Færsluflokkur: Lífstíll

Hugleiðsla með Tobbu Marinós

Í síðasta mánuði skellti ég mér í ókeypis hugleiðslu með tveimur félögum mínum. Þetta var mín leið til að fagna próflokum og ég get ekki sagt að ég sjái eftir þessum þremur klukkustundum.

Fyrir ykkur sem komið af fjöllum þá var í boði ókeypis hugleiðsla að hætti Sri Chinmoy en hann sá reyndar ekki um þessa hugleiðslu þar sem hann lést árið 2007. En nafni hans og meðferðum er haldið á lofti meðal annars af lærlingi hans frá Kanada sem sá um hugleiðsluna þetta föstudagskvöld. sri-chinmoy-high-mediation-pavitrata

Námskeiðið átti að vera alla helgina. Einn tími á föstudegi, tveir tímar á laugardegi og svo var svokallað "Grand Finale" á sunnudeginum. Ég lét það nægja að fara bara í föstudags tímann enda átti þetta ekki beint við mig þó ég geti vissulega verið sammála nokkrum punktum sem þarna komu fram.

Boðberi kvöldsins mælti með því við okkur áheyrendurna að hugleiða ætti tvisvar sinnum á dag, kortér í senn, snemma á morgnana fyrir vinnu og á kvöldin. Eftir eitthvern tíma ættum við svo að sjá mikinn mun á okkur, bæði andlega og líkamlega. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugleitt eftir þennan fund en félagi minn hefur verið samviskusamur og gert það síðan en ég hef ekki séð neina breytingu á kauða ennþá.

Þetta "Grand Finale" kvöld var svo eins og við mátti búast á trúarlegum forsendum. Fólk átti að finna fyrir Guði í hugleiðslu sinni og upplifa þvílíka hamingju í kjölfarið. Ég er gríðarlega sáttur við þá ákvörðun að hafa látið eitt skipti nægja og ekki láta þetta "Grand Finale" plata mig.

Það sem náði samt mestu athygli minni eftir hláturskastið sem nokkrir aðilar inní salnum fóru í eftir Óm-hugleiðsluna var ung dama sem sat aftast í herberginu. Það var engin önnur en Tobba Marinós. Ég get ekki sagt að það hafi verið sami bragur yfir henni eins og maður hefur séð hana í sjónvarpinu. Það verður þó að taka það með í reikninginn að undanfarnar vikur höfðu verið henni erfiðar eftir grein sem birtist í Grapevine. Greinin fór mjög illa í hana og það vakti mikla athygli í fjölmiðlum þegar hún hringdi á vælubílinn og skrifaði opinbert bréf til ritstjóra Grapevine. Það að fara á frítt hugleiðslunámskeið Sri Chinmoys var líklega besti kosturinn í stöðunni fyrir hana í þeim tilgangi að ná aftur fyrri styrk og minnka áreitið í kringum sig. Skopmynd af Tobbu (Grapevine)

Ekki nóg með það heldur virðumst við Tobba Marinós vera að feta sömu spor eftir Sri Chinmoy hugleiðsluna. Við skelltum okkur bæði í sund einn blíðviðris laugardaginn og sóluðum okkur með bros á vör. Því næst skelltum við okkur á leiksýninguna Strýhærði Pétur í Borgarleikhúsinu og skemmtum okkur vel. Guð má vita hvað verður næst á dagskránni en ég er allavega gríðarlega spenntur fyrir næstu uppákomu.

Tobba Marinós getur brosað á ný þökk sé hugleiðsluaðferðum Sri Chinmoys og ég hvet alla sem geta til að fara á þetta námskeið hans, tala nú ekki um þegar það er fríkeypis!

Hér er svo íslenska vefsíða Sri Chinmoys fyrir áhugasama: http://www.srichinmoy.org/island/ 


Sambandsfitan mín

Ég rakst á grein um daginn á hinum annars ágæta vef bleikt.is undir fyrirsögninni "Kærustufaggi". Henný Moritz, höfundur greinarinnar, ræðir þar hvað það er að vera kærustufaggi og hvað skemmtilegir einstaklingar breytast mikið þegar þeir fara í samband. Það var margt áhugavert í greininni að mínu mati og gæti ég alveg kvittað undir nokkur atriði þarna með góðri samvisku. 

Eitt af því er t.d. hin alræmda sambandsfita. Í greininni segir: "Kærustufagga er eðlilegt að fitna og slappast". Ég viðurkenni fúslega að ég hef fitnað síðan ég byrjaði með henni Kristínu minni en þó líklega af öðrum ástæðum en flestir aðrir kærustufaggar.

Atvikið átti sér stað 22. september árið 2009 og ég man eftir þessum degi eins og hann hefði verið í gær. Þá var ég ekki byrjaður með Kristínu en ég hafði svona verið að reyna að fá hana á deit. Það gekk hinsvegar ekkert alltof vel til að byrja með, hún neitaði eða frestaði alltaf en hélt mér þó alltaf heitum. Þennan miðvikudag stóð til boða að fara í sparkbolta með nokkrum HK-ingum í nístingskulda. En ég vildi ólmur hitta Kristínu og bjóða henni á rúntinn eða eitthvað álíka.

Daginn áður hafði hún játað þessum hitting en á allra síðustu stundu beilaði hún og gaf upp þessa ástæðu: "Ég er að fara í öldulaugina í Álftanesi með vinkonum mínum" sagði hún á msn og hljómaði eins og fermingarbarn í mínum eyrum. Ég sló því á þráðinn til strákanna og bauð komu mína í sparkboltann. Því hefði ég betur átt að sleppa.

Í boltanum var tekist mishart á. Ég var svona þekktastur fyrir að gera eitthvað upp úr engu, oftast vegna heppni og ég átti það líka til að vera harður í horn að taka. Ég ætlaði einmitt að láta Samma 70 finna til tevatnsins í einni sókninni. Hann geystist upp völlinn og missti boltann aðeins frá sér. Ég sá strax í hvað stefndi og hljóp að boltanum og ætlaði svo að senda Samma alla leið uppí Garðabæ en hann þykir mjög lítið eintak af manni. Ég setti allan minn skriðþunga (p := m v) í verkefnið og henti mér svona útí loftið og beið eftir snertingunni frá Samma. En snertingin kom aldrei og því flaug ég útí loftið og lenti óvænt með hægri löppina á gervigrasinu örfáum sekúndum síðar. Það skilaði sér í krossbandssliti og sködduðum liðþófa í hægra hné. Sammi var klókur og sleppti því að fara í návígið enda ekki mikið fyrir Garðabæinn.

Það kom ekki í ljós fyrr en í desember sama ár hvað amaði að mér en ég hafði alltaf frestað því að fara í skoðun enda ekki vanur að meiða mig illa. Skilaði það sér í nokkrum boltum í viðbót sem endaði oftar en ekki eftir örfáar mínútur. Eitt sinn var ég borinn af velli illa þjáður í Sporthúsinu af tveimur félögum og fór svo á Airwaves hátíðina sömu helgi og þið getið rétt ímyndað ykkur sársaukann að standa tímunum saman yfir misgóðum hljómsveitum.

Ég fór svo í aðgerð í mars næsta ár og smátt og smátt byrjuðu kílóin að hrannast á mig. Frí í 6 vikur eftir aðgerð gerði útslagið og sáu Kristín og móðir mín um að halda mér við efnið með bakkelsi og brauði.

Mér þykir það mikil kaldhæðni að ég væri jafnvel 10-20 kílóum léttari með heilbrigt hné í dag hefði Kristín haldið sig við það sem ákveðið var og ekki tekið upp á því að fara í tilþrifalausa sundferð með einhverjum stelpukjánum. Í staðinn fór ég í sparkbolta og rústaði á mér hnénu. Já sambandsfitan leggst á flest pör og eru sameiginleg afleiðing tveggja einstaklinga. Kristín tók forskot á sæluna og sá til þess að ég myndi fá langvarandi sambandsfitu. Ég hélt að hún myndi missa áhugann á mér ef ég myndi bæta á mig en nú sé ég að það var nákvæmlega það sem hún vildi.

Krossband
Fyrstu dagar eftir aðgerð, Kristín virðist vera stolt af sköpunarverki sínu.

Þið sem einhleyp eruð, farið gætilega ef deitið beilar skyndilega á fyrirfram plönuðum hitting, það gæti verið að leggja á ráðin.


Santacus

Ég hef leikið jólasvein síðan að ég var 13 ára að mig minnir og ég get sagt ykkur það að það eru ekki alltaf jólin í þeim bransanum. Þið skuluð ekki halda að ég sé einhver aukvissi í þessu en faðir minn og föðurbróðir hafa sinnt þessu linnulaust síðustu 20 árin með góðum árangri. Svo kom að því að þeir þurftu meiri mannskap vegna vinsælda og fjölda jólaballa. Þá var auðvitað enginn betri en verðandi fermingardrengurinn Torfi!

Eins og ég sagði þá eru ekki alltaf jólin í þessu þó að þetta gangi oftast vel hjá mér. Ég kveið því oft til að byrja með að stíga útá gólf í rauða gallanum og lenda í óþekktar öngum sem vildu koma upp um unglinginn sem reyndi aðeins að gleðja börnin. Svefn minn var lítill og ég hugleiddi alvarlega að aflita á mér hárið hvítt ef húfan skyldi nú einhvern tímann fjúka af mér. Andleg líðan mín fór ekki framhjá nokkrum manni og allra síst honum föður mínum.

Gamli tók því til sinna ráða og tók mig á eintal og stappaði í mig stálinu. Hann líkti hlutverki og framkomu jólasveinsins við skylmingaþrælinn Maximus úr hinni goðsagnakenndu kvikmynd Gladiator frá árinu 2000. Við værum eins og skylmingaþrælarnir í göngunum, alveg að míga í okkur af stressi vegna komandi andstæðinga sem biðu úti fyrir eftir fjörugu blóðbaði. Þetta var fullkomin myndlíking.

Santacus

Ennfremur sagði hann líkt og Maximus: "Hvað sem bíður okkar þarna fyrir utan þá eigum við meiri möguleika á að halda lífi ef við höldum hópinn og stöndum saman!". Þetta virkaði eins og vítamínsprauta fyrir mig og það sannaðist svo eftir á að þetta virkaði. Átökin voru minni og lítið sem ekkert um leiðinlegar uppákomur eftir þessar ræður fyrir framkomur.

Enn þann dag í dag ímynda ég mér að ég sé hinn eini sanni Maximus fyrir jólaball og þannig og aðeins þannig gengur mér betur í hlutverki Giljagaurs eða Askasleikis. 

Kvittið að vild!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband