Sambandsfitan mín

Ég rakst á grein um daginn á hinum annars ágæta vef bleikt.is undir fyrirsögninni "Kærustufaggi". Henný Moritz, höfundur greinarinnar, ræðir þar hvað það er að vera kærustufaggi og hvað skemmtilegir einstaklingar breytast mikið þegar þeir fara í samband. Það var margt áhugavert í greininni að mínu mati og gæti ég alveg kvittað undir nokkur atriði þarna með góðri samvisku. 

Eitt af því er t.d. hin alræmda sambandsfita. Í greininni segir: "Kærustufagga er eðlilegt að fitna og slappast". Ég viðurkenni fúslega að ég hef fitnað síðan ég byrjaði með henni Kristínu minni en þó líklega af öðrum ástæðum en flestir aðrir kærustufaggar.

Atvikið átti sér stað 22. september árið 2009 og ég man eftir þessum degi eins og hann hefði verið í gær. Þá var ég ekki byrjaður með Kristínu en ég hafði svona verið að reyna að fá hana á deit. Það gekk hinsvegar ekkert alltof vel til að byrja með, hún neitaði eða frestaði alltaf en hélt mér þó alltaf heitum. Þennan miðvikudag stóð til boða að fara í sparkbolta með nokkrum HK-ingum í nístingskulda. En ég vildi ólmur hitta Kristínu og bjóða henni á rúntinn eða eitthvað álíka.

Daginn áður hafði hún játað þessum hitting en á allra síðustu stundu beilaði hún og gaf upp þessa ástæðu: "Ég er að fara í öldulaugina í Álftanesi með vinkonum mínum" sagði hún á msn og hljómaði eins og fermingarbarn í mínum eyrum. Ég sló því á þráðinn til strákanna og bauð komu mína í sparkboltann. Því hefði ég betur átt að sleppa.

Í boltanum var tekist mishart á. Ég var svona þekktastur fyrir að gera eitthvað upp úr engu, oftast vegna heppni og ég átti það líka til að vera harður í horn að taka. Ég ætlaði einmitt að láta Samma 70 finna til tevatnsins í einni sókninni. Hann geystist upp völlinn og missti boltann aðeins frá sér. Ég sá strax í hvað stefndi og hljóp að boltanum og ætlaði svo að senda Samma alla leið uppí Garðabæ en hann þykir mjög lítið eintak af manni. Ég setti allan minn skriðþunga (p := m v) í verkefnið og henti mér svona útí loftið og beið eftir snertingunni frá Samma. En snertingin kom aldrei og því flaug ég útí loftið og lenti óvænt með hægri löppina á gervigrasinu örfáum sekúndum síðar. Það skilaði sér í krossbandssliti og sködduðum liðþófa í hægra hné. Sammi var klókur og sleppti því að fara í návígið enda ekki mikið fyrir Garðabæinn.

Það kom ekki í ljós fyrr en í desember sama ár hvað amaði að mér en ég hafði alltaf frestað því að fara í skoðun enda ekki vanur að meiða mig illa. Skilaði það sér í nokkrum boltum í viðbót sem endaði oftar en ekki eftir örfáar mínútur. Eitt sinn var ég borinn af velli illa þjáður í Sporthúsinu af tveimur félögum og fór svo á Airwaves hátíðina sömu helgi og þið getið rétt ímyndað ykkur sársaukann að standa tímunum saman yfir misgóðum hljómsveitum.

Ég fór svo í aðgerð í mars næsta ár og smátt og smátt byrjuðu kílóin að hrannast á mig. Frí í 6 vikur eftir aðgerð gerði útslagið og sáu Kristín og móðir mín um að halda mér við efnið með bakkelsi og brauði.

Mér þykir það mikil kaldhæðni að ég væri jafnvel 10-20 kílóum léttari með heilbrigt hné í dag hefði Kristín haldið sig við það sem ákveðið var og ekki tekið upp á því að fara í tilþrifalausa sundferð með einhverjum stelpukjánum. Í staðinn fór ég í sparkbolta og rústaði á mér hnénu. Já sambandsfitan leggst á flest pör og eru sameiginleg afleiðing tveggja einstaklinga. Kristín tók forskot á sæluna og sá til þess að ég myndi fá langvarandi sambandsfitu. Ég hélt að hún myndi missa áhugann á mér ef ég myndi bæta á mig en nú sé ég að það var nákvæmlega það sem hún vildi.

Krossband
Fyrstu dagar eftir aðgerð, Kristín virðist vera stolt af sköpunarverki sínu.

Þið sem einhleyp eruð, farið gætilega ef deitið beilar skyndilega á fyrirfram plönuðum hitting, það gæti verið að leggja á ráðin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þú ert sérstakt eintak af manni torfi minn :o

johnny (IP-tala skráð) 2.3.2011 kl. 20:28

2 identicon

Hahaha... bara snilld

Árni Ragnarsson (IP-tala skráð) 2.3.2011 kl. 20:41

3 identicon

Krilla kemur á óvart, aldrei hefði mér dottið þessi snild í hug

Arna (IP-tala skráð) 2.3.2011 kl. 21:00

4 identicon

Ég tel að þetta hafi verið ákveðið gæfuspor, enda hafa grasserandi viðskiptamöguleikar opnast í kjölfarið!

Elís (IP-tala skráð) 2.3.2011 kl. 21:32

5 identicon

haha helvítið af henni en gott blogg meira svona!!!

Ingvi (IP-tala skráð) 3.3.2011 kl. 14:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband