Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Skógarbjörn í Noregi (Myndband)

Fyrir nokkrum mánuðum lentu faðir minn og bróðir hans í hræðilegri lífsreynslu. Vegna aðstæðna í samfélaginu neyddust þeir til að flytja sig yfir til Noregs til að hafa í sig og á. Þeir vinna alla virka daga við smíðar en helgarnar nýta þeir í fjallgöngur og útivist. Það var einmitt í einni slíkri göngu sem þeir hittu fyrir hungraða birnu!

Skógarbirnir eru sjaldgæfir í Noregi en nokkrum sinnum á ári verður fólk vart við þá útí náttúrunni, ekki ólíkt hvítabirninum sem kíkir stundum í heimsókn hingað til Íslands. Því miður þurftu bræðurnir að verða fyrir þeirri leiðinlegu lífsreynslu að hitta fyrir einn slíkan.

Bræðurnir náðu herlegheitunum á myndband sem Dagfarinn hefur komist yfir og með leyfi þeirra bræðra birti ég það hér (í fyrsta skipti á alnetinu) fyrir ykkur kæru lesendur. Myndbandið er ósvikið en um leið nokkuð hrátt og ég biðst fyrirfram velvirðingar á óstabílli hönd myndatökumanns.

Eins og sjá má í myndbandinu voru bræðurnir heppnir að fara ekki verr úr viðskiptum sínum við birnuna skapstóru. Þarna kom sér einnig vel að kunna lagið "Litli björn og stóri björn" en lagið þykir ómissandi þáttur á bryggjuhátíðinni á Drangsnesi.

Af þeim bræðrum er annars allt gott að frétta og þrátt fyrir þessa uppákomu halda þeir kyrru fyrir í Noregi og láta eins og ekkert hafi í skorist. Minna er þó að frétta af birnunni en ekkert hefur sést til hennar eftir viðskiptin við bræðurna.


Tvífarinn: Gummi Goodman & Elfar Castrinos

Í tilefni af Evrópumótinu sem hefst um helgina fannst mér tilvalið að birta hér tvo leikmenn úr U21 árs landsliðinu sem eiga sér svo sannarlega tvífara útí heimi. Við byrjum á Guðmundi Kristjánssyni en fyrir stuttu sá ég kvikmyndina Raising Arizona eftir Coen bræður og eins í svo mörgum öðrum myndum eftir þá bræður bregður John Goodman fyrir í henni. Eitthvað fannst mér kauði minna mig á Gumma Kri og þá aðallega munnsvipurinn. Ég hef lagt þetta fyrir tvífaranefndina og þessi tvífari komst auðveldlega í gegn.

Gummi Kri John Goodman
Ég geri mér fulla grein fyrir bæði aldurs- og þyngdarmuni þeirra en þó finnst mér ekki ólíklegt að Guðmundur verði svona útilítandi eftir nokkra borgara á Bitabílnum þegar hann verður eldri.

Það er nú þegar orðið frægt að Elfar Freyr sé barnabarn Charles Bronson og því ákvað ég að opinbera nýjan tvífara fyrir ykkur kæru lesendur. Að þessu sinni er um kvenkyns tvífara að ræða og enga smá fegurðardrottningu. Þetta mun vera hin lagvissa söngkona Jade Castrinos úr hljómsveitinni Edward Sharpe and the Magnetic Zeros sem hafa verið að gera það gott á öldum ljósvakans með laginu "Home".

Elfar Freyr Helgason Jade Castrinos
Það má í raun segja að Jade Castrinos sé týnda systirin og með samböndin sem Elfar Freyr hefur ætti hann að reyna að hafa uppá henni og bjóða henni í kaffibolla.

Annars óska ég strákunum okkar í U21 landsliðinu góðs gengis á mótinu og þá sérstaklega þessum tvíförum hér að ofan. Áfram Ísland!


Plötudómur: Vigri - Pink Boats

Kápan af plötunni Pink Boats með VigraÚtgáfudagur: 02/06/2011
Útgefandi: Vigri
Tegund: Popp, Rokk, Póst-Rokk, Klassík, Draumkennt, Tilraunakennt, Prógressív
Lykillög: Awakening, Animals, Í Augsýn, Sleep
Kápa plötunnar: Falleg og smart, vel gert Þuríður og Jón Ingi!
Minnir á: múm, Patrick Watson, Sigur Rós, Sin Fang

80%

Dagfarinn hefur ákveðið að rifja upp gamla takta og gagnrýna eitt stykki plötu sem kom út núna í byrjun mánaðar. Um er að ræða frumburð hljómsveitarinnar Vigra, Pink Boats.

Vigra skipa fimm drengir og þar af tveir bræður sem stofnuðu sveitina árið 2008. Í upphafi átti að vinna plötuna hratt en meðlimir áttuðu sig fljótt á erfiði verkefnisins og tóku sér góðan tíma í upptökur.

Platan kom svo út á Uppstigningardaginn sem er fyndið í ljósi þess að þá eru allar plötubúðir landsins lokaðar. Hún hafði þó verið aðgengileg í nokkra daga á gogoyoko fyrir það.

Tónlist Vigra má lýsa sem draumkenndu og tilfinningaríku poppi með klassísku ívafi. Inní þetta blandast svo náttúrudýrkun meðlimanna en þeir una hag sínum best annaðhvort á Esjustofunni eða uppí Flatey.

Maður tekur strax eftir því við hlustun plötunnar að þarna er um metnaðarfullt verk að ræða. Meðlimir sveitarinnar eru allir fjölhæfir listamenn og er illa við að skilja hljóðfæri útundan sem skilar sér í þéttum útfærslum. Bræðurnir Hans og Bjarki skipta svo söngnum bróðurlega á milli sín. Ekki veit ég hvernig þeir fóru að því en þeir gerðu það vel þar sem ég get ekki séð Hans fyrir mér að syngja lögin hans Bjarka og öfugt.

"Awakening" opnar plötuna með nokkuð drungalegum hætti og vísar um leið í titil plötunnar, frábært lag þar á ferð. Á eftir fylgja "Drag Down the Dark" og "Animals" en þau eru á meðal sterkustu laganna á plötunni án efa. Upptökur á Pink Boats fóru svo meðal annars fram í nokkrum kirkjum á landinu og má greina áhrifin þaðan í laginu "Coin Finder" sem hefst á klukkuslögum, glæsilegt lag. Eftir góða byrjun markar svo hið stutta "(fyrir) Skikkan Skaparans" nokkurs konar hálfleik. Ef platan kæmi út á vínyl myndi ég giska á að eftir þetta lag ætti skipta um hlið. Lagið gefur jafnframt fyrirheit um að eitthvað meira sé í vændum og ferskeytlan sem er á trúarlegu nótunum sýnir að strákarnir kunna að yrkja á góðri íslensku.

Seinni hálfleikur hefst á laginu "Sleep" en myndbandið við það lag hefur hlotið mikla athygli, bæði hér á landi og úti. Eitt sterkasta lag plötunnar. "Maternal Machine" er lakasta lagið á plötunni. Söngurinn hjá Hans kemst ekki á það flug sem hann þyrfti að gera og því nær lagið ekki að fanga mann eins mikið og hin. "Í Augsýn" er eina lagið ásamt "(fyrir) Skikkan Skaparans" sem sungið er á íslenskri tungu sem er fínasta tilbreyting frá enskunni og væri gaman ef þeir gerðu meira af því í framtíðinni. Einlæg og falleg ballaða sem sungin er af mikilli snilld hjá Bjarka og píanóið í laginu er undurfagurt. "Fume" og "These are the Eyes" koma svo sterk inn og loka plötunni með sóma og sleppa við það þekkta vandamál að vera týndu lögin á plötunni.

Helsti kostur Vigra er sá að þeim hefur tekist að þróa sinn eigin stíl og tekst oft að gera hið ófyrirsjáanlega í lagasmíðum sínum sem er afar góður kostur. Hans og félagar geta gengið stoltir frá verki og nú er bara að fylgja plötunni eftir og kynna hana fyrir fólki. Hún á það nefnilega svo sannarlega skilið.

Niðurstaða: Pink Boats er áferðafallegur frumburður sem fellur snyrtilega saman í eina heild. Ein af bestu plötum ársins og ef stærri hljómsveit hefði gert hana þá seldist hún í bílförmum!

http://soundcloud.com/iceland-music-export/animals
http://soundcloud.com/iceland-music-export/coin-finder-vigri
http://soundcloud.com/iceland-music-export/drag-down-the-dark


Myndbandið við lagið "Sleep".


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband