Benicàssim 2011: Laugardagur

Þær voru ekki nema sex hljómsveitirnar sem mig langaði til að sjá þetta kvöldið og dreifðust þær á tvö svið svo ég gat ekki séð þær allar. Þetta er að mínu mati einn af fáum ókostum við hátíðina en úrvalið af góðum hljómsveitum er ekki eins og gott og verða vill á öðrum sambærilegum hátíðum í Evrópu. Þess í stað beita FIB-liðar sér fyrir því að hafa stóru hljómsveitirnar stórar og litlu hljómsveitirnar mjög litlar. Þetta er að sjálfsögðu bara mín skoðun.

Fyrst á dagskrá þetta laugardagskvöldið var hljómsveitin Bombay Bicycle Club en hún stóð sig með miklum sóma á síðustu Iceland Airwaves hátíð. Sveitin er að fara að gefa út nýja plötu í enda þessa mánaðar en lagið þeirra "Shuffle" hefur til að mynda verið í spilun á X-inu í sumar. Ég var því nokkuð spenntur fyrir tónleikum þeirra og í þetta sinn á stærri hátíð fyrir framan fleiri áhorfendur. Tónleikarnir voru í einu orði sagt mikil vonbrigði og á endanum fannst mér þeir það slappir að ég ákvað að færa mig yfir á Mumford & Sons. Ástæðan var algjört kraftleysi af þeirra hálfu og veit ég ekki hvort hægt sé að kenna hljóðkerfinu um eða þeirra eigin getuleysi. Söngvarinn var að sama skapi virkilega lélegur þetta kvöldið og virtist hann eiga í miklum erfiðleikum með sönginn sinn sem heyrðist varla fyrir utan sviðið. Þeir náðu aldrei að skapa stemninguna sem myndaðist t.d. á Airwaves hátíðinni og þrátt fyrir slagara sína komst aldrei nein almennileg hreyfing á gestina.

Það hefði þótt ólíklegt fyrir hátíðina að ég léti mig hafa það að fara að sjá Mumford & Sons en það var ekkert annað í boði eftir vonbrigði Bombay. Ég stóð á besta stað, á barnum fyrir framan risaskjá og gat verið silkislakur enda nauðsynlegt að hlaða batteríin fyrir Arctic Monkeys sem voru næstir í röðinni. Mumford-liðar voru þokkalegir en ég bjóst við betri tónleikum og meiri keyrslu ef ég á að segja eins og er. Kannski var ég of langt frá sviðinu en það ætti ekki að koma að sök enda risa hátalarar útum allt. En fólk var að fýla þetta vel og auðvitað enduðu þeir á laginu "The Cave" við mikinn fögnuð áhorfenda.

Spennan eftir Arctic Monkeys var orðin býsna mikil enda kvöldið ekki búið að fara neitt sérstaklega vel af stað. Fyrst var það skita Bombay, svo var það svekkelsið að missa af Beirut og eftir allt saman endaði maður á Mumford. Arctic Monkeys átti heldur betur eftir að rífa kvöldið upp. Dagfarinn hafði áður séð þá á Reading hátíðinni árið 2009 en þá voru þeir nýbúnir að gefa út plötuna Humbug. Stemningin á þeim tónleikum var nokkuð spes og minnti helst á jarðarför. Í þetta skiptið var allt annar bragur á þeim enda nýbúnir að gefa frá sér hina vel heppnuðu Suck It and See. Alex Turner forsprakki sveitarinnar var aðeins of svalur á því í eiturhörðum leddara og ekki síðri hlýrabol. Lagavalið var virkilega gott hjá Sheffield strákunum en mest var tekið af Favourite Worst Nightmare og Suck It and See. Aðeins tvö lög voru tekin af Humbug mér til mikillar ánægju en því miður var "Cornerstone" ekki eitt þeirra. "Still Take You Home" og "When the Sun Goes Down" af fyrstu plötunni voru svo sérlega miklir gleðigjafar fyrir Dagfarann. Heilt yfir frábærir tónleikar og sviðsframkoma Alex Turners var með besta móti enda skemmti hann sér greinilega vel og það smitaði að sjálfsögðu út frá sér.


Skemmtilegt viðtal við meðlimi Arctic Monkeys fyrir tónleikana.

Síðasta hljómsveit kvöldsins hjá Dagfaranum var Primal Scream en samkvæmt plakatinu áttu þeir sérstaklega að kynna til leiks meistaraverkið sitt Screamadelica sem er líklega ein besta plata allra tíma. Bobby Gillespie og félagar voru algjörlega með þetta og hlóðu í hvern slagarann á fætur öðrum. Að auki voru þeir með eina vel þétta svarta söngkonu sem fékk greinilega raddbönd í vöggugjöf og átti hún stóran part af sýningunni sem Primal Scream bauð uppá. Eftir að búið var að taka flest lögin af Screamadelica var stuðið keyrt ennþá meira upp með lögunum "Country Girl", "Jailbird" og "Rocks" og réð Dagfarinn sér ekki af gleði enda um eitt af hans uppáhalds lögum í gervöllum heiminum að ræða. Ekki amalegt að sjá þessa mögnuðu hljómsveit flytja sín bestu lög og virkilega góður lokahnykkur á þessu laugardagskvöldi.

Bobby Gillespie
Bobby Gillespie söngvari Primal Scream í fýling.

Erfitt var að sjá á eftir: Beirut, Big Audio Dynamite


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband