Færsluflokkur: Kvikmyndir

Þorvaldur Davíð ósáttur við lagaval í Svartur á leik

Leikarinn Þorvaldur Davíð Kristjánsson segist vera ósáttur við þá Frank Hall og Árna Sveinsson varðandi lagaval eitt í kvikmyndinni Svartur á leik í viðtali við Morgunblaðið í dag. Um er að ræða lagið "Þú og ég" eftir Hljóma sem var endurhljóðblandað af Frank Hall með góðum árangri. Lagið var notað undir atriði með Þorvaldi og Maríu Birtu og þótti það afar vel heppnað.

Þrátt fyrir það er Þorvaldur ósáttur þar sem hann hafði bent leikstjóranum Óskari Þór á lagið sitt "Sumarsaga" sem kom út árið 2009. Óskar sagði Þorvaldi að hann myndi bera hugmyndina undir þá Árna og Frank sem sáu um tónlistina í myndinni. Sá fundur gekk ekki vel enda var löngu búið að ákveða að lögin í myndinni væru frá þeim tíma sem myndin gerðist eða í kringum aldamótin og að lagið "Sumarsaga" væri einfaldlega of nýtt fyrir myndina.

Óskar sagði Þorvaldi frá niðurstöðu fundarins og var leikarinn hneykslaður yfir útkomunni enda taldi hann að staða hans í myndinni gæti hjálpað honum við að koma laginu í gegn.

Í viðtali við Moggann í dag hafði hann þetta að segja:

Auðvitað er þetta leiðinlegt enda fannst mér lagið smellpassa við atriðið í myndinni enda kómískt og rómantískt. "Sjáumst aftur" eftir Pál Óskar var t.d. notað í myndinni og gerði mikla lukku og ég sé ekki neina ástæðu fyrir því að "Sumarsaga" hefði ekki gert það líka. Þar að auki hefði Frank alveg mátt leika sér með það eins og hann gerði með lagið "Þú og ég". En að þeirra mati var lagið of ungt og spyr ég þá á móti, er "Þú og ég" ekki of gamalt?

En maður er víst leikari eftir allt saman en ekki tónlistarráðgjafi og því verður maður bara að sætta sig við þetta. Þetta er samt synd því að mér fannst lagið alltaf henta karakterunum Stebba og Dagnýju vel.

Þorvaldur hefur kannski nokkuð til síns máls og hefði verið fróðlegt að sjá útkomuna ef lagið hefði verið notað. Annars eru víst allir Íslendingar búnir að sjá myndina nema hjónin í Kirkjubóli í Vaðlavík en Dagfarinn hvetur þau til að skella sér í bæinn við fyrsta tækifæri og sjá myndina!


Óskarinn dagfaraður

Eftir að Dagfarinn lofaðist hefur skapast hefð hjá honum undanfarin 2 ár að horfa á Óskarsverðlaunin á stöð 2. Það sem honum hefur þó fundist miður er að vera ekki búinn að sjá allar myndirnar sem tilnefndar eru fyrir bestu mynd. Hann var ansi nálægt því í fyrra en þá hafði hann séð níu af þeim tíu sem voru tilnefndar. Það hefði kannski ekki skipt máli ef þessi eina mynd hefði ekki verið sigurmyndin, The King's Speech. Þessi mistök ákvað hann að gera ei aftur og sunnudaginn 19. febrúar síðastliðinn náði hann settum áfanga og sá allar þær 9 myndir sem tilnefndar eru í ár.

Dagfarinn ætlar að gerast svo góður og taka stutta yfirferð yfir þessar myndir og hita ykkur því upp fyrir sunnudaginn en þá fer einmitt Óskarinn fram.

The-Artist-PosterThe Artist

Það þykir undarlegt að á tímum 3D tækninnar komi út svarthvít mynd án hljóðs. Þrátt fyrir það hefur myndin sópað að sér verðlaunum og verið lofuð hástert. Skal engan undra enda um frábæra mynd að ræða. Stjarna þöglu myndanna, George Valentine er á síðasta söludegi á meðan Peppy Miller er stjarna framtíðarinnar. Myndin segir frá sambandi þeirra og afdrifum í heimi kvikmyndanna. Þó að myndin sé þögul og ekki í lit leikur hún sér að sjálfri sér og sker sig þannig frá hinum gömlu myndunum sem höfðu ekki núverandi tækni til taks. Frábær mynd og að mati Dagfarans besta mynd síðasta árs. Lítið hlutverk Malcolm McDowell gerði svo mikla lukku hjá Dagfaranum.

Tilnefningar á Óskarnum: 10 | Aðalhlutverk: Jean Dujardin, Bérénice Bejo, John Goodman. | Líkur á sigri: Góðar en það að hún sé frönsk gæti orðið henni að falli.

DescendantsThe Descendants

Hjartaknúsari hjartaknúsaranna George Glooney hefur sjaldan verið betri en hér enda maðurinn tilnefndur sem besti leikari í aðalhlutverki. Matt King er tveggja barna faðir og er búsettur á Hawaii. Konan hans liggur í dái eftir óheppilegt bátaslys. Á meðan dáinu stendur kemst King að því að stórslösuð kona hans var honum ekki trú. King telur réttast að hafa uppi á hjásvæfunni til að láta hana vita af ástandi konunnar. Úr því verður absúrd eltingaleikur með allri fjölskyldunni. Á milli þess stendur King fyrir þeirri ákvörðun hvort selja eigi landflæmi sem er í eigu fjölskyldu hans en ástand konunnar og framhjáhald hennar hafa mikið um það að segja. The Descendants kemur manni virkilega á óvart og er leikur Glooneys og Shailene Woodley til fyrirmyndar.

Tilnefningar á Óskarnum: 5 | Aðalhlutverk: George Glooney, Shailene Woodley, Amara Miller. | Líkur á sigri: Vinnur kannski ekki verðlaun f. bestu mynd en ætti að taka eina tvær styttur heim.

ExtremExtremely Loud & Incredibly Close

Að mínu mati sísta myndin sem tilnefnd er. Myndin segir frá Oskar Schell sem missir föður sinn í 9/11 árásunum. Feðgarnir voru afar nánir svo Oskar tekur missirinn afar mikið inná sig. Eftir rúmt ár fer hann inní herbergi föður síns að gramsa. Hann brýtur í kjölfarið fallegan vasa sem hefur að geyma lítið umslag með lykli í. Oskar er ákveðinn í því að finna lásinn sem lykillinn gengur að og telur að það geti fært hann nær föður sínum. Myndin er kannski full dramatísk að mínu mati en hvernig er annað hægt þegar 9/11 á í hlut? Það kom ekki fram í myndinni en ég tók Oskari alltaf sem einhverfum dreng. Hann er gríðarlega klár miðað við níu ára barn og hefur mikla þráhyggju. Auk þess er hann lítið fyrir hávaða, lyftur og samgöngur. Thomas Horn sem leikur Oskar stendur sig engu að síður vel og fær góða hjálp frá Tom Hanks og Söndru Bullock.

Tilnefningar á Óskarnum: 2 | Aðalhluverk: Thomas Horn, Tom Hanks, Sandra Bullock, Max von Sydow. | Líkur á sigri: Afar litlar að mínu mati en þar sem hún fjallar um 9/11 að hluta til gæti hún vakið samúð hjá dómnefnd.

The-Help-poster1The Help

Sjaldan hefur ein mynd kveikt upp jafn margar tilfinningar hjá mér og Húshjálpin. Skeeter Phelan (Emma Stone) er efnilegur penni sem er ekki sátt við hvernig hvítu hefðarfrúrnar koma fram við ráðskonur sínar sem eru dökkar að lit. Hún nýtir sér stöðu sína sem rithöfundur og fær þær Aibileen og Minny til að segja sínar sögur. Skeeter verður þó að fara varlega enda ekki vel séð í hennar samfélagi að eiga í slagtogi við svarta.

Myndin er virkilega vel leikin og mikið af sterkum karakterum. Ég var pínu efins með Emmu Stone í byrjun myndarinnar en hún var ekki lengi að sannfæra mig. Bryce Dallas Howard er virkilega góð sem herfan Hilly Holbrook en hún er greinilega fædd í að leika leiðinlegu týpuna enda fer hún gjarnan í taugarnar á mér á hvíta tjaldinu. Viola Davis og Octavia Spencer eiga svo sannarlega skilið sínar tilnefningar á Óskarnum enda vinna þær leiksigur. Jessica Chastain er svo einnig tilnefnd enda var hún frábær sem hin misheppnaða og misskilda Celia Foote sem minnti mann stundum á Ásdísi Rán á góðum degi.

Tilnefningar á Óskarnum: 4 | Aðalhlutverk: Emma Stone, Viola Davis, Octavia Spencer. | Líkur á sigri: Sigurstranglegasta myndin að mínu mati. Ef Meryl Streep væri ekki tilnefnd einnig sem besta leikkona í aðalhlutverki væri Viola Davis búin að tryggja sér styttuna.


hugo-poster_400x592Hugo

Hugo eftir Martin Scorsese kom mér eiginlega mest á óvart af myndunum sem tilnefndar eru. Að vísu fór ég ekki á hana í 3D eins og Scorsese vildi en engu að síður var upplifunin góð. Ekki ósvipað og í Extremely Loud & Incredible Close missir Hugo föður sinn ungur rétt eins og Oskar. Faðir Hugo skildi eftir sig undarlegt "vélmenni" sem gengur ekki ósvipað og klukka sem Hugo er einmitt snillingur í en hann sinnir öllum klukkum á lestarstöð einni í Frakklandi. Það vantar hins vegar örlítið upp á og nái Hugo að laga þetta undarlega vélmenni er hann viss um að það eigi eftir að koma til hans einhverjum skilaboðum sem eigi að færa hann til betri vegar. Tilgangur þessa vélmennis kom mér skemmtilega á óvart annað en lykillinn í EL&IC gerði og í raun hófst annað ævintýri inní Hugo ævintýrinu sem var afar skemmtilegt. Sacha Baron Cohen fær svo sérstakt hrós enda var hann virkilega góður sem lestarstöðvarvörðurinn. 

Tilnefningar á Óskarnum: 11 | Aðalhlutverk: Asa Butterfield, Chloë Grace Moretz, Ben Kingsley, Sacha Baron Cohen. | Líkur á sigri: Ég efast um að Hugo taki verðlaun fyrir bestu mynd en þætti þó ekki skrítið skyldi það gerast. Tekur eflaust með sér nokkrar styttur heim enda með langflestar tilnefningar.


midnight-in-paris-posterMidnight in Paris

Woody Allen sannar hér enn og aftur að hann er snillingur þegar kemur að handriti og leikstjórn. Hér er hann mættur með eina af sínum betri myndum í nokkur ár og það með Owen Wilson innanborðs! Skrítið leikaraval hugsaði ég en Owen Wilson átti ekki í vandræðum með rithöfundinn Gil og fortíðardrauma hans. Á hverri nóttu í fríi sínu í París hvarf Gil aftur í tímann má segja og hitti hann merkilegt fólk eins og Fitzgerald hjónin, Ernest Hemingway og Picasso svo eitthvað sé nefnt. Það var svo miklu meira varið í þennan draumaheim heldur en raunveruleikann hjá Gil þar sem eiginkona hans taldi sig vita hvað væri honum fyrir bestu og bla bla. Maður gleymdi sér alveg í þessum heimi með Gil í Bíó Paradís og það er einmitt snilldin við myndina, hún tekur þig með í ferðalag aftur í tímann. Óvænt rigning þegar komið var út á Hverfisgötuna gerði svo algjörlega útslagið. Þið sem hafið séð myndina vitið hvað ég meina.

Tilnefningar á Óskarnum: 4 | Aðalhlutverk: Owen Wilson, Rachel McAdams, Michael Sheen, Kathy Bates. | Líkur á sigri: Ekki þessi týpíska Óskarsmynd að mínu mati. Gæti samt alveg unnið eins og hver önnur og væri vel að titlinum komin.


moneyballMoneyball

Eina myndin sem ég þurfti að ná í ólöglega enda var hún ekki lengi í sýningu og hvergi sjáanleg á Laugarásvideo. En hvað um það. Brad Pitt er hér í fantaformi en hann er víst farinn að velja hlutverk sín út frá gæðum sem er snilld. Moneyball er sannsöguleg en hún segir frá þjálfaranum Billy Beane sem þjálfar hafnarboltaliðið Oakland Athletics. Hann fer óhefðbundnar leiðir miðað við önnur lið og þarf að redda sér ódýrum en samt góðum leikmönnum. Þetta gerir hann með hjálp hafnarbolta nördsins Peter Brand (Jonah Hill). Eins og gefur að skilja gera þeir alla í kringum sig gráhærða en þessi aðferð Beanes virðist hafa breytt hugsunarhætti manna í íþróttinni til frambúðar. Það er best að segja ekki meira enda líklega ekki margir Íslendingar sem hafa séð myndina. Njótið vel segi ég bara og það skiptir engu máli þó þið botnið ekkert í íþróttinni, þessi saga af Billy Beane er mögnuð.

Tilnefningar á Óskarnum: 6 | Aðalhlutverk: Brad Pitt, Jonah Hill, Philip Seymour Hoffman. | Líkur á sigri: Ég veit ekki hvar Moneyball stendur en hún ætti að eiga ágætis möguleika og Brad Pitt ætti að gefa Jean Dujardin og George Glooney góða samkeppni um besta leikarann í aðalhlutverki.

the-tree-of-life-movie-poster-02The Tree of Life

Ég varð eiginlega fyrir pínu vonbrigðum með þessa. The Tree of Life minnir meira á ljóð heldur en kvikmynd. Mér leið pínu eins og að vera að horfa á ljóð í mynd. Kvikmyndatakan er einnig óhefðbundin og truflandi á köflum. Maður var eitthvern alltaf að bíða eftir einhverju svakalegu en svo gerðist afar lítið. Sean Penn var óvenju lítið í mynd en hann gegndi öðru og minna hlutverki en ég hafði gert mér vonir um. Myndin segir frá fjölskyldu í Texas. O'Brien hjónin eiga þrjá stráka en þau nota mismunandi leiðir í uppeldinu á þeim. Móðirin er blíð og umhyggjusöm eins og mæður eru nú flestar en faðirinn er strangur og á það til að missa tök á skapi sínu. Honum vegnar ekki nógu vel í starfi og er í raun að gera allt annað en hann langar til sem gæti útskýrt gremju hans. Synirnir taka uppeldinu misvel og þá aðallega elsti bróðirinn sem kemst í "slæman" félagsskap og gerir hluti sem foreldrar hans yrðu æfir útaf. Eins og ég segi afar ljóðræn mynd hér á ferðinni sem ég átti erfitt með að ná tengingu við. En áferðafalleg og nokkrir góðir kaflar gera hana allavega að mynd sem hægt er að horfa á.

Tilnefningar á Óskarnum: 3 | Aðalhlutverk: Brad Pitt, Jessica Chastain, Sean Penn. | Líkur á sigri: Afar litlar að mínu mati og yrði ég frekar ósáttur ef hún fengi styttuna eftirsóttu.


war-horse-art_510War Horse

Spielberg er greinilega annt um yngri áhorfendur en ásamt War Horse skilaði hann af sér Tinna á síðasta ári. War Horse sýnir samband á milli hests og drengs sem temur hann og sinnir honum af ást og alúð. Sökum fátæktar selur faðir drengsins hestinn til hersins og skilja þá leiðir þeirra í bili. Það er gaman að fylgjast með afdrifum hestsins í stríðinu en þegar kemur að stríði eru fáir betri en Spielberg. Hesturinn Joey kemur víða við og fer manni að þykja vænt um margar persónurnar sem vilja hestinum vel. Eitt besta atriðið í myndinni er þegar tveir hermenn frá sitthvorum þjóðunum hjálpast að við að losa Joey úr gaddavírsflækju og gleyma í smástund að þeir eiga í stríði við hvorn annan. Í því atriði birtist einmitt hálfíslenskur drengur úr Benjamín Dúfu genginu í hlutverki þýsks dáta. Sum sé hjartnæm mynd sem maður verður aldrei of gamall fyrir.

Tilnefningar á Óskarnum: 6 | Aðalhlutverk: Jeremy Irvine, Emily Watson, Peter Mullen, Tom Hiddleton. | Líkur á sigri: Fremur litlar myndi ég halda enda kannski heldur barnaleg að mati sumra.

Þá hefur Dagfarinn lokið við það að fara yfir myndirnar níu sem tilnefndar eru fyrir bestu mynd. Vonandi hafið þið haft gagn og gaman af þessari yfirferð og hvet ég alla til að kíkja í bíó á þessar myndir eða útá leigu. Í lokin vil ég lýsa yfir ánægju minni að leikkonan Melissa McCarthy hafi fengið tilnefningu sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir hlutverk sitt í Bridesmaids en hún fór hreinlega á kostum þar. Annars óska ég ykkur bara gleðilegs Óskars og farsælt komandi kvikmyndaár.

Megan-bridesmaids-21959358-648-452
Dagfarinn lætur líklega fara jafnvel um sig yfir Óskarnum eins
Megan gerði í þessari flugferð.

Jim Carrey að syngja sitt síðasta?

Eftir akkúrat mánuð verður kvikmyndin Mr. Popper's Penguins með Jim Carrey í aðalhlutverki frumsýnd. Sem Jim Carrey aðdáandi verð ég að lýsa yfir áhyggjum mínum yfir þessari mynd. Myndin er gerð upp úr samnefndri barnabók eftir hjónakornin Richard og Florence Atwater sem kom út árið 1938. Söguþráðurinn er á þá leið að fátækur málari (Mr. Popper) kemst allt í einu yfir mörgæs og fær svo aðra frá dýragarði og eðla þær sig sem skilar sér í 10 mörgæsarungum. Að sjálfsögðu hafa mörgæsirnar áhrif á heimilislífið og eitthvað verður að taka til bragðs svo ekki fari illa. Bókin hefur oft verið notuð í kennslu hjá 2, 3 og 4 bekk í grunnskólum í Bandaríkjunum. Kápan á bókinni

Söguþráðurinn er örlítið breyttur í kvikmyndinni en þar er Mr. Popper ekki málari heldur mikill viðskiptamaður sem er algjörlega týndur þegar kemur að mikilvægu hlutunum í lífinu alveg þangað til að hann erfir 6 mörgæsir. Mörgæsirnar umbreyta íbúðinni hans og lífi hans um leið.

Upphaflega átti Ben Stiller að leika Mr. Popper og Noah Baumbach átti að leikstýra en þeir hættu báðir við. Eitthvern veginn sé ég Ben Stiller betur fyrir mér í myndinni heldur en Jim Carrey enda hokinn af reynslu í svona rugl myndum eins og Night at the Museum tvennunni. Í kjölfarið voru Jack Black, Owen Wilson og svo Jim Carrey orðaðir við hlutverkið. Ég vildi óska þess að Jack Black hefði verið fyrir valinu enda þótti seinasta mynd hans Gulliver's Travels einstaklega góð. Mark Waters var svo fenginn til að leikstýra myndinni en hann sá til þess að Lindsay Lohan varð stjórstjarna með myndunum Freaky Friday og Mean Girls.

Ekki veit ég hvað Jim Carrey er að láta hafa sig útí en mér fannst ferill hans vera að komast á gott skrið aftur með Yes Man og I Love You Phillip Morris. Að vísu hefur hann aldrei gleymt börnunum og fært þeim gleði í formi jólamynda og teiknimynda. Svo ég tali ekki um ódauðlega karaktera eins og Ace Ventura og Stanley Ipkiss.

En þrátt fyrir allt og allt mun ég samt klárlega fara á myndina og tek líklegast litla bróður með en það er alveg á hreinu að ég fer ekki með neinar væntingar í bíósalinn!


Good Guys Gone Bad!

Nú fyrir stuttu síðan var það tilkynnt að leikarinn Joseph Gordon-Levitt hefði fengið kallið frá Christopher Nolan fyrir þriðju Batman-myndina, The Dark Night Rises sem er væntanleg í kvikmyndahús á sumartímanum á næsta ári. Þó er ekki búið að opinbera hvaða persónu Joseph kemur til með að leika en flestir reikna með því að hann leiki Alberto Falcone son mafíósans Carmine Falcone sem kom einmitt fyrir í Batman Begins og var leikinn af Tom Wilkinson.

Val Nolans ætti ekki að koma á óvart en Gordon-Levitt lék einmitt stórt hlutverk í síðustu mynd leikstjórans, Inception, sem var að margra mati besta mynd síðasta árs. Í myndinni breytti Joseph ímynd sinni rækilega og varð skyndilega að manni. Að vísu stóð hann sig líka vel í hinni rómantísku 500 Days of Summer en hann þurfti að sanna sig í spennumynd sem hann gerði svo sannarlega í Inception.

Það sem stóð upp úr að mati flestra í síðustu Batman-mynd, The Dark Night, var frammistaða Heath Ledgers heitins í hlutverki Jókersins. Ég held að það sé ekki til sá kvikmyndaunnandi sem var ekki brugðið við að heyra að Heath Ledger ætti að leika hinn útsmogna Jóker. Ég var t.d. einn af þeim, ég hafði ekki trú á því að þessi saklausi drengur frá Ástralíu gæti gert það gott í slíku hlutverki. En mér skjátlaðist og það illa því að Heath Ledger stóð sig það vel að hann lét Jack Nicholson líta illa út í samanburði og hreppti þar að auki Óskarinn fyrir leik sinn. Að vísu lét hann lífið áður en myndin var frumsýnd og jafnvel hafði hlutverkið einhver áhrif á dauða hans en hann gerði sig ógleymanlegan með frammistöðu sinni í myndinni.

Þess vegna ætla ég ekki að hafa neinar áhyggjur af því að Nolan hafi ákveðið að fá Gordon-Levitt til liðs við sig fyrir næstu mynd. Gordon-Levitt á eftir að standa sig vel, á því liggur enginn vafi en við skulum vona til Guðs að hann hljóti ekki sömu örlög og Heath Ledger.

Það sem er samt svo fyndið við þetta allt saman er það að báðir léku þessir öðlingar í gamanmyndinni 10 Things I Hate About You sem kom út árið 1999 en þá var Joseph 18 ára og Heath Ledger var tvítugur. Ef einhver hefði sagt mér þá að þessir tveir gæjar ættu eftir að leika helstu óþokkana í bestu Batman-myndum allra tíma eftir 10 ár hefði ég fussað og sveijað yfir því næstu daga. Ég hefði þó frekar trúað því að Heath Ledger myndi takast það enda var hann pínu skuggalegur og erfitt að reikna hann út. En Joseph Gordon-Levitt var algjört lamb í myndinni og ég man að mér fannst hann hálf glataður sem hinn seinheppni Cameron James.

En nú er fyrrum barnastjarnan orðin að þrítugum manni og myndi ég segja að hann eigi glæsta framtíð fyrir höndum haldi hann rétt á spöðunum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig honum tekst upp í The Dark Night Rises og ég vona svo sannarlega að hann haldi geðheilsunni og lífi sínu annað starfsbróðir hans!

heath_levitt.jpg 
Fyrir utan það finnst mér þeir vera nauðalíkir og það skyldi þó aldrei vera að Joseph tæki bara við hlutverki Ledgers sem Jókerinn...


127 Hours (2010)

*****/***** 

Ég skellti mér á myndina 127 Hours um helgina en ég hafði beðið hennar með mikilli eftirvæntingu. Að vísu fór raunverulegi atburðurinn sem átti sér stað 2003 algjörlega framhjá mér í fjölmiðlum enda líklega að pæla í allt öðrum hlutum á þeim tíma.

Leikstjóri myndarinnar er meistari Danny Boyle en hann hefur meðal annars leikstýrt myndum a borð við Trainspotting, 28 Days Later og Slumdog Millionaire sem fór sigurför um heiminn fyrir ekki svo löngu síðan. James Franco fer svo með aðalhlutverkið en hann hefur verið að koma sterkur inn síðustu ár með myndum eins og Pineapple Express, Milk og auðvitað Spider-Man þríleiknum.

Aron Ralston (James Franco) er nettur adrenalín fíkill sem unir sér best í náttúrunni og að þessu sinni er hann staddur í Utah þar sem hann stundar að príla í gljúfrum í öllum stærðum og gerðum. Allt gengur vel og kynnist hann meira að segja tveimur skvísum sem hann platar í smá vatnsleik í einni klettasprungunni. Hann heldur svo sína leið sem á eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar á líf hans til frambúðar og hér mæli ég með að fólk stoppi ef það er ekki búið að sjá myndina.

Aron er í eigin heimi þegar hann dettur um lausan grjóthnullung ofan í stóra sprungu með þeim afleiðingum að hann festist þar sem grjótið lendir beint á hægri handlegg hans. Hann reynir hvað hann getur til að losa sig en steinninn haggast ekki þrátt fyrir nokkrar ágætis tilraunir. Eins og titillinn gefur til kynna þá dúsir hann niðri í sprungunni í 127 klst. eða í rúmlega 5 daga. Hjálpin hefði kannski komið hefði hann látið eitthvern nákominn vita af ferðum sínum en hann klikkaði á því.

Ég get vel skilið að fólk kannski heillist ekki beint að hugmyndinni, að horfa á mann fastan í einhverri sprungu í einn og hálfan tíma. En það er vel þess virði enda er Danny Boyle klárlega rétti maðurinn í að matreiða svona mynd og koma henni vel til skila. Áhorfandinn dettur inn í þankaganga Arons og það að hann skildi gleyma rauða Gatorade drykknum í fjandans bílnum er eitt og sér frábært atriði. Þar að auki var hann með upptökuvél á sér sem hann tjáði sig í á mismunandi hátt í gegnum myndina. Maður fékk því nett að upplifa þessa ömurlegu stöðu sem hann var staddur í. Atriðin þegar hann er að drekka vatnið sitt (í hófi) gerðu mig líka virkilega þyrstann fyrir hlé, svo ég mæli með að þið farið ekki þyrst á myndina!

Að lokum fer það svo að hann ákveður að brjóta á sér hendina og skera hana af með vasahníf enda var það eina ráðið ef hann vildi halda lífi. Það var erfitt að sitja í salnum og hlusta á alla þá braki og bresti í beinunum á meðan hann var að losa sig við handlegginn en þá kom Sigur Rós til bjargar. Lagið "Festival" fær nefnilega að hljóma þegar Aron er búinn að frelsa sig og reynir að koma sér til læknishjálpar sem tekst að lokum. Lokasenan er gríðarlega falleg og "Festival" smellpassar inní atriðið enda var ég við það að breytast í gæs í sætinu mínu!

Mér finnst myndin vera góð ábending fyrir áhorfandann að náttúran hefur ennþá yfirhöndina og þó svo að við séum búin að eyðileggja marga hluta hennar og byggja upp stórhýsi og hvað eina að þá erum við ennþá svo lítil í samanburði við t.d. jarðskjálfta, flóð, fellibyli og í þessu tilviki grjóthnullung í Blue Canyon í Utah! Þar að auki eins og gagnrýnandi Frétta- eða Morgunblaðsins benti svo skemmtilega á að þá þarf Aron Ralston að taka ákvörðun sem mun hafa áhrif á líf hans til frambúðar. En einmitt stöndum við flest frammi fyrir því að þurfa að taka afdrifaríkar ákvarðanir á lífsleiðinni til að betrum bæta líf okkar á einn eða annan hátt. Það er erfitt að rífa sig upp af rassgatinu og gera eitthvað í málinu en það mun heldur betur borga sig á endanum.

Það er gaman að segja frá því að hinn raunverulegi Aron Ralston er á lífi í dag (35 ára) og á hann konu og eitt barn. Þrátt fyrir þessa hræðilegu lífsreynslu þá er hann hvergi banginn og heldur áfram að klífa fjöll og gljúfur.

Aron Ralston & James Franco
Meistararnir tveir, Aron Ralston og James Franco.


Dagfarinn í Hollywood

Ég nýtti síðustu jól mjög vel að mínu mati og eitt af því sem ég nýtti tímann í var að horfa á allar Narníu myndirnar. Þessar myndir hafa aldrei vakið upp neinn sérstakan áhuga hjá mér en það breyttist þegar ég las grein í Mogganum um Narníu bækurnar sem eru eftir C.S. nokkurn Lewis. Þar var verið að tala um ljónið Aslan og því haldið fram að þarna væri Lewis með sjálfan Guð almáttugan í ljóns líki. Eftir lestur þessarar greinar vildi ég ólmur kíkja á þessar myndir og ekki skemmdi fyrir jólabragurinn sem var yfir þeim, allavega þeirri fyrstu.

Myndirnar voru hin ágætasta skemmtun og gaman að horfa á þær með því sjónarmiði að taka eftir kristilegum töktum Aslans. Það fór ekki á milli mála hver Aslan ætti að vera og nú er ég eiginlega farinn að sjá fyrir mér Guð sem tilkomumikið ljón fullt af visku og fróðleik sem göfgar manninn. Liam Neeson á svo stórann þátt í að gera Aslan að þeim drottnara sem hann er. En nóg um Aslan.

Það sem vakti mikla kátínu hjá mér átti sér stað í þriðju myndinni. Þá sogast systkinin Lucy og Edmund ásamt frænda sínum Eustace inní málverk eitt og eftir nokkra stund eru þau stödd úti á Narníu sjó í sparifötunum. Þau þurfa þó ekki að örvænta þar sem að prins Caspian er skammt undan með hermönnum sínum á skipi sínu, Dagfaranum

Dawn Treader (Dagfarinn)
Dagfarinn á siglingu.
Já þið heyrðuð rétt, Caspian og hans fylgismenn voru á skipinu Dagfara eða Dawn Treader á frummálinu (reyndar hefði ég ekki þurft að gera meira en að líta á titil myndarinnar sem er The Voyage of the Dawn Treader). Myndin gat í raun ekki klikkað eftir þetta og ég lifði mig mjög mikið inní hlutverk skipsins.

Ég er gríðarlega ánægður með þessa skemmtilegu tilviljun og ég tel að þetta eigi eftir að gera síðunni gott í framtíðinni. Nú hefur bæst við enn ein hugsanleg meiningin fyrir titli síðunnar og er það af hinu góða. Hinsvegar ætla ég nú að taka seglin niður og hvet ég lesendur Dagfarans eindregið til þess að sjá Narníu myndirnar ef þeir sakna Múfasa ennþá.                 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband