Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Erlendar plötur ársins 2010

2010 var að mínu mati spikfeitt ár í tónlistinni, bæði hér á Íslandi sem og erlendis. Þrátt fyrir endalaust niðurhal mannapans þá halda hljómsveitir víða um heim ótrauðar áfram að gefa efnið sitt út á föstu formi sem er vel.

Ég verð að viðurkenna að ég var sérstaklega spenntur fyrir nýjum plötum frá grúppum eins og Arcade Fire, Belle & Sebastian, The National, MGMT, Gorillaz, LCD Soundsystem og Vampire Weekend. Auk þess uppgvötvaði ég margar gæðasveitir á borð við Hurts, Robyn, Ou Est Le Swimming Pool, Bombay Bicycle Club og John Grant sem allar gáfu út þykkar plötur á árinu. Kings of Leon gerði svo það sem allir heilvita menn bjuggust við, að skíta á sig, en þeir þurfa þó ekki að örvænta, þeir eiga fyrir pappírnum sem þeir geta skeint sér með.

En vindum okkur í niðurstöður dagfarans.

1. The Suburbs - Arcade Fire

Arcade Fire gaf út tvær frábærar plötur árin 2004 og 2007 og maður var í raun stressaður (fyrir þeirra hönd) fyrir framhaldinu. Þær áhyggjur voru algjörlega óþarfar þar sem Arcade Fire var algjörlega á pari við síðustu verk. Win Butler og félagar hafa gefið aðdáendum sínum verkefni sem nánast ógerlegt er að leysa, að velja sína uppáhalds plötu með sveitinni.

2. Queen of Denmark - John Grant

Ég vildi óska að ég hefði uppgvötvað þennan snilling á bömmer en tónlist hans myndi henta vel í sjálfsvorkunina. John Grant er "prófauppgvötvunin" mín en það er listamaður sem ég uppgvötva þegar ég á að vera að læra fyrir próf. Hann náði ekki að meika það með hljómsveit sinni The Czars, kannski vegna einkennilegs nafns en hann náði heldur betur að rétta úr kútnum með þessari sóló plötu sinni. Platan er mjög persónuleg sem er mikill kostur þar sem þú færð að kíkja í heimsókn í mjög svo áhugavert heilabú John Grants. 

3. High Violet - The National

The National er eins og vín, það verður betra með hverju árinu sem líður. High Violet er þeirra fimmta plata og fylgir á eftir The Boxer (2007) sem var einkar vel heppnuð plata. Ég er á því að þetta sé þeirra besta plata á ferlinum enda eru liðsmenn The National dæmi um menn sem vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Á plötunni er t.d. að finna lögin "Bloodbuzz Ohio" og "Anyone's Ghost" sem hafa verið í spilun á X-inu. Einnig eru lögin "Afraid of Everyone" og "Conversation 16" algjör eyrnakonfekt! Það verður erfitt verk fyrir hljómsveitina að toppa þessa plötu en ég er samt sem áður ekki í efa um það að þeir hafi getuna til þess, þetta er einfaldlega mögnuð hljómsveit!

4. Plastic Beach - Gorillaz

Það er fyrir löngu vitað að Damon Albarn er einn allra besti tónlistarmaður frá upphafi. Hann sannaði það með góði gengi Blur, Gorillaz og The Good the Bad and the Queen ásamt því að kaupa sér hús að Bakkastöðum í Grafarvogi. Á Plastic Beach fær hann stuðning úr öllum áttum en Snoop Dogg og Lou Reed leggja honum t.d. lið á plötunni. Gorillaz batteríið heldur því áfram að rúlla í rétta átt.

5. The Golden Year - Ou Est Le Swimming Pool

Litlu munaði að þessi plata myndi aldrei líta dagsins ljós sökum sjálfsvígs söngvarans Charles Haddon en hann tók líf sitt á Pukkelpop tónlistarhátíðinni sem haldin er í Belgíu. Það er mikil synd þar sem að efnið þeirra er fjandi gott að hlusta á og í ljósi þess að maður fær aldrei að sjá þessa hljómsveit á sviði. Flestir tónþyrstir Íslendingar ættu að kannast við smellinn þeirra "Dance the Way I Feel" sem Máni á X-inu var virkilega hrifinn af. Einnig mæli ég með laginu hér að ofan sem og "Jackson's Last Stand". Guði sé lof að eftirlifandi meðlimir ákváðu að gefa út plötuna, það er líklega það sem Charles Haddon hefði viljað.

Aðrar plötur sem voru nálægt því að komast á listann:

The Age of Adz - Sufjan Stevens
Brothers - The Black Keys
Congratulations - MGMT
Contra - Vampire Weekend
Flaws - Bombay Bicycle Club
Happiness - Hurts

My Beautiful Dark Twisted Fantasy - Kanye West
Swanlight - Antony & the Johnson
Teen Dream - Beach House
This Is Happening - LCD Soundsystem

Write About Love - Belle & Sebastian


Santacus

Ég hef leikið jólasvein síðan að ég var 13 ára að mig minnir og ég get sagt ykkur það að það eru ekki alltaf jólin í þeim bransanum. Þið skuluð ekki halda að ég sé einhver aukvissi í þessu en faðir minn og föðurbróðir hafa sinnt þessu linnulaust síðustu 20 árin með góðum árangri. Svo kom að því að þeir þurftu meiri mannskap vegna vinsælda og fjölda jólaballa. Þá var auðvitað enginn betri en verðandi fermingardrengurinn Torfi!

Eins og ég sagði þá eru ekki alltaf jólin í þessu þó að þetta gangi oftast vel hjá mér. Ég kveið því oft til að byrja með að stíga útá gólf í rauða gallanum og lenda í óþekktar öngum sem vildu koma upp um unglinginn sem reyndi aðeins að gleðja börnin. Svefn minn var lítill og ég hugleiddi alvarlega að aflita á mér hárið hvítt ef húfan skyldi nú einhvern tímann fjúka af mér. Andleg líðan mín fór ekki framhjá nokkrum manni og allra síst honum föður mínum.

Gamli tók því til sinna ráða og tók mig á eintal og stappaði í mig stálinu. Hann líkti hlutverki og framkomu jólasveinsins við skylmingaþrælinn Maximus úr hinni goðsagnakenndu kvikmynd Gladiator frá árinu 2000. Við værum eins og skylmingaþrælarnir í göngunum, alveg að míga í okkur af stressi vegna komandi andstæðinga sem biðu úti fyrir eftir fjörugu blóðbaði. Þetta var fullkomin myndlíking.

Santacus

Ennfremur sagði hann líkt og Maximus: "Hvað sem bíður okkar þarna fyrir utan þá eigum við meiri möguleika á að halda lífi ef við höldum hópinn og stöndum saman!". Þetta virkaði eins og vítamínsprauta fyrir mig og það sannaðist svo eftir á að þetta virkaði. Átökin voru minni og lítið sem ekkert um leiðinlegar uppákomur eftir þessar ræður fyrir framkomur.

Enn þann dag í dag ímynda ég mér að ég sé hinn eini sanni Maximus fyrir jólaball og þannig og aðeins þannig gengur mér betur í hlutverki Giljagaurs eða Askasleikis. 

Kvittið að vild!


Torfi Guðbrandsson til Árvakurs (Staðfest)

Árvaki er það mikil ánægja að kynna til leiks nýjasta liðsmann sinn á blog.is Torfa Guðbrandsson. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er ekki verið að ræða um Torfa Guðbrandsson sem skrifað hefur pistla á síður Moggans undanfarin ár og áratugi heldur er hér um barnabarn hans að ræða.

Það er skömm frá því að segja að Torfi hefur leikið lausum hala á netheiminum eftir að hann hætti að blogga á rauðskaufa síðunni sinni en hann hefur sinnt minni verkefnum á borð við skemmtiblogg á sjentilmenn.com ásamt veglegri umfjöllun um afrek knattspyrnuliðsins N.W.A. sem vakti mikla og verðskuldaða athygli. 

Torfi hefur nú samþykkt að blogga hér um ýmis málefni sem honum eru hugleikin en við ákváðum að taka þá áhættu að gefa honum algjört frjálsræði í skrifum enda verður gaman að fylgjast með honum vaxa og dafna undir okkar hýsingu. 

Að lokum viljum við hvetja alla til að fylgjast vel með gangi mála hér á dagfaranum og um leið þökkum við höfundinum fyrir að velja okkur.

Með bestu kveðjum, 

Stjórnin


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband