Færsluflokkur: Spaugilegt

Hinn gaurinn

Það getur oft verið snúið mál að bera sama nafn og einhver frægur og þá sérstaklega á Íslandi. Páll Óskar Hallgrímsson, 22 ára piltur frá Kópavogi er einn þeirra.

Páll Óskar sem gengur oftast undir nafninu Palli var skírður í mars árið 1989. Foreldrum Palla óraði ekki fyrir því að nokkrum árum seinna skyldi rísa upp samkynhneigður poppkóngur með sama nafn.

Blessunarlega var Palli laus við öll leiðindi í grunnskóla en hann segist þó hafa fundið aðeins fyrir stríðni í menntaskóla!

"Ég man eftir tveim strákum sem voru með mér í íslensku og sátu á fremsta bekk. Þegar kennarinn las upp nafn mitt bættu þeir alltaf við "Hjálmtýrsson" og bekkurinn flissaði í kjölfarið. Á endanum þurfti ég að segja mig úr áfanganum."

Annars gekk menntaskólagangan slysalaust fyrir sig segir Palli. Reyndar var hann einu sinni beðinn um að vera dómari í söngvakeppni skólans.

"Það voru kynnar keppnarinnar sem fengu þá skemmtilegu hugmynd að bjóða mér að vera dómari í söngvakeppninni. Því miður komst sú tillaga ekki í gegnum skólastjórnina en hún vildi meina að ég væri ekki fær um að dæma söng!"

Sorgarsaga enda hefði verið gaman að sjá viðbrögð fólks við algjörlega óþekktum manni í dómnefndinni. 

En það er ekki langt síðan að Palli þurfti að hringja í 118 og biðja um nýtt starfsheiti vegna leiðinlegs misskilnings.

"Undanfarna mánuði hef ég verið að fá símtöl á öllum tímum sólarhringsins. Þetta er að sjálfsögðu fólk sem ruglar mig við poppstjörnuna frægu."

Aðspurður hvers konar símtöl eru þau margskonar.

"Fólk hefur verið að hringja í mig og spyrja mig ráða hvernig eigi að koma út úr skápnum t.d. Einnig hefur fólk verið að reyna að panta mig á böll og árshátíðir en ég bendi þeim kurteisislega á nafna minn og gef þeim rétta númerið."

Símtöl sem þessi eiga sér stað endrum og eins en hann segist hreinlega slökkva á símanum yfir Gay Pride hátíðina frægu.

"Eftir fyrstu hátíðina var aldrei spurning um annað. Síminn hreinlega stoppaði ekki og fólkið sem hringdi var á barmi taugaáfalls. Þetta var aðallega fólk sem kom að skipulagningu hátíðarinnar að einhverju leyti og vildu ræða við mig tímasetningar, atriði og að sjálfsögðu Gay Pride ballið á Nasa. Það var erfitt fyrir mig að komast að í símanum og stundum varð ég að skella á þar sem fólkið trúði mér ekki er ég sagðist vera Hallgrímsson!" 

Á endanum fékk Palli nóg og hringdi upp í 118 og sagði símadömunni frá vanda sínum. Hann bað hana vinsamlegast um að setja "hinn gaurinn" fyrir aftan nafnið sitt í símaskránni. Símadaman sýndi Palla mikinn skilning og var það lítið mál að verða við bón drengsins. Ekki nóg með það heldur hefur ótímabærum símtölum fækkað verulega.

"Fólk veit vanalega ekki númerið hjá Páli Óskari og fer því á ja.is og flettir því upp þar. Þetta hefur greinilega komið sér vel fyrir mig því fólk hefur útilokað mig er það sér "hinn gaurinn" fyrir aftan nafnið mitt."

Þrátt fyrir allt segist Palli aldrei hafa hugleitt það að breyta um nafn enda sé það einkar fallegt, bæði í máli og ritun. Hann segir einnig að nafnið virki sem góður ísbrjótur á dömurnar í hundrað og einum og með þeim orðum lýkur Dagfarinn umfjöllun sinni um "hinn gaurinn".

Hinn gaurinn


Skógarbjörn í Noregi (Myndband)

Fyrir nokkrum mánuðum lentu faðir minn og bróðir hans í hræðilegri lífsreynslu. Vegna aðstæðna í samfélaginu neyddust þeir til að flytja sig yfir til Noregs til að hafa í sig og á. Þeir vinna alla virka daga við smíðar en helgarnar nýta þeir í fjallgöngur og útivist. Það var einmitt í einni slíkri göngu sem þeir hittu fyrir hungraða birnu!

Skógarbirnir eru sjaldgæfir í Noregi en nokkrum sinnum á ári verður fólk vart við þá útí náttúrunni, ekki ólíkt hvítabirninum sem kíkir stundum í heimsókn hingað til Íslands. Því miður þurftu bræðurnir að verða fyrir þeirri leiðinlegu lífsreynslu að hitta fyrir einn slíkan.

Bræðurnir náðu herlegheitunum á myndband sem Dagfarinn hefur komist yfir og með leyfi þeirra bræðra birti ég það hér (í fyrsta skipti á alnetinu) fyrir ykkur kæru lesendur. Myndbandið er ósvikið en um leið nokkuð hrátt og ég biðst fyrirfram velvirðingar á óstabílli hönd myndatökumanns.

Eins og sjá má í myndbandinu voru bræðurnir heppnir að fara ekki verr úr viðskiptum sínum við birnuna skapstóru. Þarna kom sér einnig vel að kunna lagið "Litli björn og stóri björn" en lagið þykir ómissandi þáttur á bryggjuhátíðinni á Drangsnesi.

Af þeim bræðrum er annars allt gott að frétta og þrátt fyrir þessa uppákomu halda þeir kyrru fyrir í Noregi og láta eins og ekkert hafi í skorist. Minna er þó að frétta af birnunni en ekkert hefur sést til hennar eftir viðskiptin við bræðurna.


Ljósmyndin

Það vakti mikla athygli í fyrra þegar Breiðablik varð í fyrsta sinn Íslandsmeistari í knattspyrnu í meistaraflokki karla. Úrslitin réðust ekki fyrr en í síðustu umferð og því var mikil spenna víðsvegar um landið. Síðasti leikur Blika var gegn Stjörnunni á útivelli og var vel mætt á völlinn og var ég á meðal áhorfenda.

Það er ekki frásögu færandi nema það að efnt var til átaks. Menn voru hvattir til að mæta í fjólublárri v-hálsmáls peysu sem Ólafur Kristjánsson þjálfari Blika var búinn að klæðast í nánast hverjum einasta leik á tímabilinu. Peysan var því orðin að hálfgerðu kennileyti þjálfarans enda gekk liðinu hans vel þegar hann skartaði henni á hliðarlínunni.

Ég hafði keypt nákvæmlega eins peysu í Dressmann fyrir nokkrum árum og þar sem ég átti ekki treyju með merkjum Breiðabliks ákvað ég að fara í henni á leikinn. En ég ákvað að ganga lengra með þetta. Á meðan flestir létu peysuna duga þá fannst mér það ekki nógu tilkomumikið. Eins og alþjóð veit að þá er ég rauðhærður en ekki sköllóttur eins og Ólafur. Ég fékk því lánaðan skalla hjá frænda mínum sem var með smá hári á. Þar að auki gróf ég upp gömul gleraugu sem ég notaði í leikritinu Með fullri reisn í MK en þar lék ég einmitt homma sælla minninga.

Útlitið vakti vægast sagt athygli á leiknum og mér leið eins og poppstjörnu á tímapunkti. Ég var á býsna góðum stað í stæði og var alveg fremst við auglýsingaskiltin enda mættur tímanlega á völlinn. Leikurinn var flautaður á og allt lék í lyndi þrátt fyrir frekar skítt veður. Elskuleg móðir mín hafði tekið með sér skærgult ponsjú sem ég klæddi mig í til að halda mér þurrum. Stuttu eftir það ýtti Þorsteinn félagi minn við mér og benti mér á að ljósmyndari á hliðarlínunni væri að reyna að ná mynd af mér. Ég setti mig að í sjálfsögðu í stellingar enda ánægður með uppátæki ljósmyndarans.

Lífið hélt áfram og fór það svo að leikurinn endaði 0-0 sem dugði Blikunum til sigurs í deildinni þar sem að ÍBV missteig sig gegn Keflavík. Trylltur dans var stiginn um kvöldið og Kópavogsbær var grænn næstu daga. Það var svo á mánudaginn að ég komst að því að ljósmyndarinn var að mynda fyrir mbl.is og svo skemmtilega vildi til að myndin var birt á vefnum.

Ljósmyndin
Ljósmyndin fræga Ég í múnderingunni ásamt móður minni, litla bróður og Þorsteini. 

Eins og sjá má á myndinni að ofan að þá myndu fæstir telja að hér væri ég að reyna að líkjast Ólafi Kristjánssyni en því miður gerði ég mér ekki grein fyrir því fyrr en löngu eftir leik. Öllu meira vit væri í því að segja að ég liti út eins og Andy í Little Britain enda fannst það mörgum sem sáu mig og myndina. Ég ætla því að sýna ykkur samanburð á Óla og Andy og leyfa ykkur lesendum góðum að dæma fyrir ykkur sjálf.

Andy Kri
Andy (fyrir miðju) x Óli Kri = Andy Kri

Það er deginum ljósara að ef Óli Kri myndi bæta aðeins á sig, láta hárið sem er eftir vaxa, skipta um gleraugu og brosa aðeins að þá væri hann nánast sami maður og Andy. Ég er þó ekki að hvetja hann til þess bara að benda á að möguleikinn er fyrir hendi.

Ég segi allavega fyrir mitt leyti að mér finnst ég ná Andy talsvert betur en Óla og kannski spurning um að ljósmyndari Morgunblaðsins hafi haldið svo, að sjálfur Andy væri mættur á völlinn með barninu sínu sem getið var í hjólastól. Ég áfellist hann allavega ekki.

En uppátækið nýttist mér ef svo má segja á hrekkjarvökunni í fyrra en þá notaði ég sömu hugmynd og mætti sem Andy í hrekkjarvökupartý sem margir þjóðfræðinemar muna kannski glöggt eftir. Þar átti fólk ekki í vandræðum með að vita hvern ég væri að reyna að stæla og var ég ófáum sinnum beðinn um að koma með einhverja línu frá Andy. Þar var t.d. önnur skemmtileg ljósmynd tekin og leyfi ég henni að sjálfsögðu að fylgja með.

Andy (2)
Hrekkjarvöku Andy Fullkomnun hefði ég reddað hjólastól.

En dagurinn sem Breiðablik varð Íslandsmeistari verður mér lengi í minnum hafður bæði fyrir afrek Blikanna, ljósmyndina og svo má ekki gleyma treyjunni sem Elfar Freyr gaf mér eftir leik sem hengur óþvegin uppá skáp heima. Spurning hvort að ég mæti ekki bara í þessari múnderingu á hvern einasta leik með Blikum á næstu leiktíð?


Hjörvar Hafliða & Erpur kjaftstopp!

Flestir Kópavogsbúar kannast við hátíð sem haldin var 28-29 ágúst í fyrra og gekk undir nafninu Hamraborgarhátíðin. Fljótt á litið les maður þetta sem Hamborgarahátíðina svo taktu þér tíma í lesturinn lesandi góður.

Það var ýmislegt brallað á þessum dögum en það sem stóð kannski upp úr var ganga um Hamraborgina undir leiðsögn Erps Eyvindarsonar og Hjörvars Hafliða. Að vísu mætti ég ekki í gönguna sjálfur en nokkrir heimildarmenn voru þar á mínum vegum. Gangan var skemmtileg og félagarnir tveir fóru á kostum er þeir þuldu upp hverja vitleysuna á fætur annarri. Frásagnir af stöðum eins og Catalínu og Hamragrilli voru í brennidepli ásamt öðru safaríku efni.

En viti menn, ég á bróður sem heitir Jón og er 6 árum yngri en ég og því miður þurfti hann að erfa bakteríuna sem stóri bróðir gengur með sem er að gera hluti sem þykja einstakir. Ólíkt flestum jafnöldrum hans þá var það ekki Erpur sem átti hug hans allan heldur var það sparkspekingurinn mikli Hjörvar Hafliða. Hann er Guð í augum Jóns sem gerir lítið annað en að hugsa um fótbolta allan liðlangan daginn!

Erpur og Hjörvar eru staddir fyrir utan Videomarkaðinn og eru að slá botninn í þetta þegar Jón gengur allt í einu vasklega fram með lítinn bréfsnepil að Hjörvari þegar Erpur er í miðri setningu. Hann réttir Hjörvari snepilinn og biður hann um áritun í sömu andrá, alveg sama þó að hann sé að blokka Erp frá lýðnum sem missir næstum málið af undrun.

Til allrar lukku var Hjörvar með penna á sér en Jón hafði ekki hugsað málið alveg til enda. En til að byrja með var penninn ekkert að virka og greyið Hjörvar var allt í einu staddur í frekar óþæginlegum aðstæðum. Hann sagði við Erp áhyggjufullur: "Penninn er ekkert að virka!!!" en greyið Erpur var enn að reyna að átta sig á hvaða unglingur þetta væri sem var að stefna þessari annars góðu leiðsögn þeirra í mikla hættu.

Loks skrifaði penninn og litli bróðir fékk vilja sínum framgengt og gekk glaður í burtu á meðan Hjörvar klóraði sér í hausnum og reyndi að finna þráðinn aftur í fyrirlestrinum.

Ég er eiginlega sannfærður um það að Hjörvar hafi ekki áritað mikið í gegnum ævina nema þá kannski á tíma sínum sem markmaður (eða karl). Það hefur ábyggilega ekki hvarflað að honum þegar hann vaknaði þennan laugardag að hann yrði beðinn um áritun af 15 ára unglingi í miðri leiðsögn um Hamraborgina. En það gerðist nú samt og þess vegna er Jón bróðir minn. 

Hjöbbi Ká & Nonni Arnars
Messuteymi framtíðarinnar?

Ofurmennið í MK

Það er kannski ekki á allra vitorði að Dagfarinn hafi gengið menntaveginn í Menntaskólann í Kópavogi á sínum yngri árum. Átti ég þar fjögur gæfurík ár sem sneisafull eru af skemmtilegum minningum sem gaman er að rifja upp endrum og eins. Ég ætla einmitt að rifja upp eitt atriði og svo skemmtilega vill til að ég á það á myndbandi.

Atvikið átti sér stað á fyrstu önninni minni (2005) og Tyllidagar voru í gangi en það voru tveir dagar þar sem boðið var uppá allskonar skemmtun og svo lauk afþreyingunni með hressandi dansleik. Á meðal atriða var tískusýning sem var með stærri atburðum þessara daga og var engu til sparað, hvorki í fötum né módelum. Svo skemmtilega vildi til að ég var valinn til þess að taka þátt í sýningunni en á þessum tímapunkti var Landsbanka-auglýsingin sem ég lék í farin að vekja á sér athygli.

Eins og þið getið ímyndað ykkur var það mikil upplifun að vera baksviðs að klæða sig og mála með "best of" fólkinu í MK sem var allt svo fínt og fallegt. Dressman strákarnir báðu mig um að taka Landsbanka-svipinn fræga og höfðu gaman af útkomunni. Þegar ég hélt að lífið gæti ekki orðið betra kom stelpan sem sá um sýninguna að mér og rétti mér Superman búning.

Ég: Hvað er þetta?
Stelpan: Sko áður en þú ferð í fötin frá Dead þá áttu að fara í þennan búning og hlaupa inn á eftir Herdísi sem verður í náttkjól frá Spútnik.
Ég: ????
Stelpan: Svo var pælingin að þú myndir kíkja undir kjólinn hennar, hún bregst illa við og þú hleypur skelfingu lostinn til baka. Okei?

Hvað gat ég sagt? Ég stóð þarna sjokkeraður fyrir framan stelpuna sem beið eftir að ég myndi taka við búningnum. Öll módelin horfðu á mig með alvarlegum augum og biðu eftir svari frá aumingja busanum. Allir bjuggust við neikvæðu svari frá mér enda nýbyrjaður í skólanum og með sviðskrekk eftir því. Ég vissi að ef ég myndi segja nei þá yrði mér hent út og mér breytt í veggjarlús sem enginn myndi vilja tala við. Það var því enginn annar kostur í stöðunni en að segja já.

Ég var nú staddur frammi fyrir mikilli áskorun, þeirri stærstu hingað til í lífi mínu. Það er ekki hver sem er sem getur leikið ofurmennið og hvað þá perralega og veiklulega útgáfu af honum. Ég get varla líst stressinu og öllum fiðrildunum sem tóku þátt í því, Herdís var líka svo sæt og ég vissi vel að hún yrði ekkert sátt við það að ég myndi gægjast undir kjólinn hennar. En allra augu voru á mér og ég vissi að ef ég myndi klúðra þessu, þá væri ég búinn að klúðra menntaskólagöngu minni líka. 

En illu er best aflokið og hér er afraksturinn..


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband