Færsluflokkur: Tónlist

Benicàssim 2011: Fimmtudagur

Dagfarinn hefur verið vant við látinn síðustu daga, bæði í Barcelona og á tónlistarhátíðinni FIB - Benicàssim í samnefndu sveitafélagi. Hátíðin hefur verið haldin frá árinu 1995 við góðan orðstír en hátíðina sækja aðallega Bretar ásamt Spánverjum. Ég ákvað snemma á árinu að þetta væri tónlistarhátíðin sem ég vildi fara á en mjög snemma var tilkynnt að Arcade Fire, Arctic Monkeys og The Strokes væru aðal númerin. Staðsetningin heillaði líka, sólarströnd á daginn og tónleikar á kvöldin. Gerist það betra? Líklega já.

Við vorum átta Íslendingar sem sóttum hátíðina saman og var tímanum eytt í Barcelona fyrir og eftir hátíðina. Við tókum lest til Benicàssim á miðvikudegi en hátíðin sjálf hófst daginn eftir. Eins og gefur að skilja er ekki hægt að hafa tónleika yfir daginn sökum hitans og styrk sólarinnar svo flestir tónleikarnir hófust um sex, sjö leytið.

Ég missti af fyrstu tónleikum dagins sökum verslunarleiðangurs sem ætlaði engan endi að taka. Það var hljómsveitin The Spires frá Sheffield í Bretlandi en hún minnir um margt á hljómsveitina White Lies. Mér til mikillar gremju heyrði ég aðallagið þeirra í fjarska þegar ég var að setja birgðirnar í tjaldið en það þýddi ekkert að hengja haus, kvöldið átti eftir að verða gott.  

Illa brenndur ráfaði ég um svæðið og skoðaði. Sviðin voru þrjú talsins og þar sem ekkert annað sérstakt var í gangi ákvað ég að kíkja á rokkarana í Layabouts en þeir eru einmitt frá Spáni. Samkvæmt þeim eru þeir eina spænska hljómsveitin sem syngur á ensku og fannst mér nokkuð sérstakt af þeim að vera hreyta því í lýðinn sem var líklega allur spænskur fyrir utan mig og frú. Það var mikið í gangi á sviðinu hjá þeim, mikið rokk og góð keyrsla en mér fannst því miður eins og þeir væru að spila sama lagið í þrjú kortér.

Næst á svið var Russian Red en það er listamannsnafn Lourdes Hernández sem ættuð er frá Spáni. Hin mjög svo myndarlega Lourdes er stundum kölluð Feist Spánar og ekki af ástæðulausu. Hún býr yfir virkilega góðri rödd og mikilli útgeislun. Hún átti góða spretti með hljómsveit sinni og smátt og smátt var kvöldið að braggast.

Paolo Nutini var næstur í röðinni en það var fyrsta nafn kvöldsins sem ég var virkilega spenntur fyrir. Hann byrjaði með látum í laginu "Jenny Don't Be Hasty" og hélt áhorfendum með þvílíku hreðjartaki alla tónleikana. Ég var að búast við ágætum söngvara í Nutini en hann sýndi það og sannaði að hann er einfaldlega hörku söngvari og gerði hann ágætis lög að frábærum lögum með flutningi sínum þetta kvöldið. Þökk sé pípum Nutinis og keyrslu hljómsveitarinnar voru þetta bestu tónleikar kvöldsins að mati Dagfarans!

Það vakti mikla athygli þegar taktkjafturinn Faith SFX mætti á sviðið á undan Plan B og sýndi listir sínar fyrir framan mörg þúsund manns. Líklega besti taktkjaftur sem ég hef heyrt í á ævinni og í raun ótrúlegt að aðeins einn maður geti framkvæmt svo mörg hljóð. Loks mætti Plan B á svæðið og byrjaði tónleikana á laginu "The Recluse". Það virtist há tónleikunum að upphitunin hjá Faith SFX var mun kröftugri heldur en sjálfir tónleikar Plan B og er það súrt í ljósi þess að Plan B er verulega flottur tónlistarmaður og flytjandi með mörg frábær lög. Ég ráðlegg Plan B að sleppa taktkjaftinum næst.

Þá var loksins komið að Mike Skinner og félögum í The Streets. Mike Skinner er búinn að gefa það út að þetta sé síðasta starfsár hljómsveitarinnar sem er skandall þar sem nýja efnið er rosa gott. Það var því mikilvægt að geta séð þennan snilling áður en hann hættir. Tónleikarnir voru mjög svo góðir enda kann Mike Skinner að skemmta áhorfendum sínum. Tekin voru lög af öllum ferli The Streets og meira að segja af plötunni Everything Is Borrowed sem Dagfarinn gagnrýndi á tíma sínum hjá Monitor. Það sem mér þótti þó merkilegast við tónleikana var söngvarinn Robert Harvey sem syngur og spilar með The Streets þessa dagana. Hann er fyrrum aðal söngvari hljómsveitarinnar The Music og þar minnti hann helst á Robert Plant með sítt liðað hár og alles. En í dag er hann nauða sköllóttur og ber sig eins og hinn versti rappari. Engu að síður flottir tónleikar og hefði ég líklega notið þeirra betur ef ekki hefði verið fyrir slæman sólbruna!

Kvöldinu var svo lokað með því að sjá restina af settinu hjá Chase & Status en gaman hefði verið að sjá þá tónleika í heild sinni enda eru þeir menn afar hrifnir af góðri stemningu. Frábær fimmtudagur að baki sem gaf góð fyrirheit um komandi helgi.

Erfitt var að sjá á eftir: Chase & Status, Congotronics Vs Rockers, Crystal Fighters, Julieta VenegasThe Spires


Plötuárið 2011: fyrri hálfleikur

Ég verð að viðurkenna að tónlistarárið í ár hingað til hefur verið býsna gott á öllum sviðum. Margir flottir tónleikar hafa verið í boði, búið er að opna Hörpuna og hljómsveitir hafa verið duglegar að gefa út nýjar plötur, þó aðallega erlendar. Þó verð ég að minnast á floppið sem tónleikar Hurts voru í Vodafone-höllinni en afar pínlegt var að vera á meðal gesta í rafmagnsleysinu þar.

Árið í plötuútgáfum fór þó nokkuð hægt af stað og náðu til að mynda plötur White Lies og Hercules & Love Affair ekki sömu hæðum og forverar þeirra gerðu. Adele sýndi heiminum að hún er hörku söngkona og stimplaði sig rækilega inní tónlistarflóruna með annarri plötunni sinni, 21. Í lok mánaðarins komu svo sitthvorar sprengjurnar frá hljómsveitunum Chase & Status og The Go! Team sem er líklegast að toppa hér á nýjustu plötu sinni Rolling Blackouts.

 

Febrúar var stuttur og laggóður og byrjaði blítt á frumburði James Blake sem býður uppá afbragðs döbbstepp í fallegum útsetningum. Gleðisveitin Cut Copy frá Ástralíu sendi svo frá sér vel heppnaða skífu en hljómsveitin treður einmitt uppá Nasa þann 20. júlí næstkomandi. PJ Harvey sendi frá sér sína áttundu breiðskífu Let England Shake en henni hefur verið tekið býsna vel af gagnrýnendum. Það voru svo engir aðrir en kóngarnir í Radiohead sem gáfu óvænt frá sér hina mögnuðu The King of Limbs sem hefur dafnað virkilega vel í eyrum Dagfarans.

 

Í mars leit önnur plata Sin Fang (ekki lengur Bous) dagsins ljós en Dagfarinn hafði beðið hennar með mikilli eftirvæntingu og var ekki svikinn. Fátt var um fína drætti fyrir utan landsteina en ég uppgvötvaði loksins Noah and the Whale sem sendu frá sér hina frábæru plötu Last Night on Earth en síngúllinn "L.I.F.E.G.O.E.S.O.N." hefur slegið gegn á öldum ljósvakans. Svo má alls ekki gleyma fjórðu breiðskífunni frá The Strokes, Angles, en hún tók sér tíma í að heilla Dagfarann en honum þykir hún dálæti daginn í dag.

 

Apríl var nokkuð rólegur mánuður en þó verð ég að nefna til sögunnar vel heppnaða plötu frá Timber Timbre sem spilaði á seinustu Airwaves hátíð við góðan orðstír. Panda Bear sendi frá sér Tomboy en það hlýtur að teljast hans aðgengilegasta verk til þessa. Sigurinn þennan mánuðinn áttu þó tilraunadýrin í TV on the Radio með nýjustu plötu sinni Nine Types of Light. Líklega ekki besta platan úr þeirra herbúðum en engu að síður mjög góð.

 

Eitthvað meira var í gangi í maí mánuði. Meðlimir Fleet Foxes stóðust pressuna og skiluðu af sér afbragðs breiðskífu í Helplessness Blues. Beastie Boys gáfu svo út hina klikkuðu Hot Sauce Committe Part Two en Dagfarinn á eftir að gefa henni frekari hlustanir en hann er rétt að jafna sig eftir þá fyrstu. GusGus + Urður og Högni gerðu allt vitlaust á Íslandi og víðar með áttundu plötu sinni, Arabian Horse sem þykir einkar vel heppnuð. Friendly Fires gera svo virkilega fína hluti á sinni annarri breiðskífu Pala og toppa frumburð sinn, ekki spurning! Dagfarinn á svo eftir að gefa nýju plötunum frá Death Cab for Cutie og Okkervil River frekari hlustanir.

 

Vigri opnaði júní mánuð á eftirminnilegan hátt með glæsilegum frumburði sínum sem hægt er að lesa gagnrýni við hér að neðan. Arctic Monkeys héldu júní-járninu heitu með hinni frábæru Suck it and See og hysja um leið upp um sig brækurnar sem þeir misstu með hinni slöku Humbug. FM Belfast gáfu loksins frá sér nýja plötu sem Dagfarinn þarf að gefa betri gaum. Patrick Wolf stimplaði sig svo inní i-Tunes möppu Dagfarans með hinni frábæru Lupercalia en hann minnir stundum á meistara Morrissey. Bon Iver gaf út samnefnda plötu en hann sló í gegn árið 2008 með frumburði sínum For Emma, Forever Ago. Hann gefur ekkert eftir á þeirri nýju og má vel vera að hér séum við að tala um eina af plötum ársins. Hann sá annars um að loka þessum spikfeita mánuði sem er að mati Dagfarans sá besti hingað til.

  

Mig grunar að fyrri hluti ársins verði sterkari en sá seinni en þó eru framundan nýjar plötur með hljómsveitum á borð við Beirut, Bombay Bicycle Club, Björk, Kanye West & Jay-Z, Pétur Ben, Red Hot Chili Peppers og Queens of the Stone Age. Einnig virðist árið 2011 ætla vera ár hinna gömlu rokkara en væntanlegar eru plötur frá Metallica, Megadeth, Soundgarden, Rage Against the Machine, Guns N' Roses og Aerosmith svo eitthvað sé nefnt.

Dagfarinn flautar nú til seinni hálfleiks og óskar eftir jafn miklum gæðum og sáust í þeim fyrri.

Skiptingar sem ekki voru notaðar í fyrri hálfleik: Battles, Deerhoof, Eberg & Pétur Ben, Eddie Vedder, The Joy Formidable, Kurt Vile, Lykke Li, Paul Simon, R.E.M., SebastiAn, The Vaccines, Yelle.


Plötudómur: Vigri - Pink Boats

Kápan af plötunni Pink Boats með VigraÚtgáfudagur: 02/06/2011
Útgefandi: Vigri
Tegund: Popp, Rokk, Póst-Rokk, Klassík, Draumkennt, Tilraunakennt, Prógressív
Lykillög: Awakening, Animals, Í Augsýn, Sleep
Kápa plötunnar: Falleg og smart, vel gert Þuríður og Jón Ingi!
Minnir á: múm, Patrick Watson, Sigur Rós, Sin Fang

80%

Dagfarinn hefur ákveðið að rifja upp gamla takta og gagnrýna eitt stykki plötu sem kom út núna í byrjun mánaðar. Um er að ræða frumburð hljómsveitarinnar Vigra, Pink Boats.

Vigra skipa fimm drengir og þar af tveir bræður sem stofnuðu sveitina árið 2008. Í upphafi átti að vinna plötuna hratt en meðlimir áttuðu sig fljótt á erfiði verkefnisins og tóku sér góðan tíma í upptökur.

Platan kom svo út á Uppstigningardaginn sem er fyndið í ljósi þess að þá eru allar plötubúðir landsins lokaðar. Hún hafði þó verið aðgengileg í nokkra daga á gogoyoko fyrir það.

Tónlist Vigra má lýsa sem draumkenndu og tilfinningaríku poppi með klassísku ívafi. Inní þetta blandast svo náttúrudýrkun meðlimanna en þeir una hag sínum best annaðhvort á Esjustofunni eða uppí Flatey.

Maður tekur strax eftir því við hlustun plötunnar að þarna er um metnaðarfullt verk að ræða. Meðlimir sveitarinnar eru allir fjölhæfir listamenn og er illa við að skilja hljóðfæri útundan sem skilar sér í þéttum útfærslum. Bræðurnir Hans og Bjarki skipta svo söngnum bróðurlega á milli sín. Ekki veit ég hvernig þeir fóru að því en þeir gerðu það vel þar sem ég get ekki séð Hans fyrir mér að syngja lögin hans Bjarka og öfugt.

"Awakening" opnar plötuna með nokkuð drungalegum hætti og vísar um leið í titil plötunnar, frábært lag þar á ferð. Á eftir fylgja "Drag Down the Dark" og "Animals" en þau eru á meðal sterkustu laganna á plötunni án efa. Upptökur á Pink Boats fóru svo meðal annars fram í nokkrum kirkjum á landinu og má greina áhrifin þaðan í laginu "Coin Finder" sem hefst á klukkuslögum, glæsilegt lag. Eftir góða byrjun markar svo hið stutta "(fyrir) Skikkan Skaparans" nokkurs konar hálfleik. Ef platan kæmi út á vínyl myndi ég giska á að eftir þetta lag ætti skipta um hlið. Lagið gefur jafnframt fyrirheit um að eitthvað meira sé í vændum og ferskeytlan sem er á trúarlegu nótunum sýnir að strákarnir kunna að yrkja á góðri íslensku.

Seinni hálfleikur hefst á laginu "Sleep" en myndbandið við það lag hefur hlotið mikla athygli, bæði hér á landi og úti. Eitt sterkasta lag plötunnar. "Maternal Machine" er lakasta lagið á plötunni. Söngurinn hjá Hans kemst ekki á það flug sem hann þyrfti að gera og því nær lagið ekki að fanga mann eins mikið og hin. "Í Augsýn" er eina lagið ásamt "(fyrir) Skikkan Skaparans" sem sungið er á íslenskri tungu sem er fínasta tilbreyting frá enskunni og væri gaman ef þeir gerðu meira af því í framtíðinni. Einlæg og falleg ballaða sem sungin er af mikilli snilld hjá Bjarka og píanóið í laginu er undurfagurt. "Fume" og "These are the Eyes" koma svo sterk inn og loka plötunni með sóma og sleppa við það þekkta vandamál að vera týndu lögin á plötunni.

Helsti kostur Vigra er sá að þeim hefur tekist að þróa sinn eigin stíl og tekst oft að gera hið ófyrirsjáanlega í lagasmíðum sínum sem er afar góður kostur. Hans og félagar geta gengið stoltir frá verki og nú er bara að fylgja plötunni eftir og kynna hana fyrir fólki. Hún á það nefnilega svo sannarlega skilið.

Niðurstaða: Pink Boats er áferðafallegur frumburður sem fellur snyrtilega saman í eina heild. Ein af bestu plötum ársins og ef stærri hljómsveit hefði gert hana þá seldist hún í bílförmum!

http://soundcloud.com/iceland-music-export/animals
http://soundcloud.com/iceland-music-export/coin-finder-vigri
http://soundcloud.com/iceland-music-export/drag-down-the-dark


Myndbandið við lagið "Sleep".


Nýtt frá Arctic Monkeys

Tónlistarárið í ár stefnir í að verða nokkuð gott. Nú þegar hafa plötur með sveitum á borð við Radiohead, TV on the Radio, The Strokes, PJ Harvey, R.E.M. og James Blake litið dagsins ljós og það eru fleiri á leiðinni.

Arctic Monkeys sendir frá sér sína fjórðu hljóðversplötu 6. júní næstkomandi en hún ber heitið Suck It and See. Nú þegar eru þrjú lög aðgengileg á netinu en þau heita "Brick by Brick", "Don't Sit Down 'Cause I've Moved Your Chair" og "Piledriver Waltz". Fyrstu tvö lögin eru nokkuð keimlík en "Piledriver Waltz" er að mínu mati besta lagið af þessum þremur. Alex Turner samdi lagið fyrir kvikmyndina Submarine sem frumsýnd verður í sumar.

Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um hin tvö lögin. Alex Turner virðist eitthvað hafa farið aftur í textagerð og þá finnst mér lagið "Brick by Brick" vera laust við allan metnað. Þetta er allavega ekki eitthvað sem maður bjóst við frá eins góðri hljómsveit og Arctic Monkeys. Hinsvegar ætti þetta ekki að koma á óvart því að síðasta plata þeirra Humbug þótti ekki eins góð og forverar sínir. Arctic Monkeys gæti því verið að kanna aðrar leiðir en það er bara ekki alveg að virka finnst mér. Ég vona af öllu mínu hjarta að hin lögin á plötunni séu í meiri klassa en þó verð ég að lýsa yfir hrifningu minni á "Piledriver Waltz" og er það virkilega ánægjulegt að það hafi fengið að vera með plötunni.

Hvað segja annars harðir aðdáendur Arctic Monkeys þarna úti um þessi lög?


Reykjavík Music Mess 2011

Dagfarinn var svo lánsamur að bjóðast frír miði á hátíðina Reykjavík Music Mess sem haldin var um helgina í fyrsta skipti. Já krakkar, það kann að hljóma undarlega en stundum getur það komið sér vel að vita eitthvað um tónlist.

Hátíðin hófst á föstudegi en þá kíkti ég í Norræna húsið og sá þar þrjár hljómsveitir. Fyrst sá ég Nive Nielsen frá Grænlandi sem var alveg þokkaleg en náði samt ekki að heilla mig nóg. Hljóðið var eitthvað að stríða hljómsveitinni líka og bassinn var til að mynda alltof hátt stilltur. En hljómsveitin fær prik fyrir að bjóða uppá óvenjuleg hljóðfæri eins og sög og gítar sem virtist vera úr Kornflex kassa!

Næst var komið að krúttsprengjunni Sóley en hún spilar á hljómborð í Sin Fang og Seabear ef mér skjátlast ekki. Hérna er hún komin með sitt eigið efni og er plata væntanleg frá henni en í fyrra gaf hún út EP plötuna Theater Island. Sóley var búin að smala saman í litla hljómsveit að eigin sögn en því miður var hún ekki nógu þétt sem er synd því að efniviðurinn lofar mjög góðu. Ég hlustaði svo á EP plötuna hennar þegar ég kom heim og þar var miklu betri hljómur eins og mig grunaði. Sóley hefur annars frábæra rödd og mér var mikið skemmt á tónleikum hennar sökum krúttleika og skemmtilegrar sviðsframkomu. Framtíðin lofar góðu hjá þessari stúlku.

Hljómsveitin Stafrænn Hákon lokaði svo kvöldinu í Norræna húsinu en upphaflega ætlaði ég að hlusta á eitt lag með þeim og fara svo heim en þeir héldu mér rígföstum í salnum og komu mér skemmtilega á óvart. Ekki láta nafnið plata ykkur, ég hélt að ég væri að fara að hlusta á rólega rafræna tóna en annað kom heldur betur á daginn! Tónlistinni þeirra mætti lýsa sem einhvers konar samsuðu af The Shadows og Godspeed You Black Emperor. Hljómsveitin var áberandi þéttust af því sem ég hafði séð þetta kvöld enda hafa þeir/hann gefið út plötur jafnt og þétt í 10 ár.

Á laugardeginum var ég aðeins búinn að fá mér og kvöldið lofaði mjög góðu þegar að meistari Sindri steig á stokk undir merkjum Sin Fang á Nasa. Eins og við mátti búast voru hljómgæðin í húsinu talsvert betri heldur en í því Norræna. Sin Fang naut sín til botns á sviðinu og það skilaði sér svo sannarlega útí salinn. Fyrir utan nokkra háværa fm-hnakka frá Þýskalandi sem að voru líklegast eitthvað villtir af leið voru þetta frábærir tónleikar.

Bandaríska hljómsveitin Lower Dens var næst á svið en hún hefur meðal annars hitað upp fyrir Deerhunter og Beach House. Lower Dens er svo sem ekki ósvipuð þeim hljómsveitum en hún á þó langt í land enda fannst mér indí rokkið sem þau buðu uppá ansi tilþrifalítið. Kannski hafði það áhrif að ég hef aldrei hlustað á hljómsveitina áður en tónlistin þeirra hreif mig allavega ekki neitt sérstaklega við fyrstu hlustun. Sviðsframkoma þeirra var líka döpur í meira lagi. 

Næst á svið var íslenska sveitin kimono en það tók mig nokkra stund að fatta kynið á söngvaranum. Að lokum komst ég svo að því að um karl væri að ræða enda bentu raddböndin hans til um eitt stykki pung. Þeir voru ögn harðari en ég bjóst við en það var bara gaman að fá smá fútt í þetta eftir vonbrigðin á undan. Virkilega flott band sem kann að spila á hljóðfærin sín og vera "fucking awesome" eins og einn gesturinn sagði.

Ég gekk svo fljótlega út eftir að Reykjavík!+Lazyblood byrjaði enda fattaði ég ekki tilburði söngkonunnar.

Sunnudagurinn var að mínum dómi þéttasti dagurinn. Ég hóf leikinn í Norræna húsinu þar sem að Mugison fór á kostum. Mér leið meira eins og gesti heima hjá honum heldur en tónleikagesti. Hann var gríðarlega heimilislegur og skemmtilegur og lék óaðfinnanlega á gítarinn sinn og minstrumentið sitt. Söngurinn var svo algjörlega sér á báti, maður heyrði hvert einasta orð og innlifunin hans skilaði sér beint í æðarnar á mér. Þá sérstaklega í laginu um hátíðina Aldrei fór ég suður. Besta íslenska hljómsveitin á hátíðinni, staðfest!

Skakkamanage tók svo við á Nasa og lék lögin sín af mikilli list. Ég verð þó að viðurkenna að ég er meira fyrir fýlinginn sem var á Lab of Love plötunni þeirra en þau hafa heldur betur bætt í eftir það. Uppátækið með vodkann var svo afar skemmtilegt en ég stóð frekar aftarlega og kunni ekki við að teyga af sama stút og svona 100 manns.

Það var svo ekki að ástæðulausu sem að Deerhunter lokaði þessari annars ágætu hátíð. Væri samt einhver til í að gefa söngvaranum Bradford Cox eitthvað að borða!?!? Það var virkilega óþæginlegt að horfa á hann og ég er ennþá að furða mig á því hvernig hann gat haldið á gítarnum sínum. En jæja, Deerhunter voru drullu þéttir og gerðu mikinn hávaða sem varð til þess að tónlistarmaðurinn Pétur Ben hélt fyrir eyrun á sér. Þeir skiptu jafnt á milli sín grípandi lagasmíðum og suðandi og háværum lögum þannig að bifhárin fengu að kenna alvarlega á því! Glæsilegt sett hjá þessari frábæru sveit.

Um hátíðina sjálfa hef ég í raun bara gott að segja. Það var ekki þessi brjálæðislegi troðningur og raðir sem að einkenna Iceland Airwaves, ágætis tilbreyting þar á ferð. Það gæti þó breyst í framtíðinni og tala nú ekki um þegar þeir draga svona stórfiska í land eins og Deerhunter. Norræna húsið fannst mér þó skrítin staðsetning, eiginlega ekki í göngufæri í nýstíngskulda í apríl og svo var alltaf eitthvað vesen með hljóðið. Fyrir utan það er þetta virkilega fín viðbót í íslenskt tónlistar- og menningarlíf og er það afar ánægjulegt á þessum síðustu og verstu.


Jóhanna Guðrún kann ekki að tapa

Ég er búinn að reyna eins og ég get að skrifa ekki um það sem ég varð vitni af síðasta laugardagskvöld þegar ég sat í faðmi fjölskyldunnar og horfði á Söngvakeppni sjónvarpsins. Vanalega kenni ég mig ekki við keppnina öðruvísi en í glasi og góðum drykkjuleik en þátttaka Jóhönnu Guðrúnar vakti áhuga minn.

Vil ég meina að árangur hennar í keppninni árið 2009 hafi stigið henni gjörsamlega til höfuðs. Í rauninni hefði ég viljað óska þess að einhver annar hefði staðið í þessum bláu seglum og sungið sig inní hjörtu Evrópubúa. En sú varð raunin að litla barnastjarnan hreppti annað sætið og jafnaði þar með besta árangur Íslands í keppninni þökk sé Selmu og félögum 1999 í öllu hressari atriði.

Líklega hefur dagskrá söngkonunnar verið frekar þunnskipuð uppá síðkastið þar sem hún ákvað að taka þátt í annað sinn með það að markmiði að fá fleiri símtöl. Hún flutti lagið "Nótt" að þessu sinni ásamt kærastanum sínum, allt voðalega sætt eitthvað og hlaut náð fyrir augum landans að sjálfsögðu og komst áfram í úrslitaþáttinn.

Ég sá nokkur viðtöl við hana í fjölmiðlum fyrir úrslitaþáttinn og það er alveg æðislegt að hlusta á svona atvinnumann tala. Það virtist vera svo miklu meira lagt í hennar atriði heldur en öll hin og þar af leiðandi ekki við öðru að búast en að hún myndi lenda í fyrsta sæti. En annað kom heldur betur á daginn og var æðislegt að fylgjast með viðbrögðum fyrrum barnastjörnunnar.

Svo fór að Magni komst réttilega áfram með lagið sitt "Ég trúi á betra líf" og þar á eftir fylgdi lagið "Aftur heim" eftir Sjonna Brink heitinn sem endaði svo á því að vinna og verða fulltrúi Íslands í Þýskalandi í maí. Ég ætla að sleppa því að gagnrýna sigurlagið en að mínum dómi hefði Magni átt að fara með hálsklútinn út.

Þegar tilkynnt var að "Aftur heim" væri hitt lagið sem hefði endað efst í kosningunni sást borðið hennar Jóhönnu Guðrúnar afar vel og varð mér mikið skemmt. Vonbrigðin í augum hennar leyndu sér ekki og hún var ekkert að hafa fyrir því að klappa þó ekki væri nema bara til að sýna Sjonna Brink smá vott af virðingu. Úrslitin komu henni svo mikið á óvart að ég er hræddur um að nóttin hafi verið erfið fyrir hana og sérstaklega kærastann hennar.

Jóhanna Guðrún í fýlu
Þegar úrslitin voru tilkynnt.

Daginn eftir kom hún með yfirlýsingu á facebook síðu sinni undir fyrirsögninni "Júróvisjón í gær".

"Elsku íslendingar.

Það er ekki gaman að tapa, sérstaklega þegar maður er búin að leggja alla sína krafta í eitthvað sem maður trúði á.

Því finnst mér grátlegt þegar fólk gagnrýnir mann fyrir að fagna ekki þegar úrslitin voru tilkynnt, ég held að flestir hafi ekki hugmynd um vinnuna sem liggur að baki.

En fólk er búið að skjóta föstum skotum á mig í dag fyrir viðbrögð mín við vali kjósenda á tveimur efstu lögunum. Auðvitað er þetta sárt. En ég virði val þjóðarinnar, og áður en ég fór heim gekk ég hringinn og kyssti alla þá sem voru viðstaddir. Þetta eru allt kollegar mínir og ég samgleðst þeim innilega og óska þem góðs gengis. :)"

Hérna er hún augljóslega að reyna að bjarga andliti sínu eftir laugardagskvöldið en henni mistekst það að mínu mati. Heldur hún í alvöru að hún sé sú eina sem leggur eitthvað á sig til að gera atriði sitt sem flottast? Er það góð og gild ástæða þess að samgleðjast ekki þeim sem unnu sigur úr bítum? Ég sá ekki betur en að Magni hafi um leið og úrslitin voru tilkynnt labbað til allra strákanna og Þórunnar og óskað þeim til hamingju, ekki vottur af hroka eða fýlu enda er Magni algjör fagmaður.

Ef að Jóhanna ætlar eitthvað að enda í þessum bransa og taka þátt í svona keppni þá þarf hún líka að kunna að tapa því annars á hún bara alls ekkert erindi í svona lagað ef hún fer bara í fýlu ef hún vinnur ekki. Hún verður að átta sig á því að það verður ekki allt að gulli sem hún snertir. Ég vona bara innilega að hún fái einhver símtöl á næstunni svo hún þurfi ekki að hætta að leika sér og fara í skóla og læra. Hún hefði reyndar gott af því enda skrifar maður "íslendingar" með stóru í-i.


Erlendar plötur ársins 2010

2010 var að mínu mati spikfeitt ár í tónlistinni, bæði hér á Íslandi sem og erlendis. Þrátt fyrir endalaust niðurhal mannapans þá halda hljómsveitir víða um heim ótrauðar áfram að gefa efnið sitt út á föstu formi sem er vel.

Ég verð að viðurkenna að ég var sérstaklega spenntur fyrir nýjum plötum frá grúppum eins og Arcade Fire, Belle & Sebastian, The National, MGMT, Gorillaz, LCD Soundsystem og Vampire Weekend. Auk þess uppgvötvaði ég margar gæðasveitir á borð við Hurts, Robyn, Ou Est Le Swimming Pool, Bombay Bicycle Club og John Grant sem allar gáfu út þykkar plötur á árinu. Kings of Leon gerði svo það sem allir heilvita menn bjuggust við, að skíta á sig, en þeir þurfa þó ekki að örvænta, þeir eiga fyrir pappírnum sem þeir geta skeint sér með.

En vindum okkur í niðurstöður dagfarans.

1. The Suburbs - Arcade Fire

Arcade Fire gaf út tvær frábærar plötur árin 2004 og 2007 og maður var í raun stressaður (fyrir þeirra hönd) fyrir framhaldinu. Þær áhyggjur voru algjörlega óþarfar þar sem Arcade Fire var algjörlega á pari við síðustu verk. Win Butler og félagar hafa gefið aðdáendum sínum verkefni sem nánast ógerlegt er að leysa, að velja sína uppáhalds plötu með sveitinni.

2. Queen of Denmark - John Grant

Ég vildi óska að ég hefði uppgvötvað þennan snilling á bömmer en tónlist hans myndi henta vel í sjálfsvorkunina. John Grant er "prófauppgvötvunin" mín en það er listamaður sem ég uppgvötva þegar ég á að vera að læra fyrir próf. Hann náði ekki að meika það með hljómsveit sinni The Czars, kannski vegna einkennilegs nafns en hann náði heldur betur að rétta úr kútnum með þessari sóló plötu sinni. Platan er mjög persónuleg sem er mikill kostur þar sem þú færð að kíkja í heimsókn í mjög svo áhugavert heilabú John Grants. 

3. High Violet - The National

The National er eins og vín, það verður betra með hverju árinu sem líður. High Violet er þeirra fimmta plata og fylgir á eftir The Boxer (2007) sem var einkar vel heppnuð plata. Ég er á því að þetta sé þeirra besta plata á ferlinum enda eru liðsmenn The National dæmi um menn sem vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Á plötunni er t.d. að finna lögin "Bloodbuzz Ohio" og "Anyone's Ghost" sem hafa verið í spilun á X-inu. Einnig eru lögin "Afraid of Everyone" og "Conversation 16" algjör eyrnakonfekt! Það verður erfitt verk fyrir hljómsveitina að toppa þessa plötu en ég er samt sem áður ekki í efa um það að þeir hafi getuna til þess, þetta er einfaldlega mögnuð hljómsveit!

4. Plastic Beach - Gorillaz

Það er fyrir löngu vitað að Damon Albarn er einn allra besti tónlistarmaður frá upphafi. Hann sannaði það með góði gengi Blur, Gorillaz og The Good the Bad and the Queen ásamt því að kaupa sér hús að Bakkastöðum í Grafarvogi. Á Plastic Beach fær hann stuðning úr öllum áttum en Snoop Dogg og Lou Reed leggja honum t.d. lið á plötunni. Gorillaz batteríið heldur því áfram að rúlla í rétta átt.

5. The Golden Year - Ou Est Le Swimming Pool

Litlu munaði að þessi plata myndi aldrei líta dagsins ljós sökum sjálfsvígs söngvarans Charles Haddon en hann tók líf sitt á Pukkelpop tónlistarhátíðinni sem haldin er í Belgíu. Það er mikil synd þar sem að efnið þeirra er fjandi gott að hlusta á og í ljósi þess að maður fær aldrei að sjá þessa hljómsveit á sviði. Flestir tónþyrstir Íslendingar ættu að kannast við smellinn þeirra "Dance the Way I Feel" sem Máni á X-inu var virkilega hrifinn af. Einnig mæli ég með laginu hér að ofan sem og "Jackson's Last Stand". Guði sé lof að eftirlifandi meðlimir ákváðu að gefa út plötuna, það er líklega það sem Charles Haddon hefði viljað.

Aðrar plötur sem voru nálægt því að komast á listann:

The Age of Adz - Sufjan Stevens
Brothers - The Black Keys
Congratulations - MGMT
Contra - Vampire Weekend
Flaws - Bombay Bicycle Club
Happiness - Hurts

My Beautiful Dark Twisted Fantasy - Kanye West
Swanlight - Antony & the Johnson
Teen Dream - Beach House
This Is Happening - LCD Soundsystem

Write About Love - Belle & Sebastian


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband