt á litið les maður þetta sem Hamborgarahátíðina svo taktu þér tíma í lesturinn lesandi góður.

Það var ýmislegt brallað á þessum dögum en það sem stóð kannski upp úr var ganga um Hamraborgina undir leiðsögn Erps Eyvindarsonar og Hjörvars Hafliða. Að vísu mætti ég ekki í gönguna sjálfur en nokkrir heimildarmenn voru þar á mínum vegum. Gangan var skemmtileg og félagarnir tveir fóru á kostum er þeir þuldu upp hverja vitleysuna á fætur annarri. Frásagnir af stöðum eins og Catalínu og Hamragrilli voru í brennidepli ásamt öðru safaríku efni.

En viti menn, ég á bróður sem heitir Jón og er 6 árum yngri en ég og því miður þurfti hann að erfa bakteríuna sem stóri bróðir gengur með sem er að gera hluti sem þykja einstakir. Ólíkt flestum jafnöldrum hans þá var það ekki Erpur sem átti hug hans allan heldur var það sparkspekingurinn mikli Hjörvar Hafliða. Hann er Guð í augum Jóns sem gerir lítið annað en að hugsa um fótbolta allan liðlangan daginn!

Erpur og Hjörvar eru staddir fyrir utan Videomarkaðinn og eru að slá botninn í þetta þegar Jón gengur allt í einu vasklega fram með lítinn bréfsnepil að Hjörvari þegar Erpur er í miðri setningu. Hann réttir Hjörvari snepilinn og biður hann um áritun í sömu andrá, alveg sama þó að hann sé að blokka Erp frá lýðnum sem missir næstum málið af undrun.

Til allrar lukku var Hjörvar með penna á sér en Jón hafði ekki hugsað málið alveg til enda. En til að byrja með var penninn ekkert að virka og greyið Hjörvar var allt í einu staddur í frekar óþæginlegum aðstæðum. Hann sagði við Erp áhyggjufullur: "Penninn er ekkert að virka!!!" en greyið Erpur var enn að reyna að átta sig á hvaða unglingur þetta væri sem var að stefna þessari annars góðu leiðsögn þeirra í mikla hættu.

Loks skrifaði penninn og litli bróðir fékk vilja sínum framgengt og gekk glaður í burtu á meðan Hjörvar klóraði sér í hausnum og reyndi að finna þráðinn aftur í fyrirlestrinum.

Ég er eiginlega sannfærður um það að Hjörvar hafi ekki áritað mikið í gegnum ævina nema þá kannski á tíma sínum sem markmaður (eða karl). Það hefur ábyggilega ekki hvarflað að honum þegar hann vaknaði þennan laugardag að hann yrði beðinn um áritun af 15 ára unglingi í miðri leiðsögn um Hamraborgina. En það gerðist nú samt og þess vegna er Jón bróðir minn. 

Hjöbbi Ká & Nonni Arnars
Messuteymi framtíðarinnar?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband