Ljósmyndin

Það vakti mikla athygli í fyrra þegar Breiðablik varð í fyrsta sinn Íslandsmeistari í knattspyrnu í meistaraflokki karla. Úrslitin réðust ekki fyrr en í síðustu umferð og því var mikil spenna víðsvegar um landið. Síðasti leikur Blika var gegn Stjörnunni á útivelli og var vel mætt á völlinn og var ég á meðal áhorfenda.

Það er ekki frásögu færandi nema það að efnt var til átaks. Menn voru hvattir til að mæta í fjólublárri v-hálsmáls peysu sem Ólafur Kristjánsson þjálfari Blika var búinn að klæðast í nánast hverjum einasta leik á tímabilinu. Peysan var því orðin að hálfgerðu kennileyti þjálfarans enda gekk liðinu hans vel þegar hann skartaði henni á hliðarlínunni.

Ég hafði keypt nákvæmlega eins peysu í Dressmann fyrir nokkrum árum og þar sem ég átti ekki treyju með merkjum Breiðabliks ákvað ég að fara í henni á leikinn. En ég ákvað að ganga lengra með þetta. Á meðan flestir létu peysuna duga þá fannst mér það ekki nógu tilkomumikið. Eins og alþjóð veit að þá er ég rauðhærður en ekki sköllóttur eins og Ólafur. Ég fékk því lánaðan skalla hjá frænda mínum sem var með smá hári á. Þar að auki gróf ég upp gömul gleraugu sem ég notaði í leikritinu Með fullri reisn í MK en þar lék ég einmitt homma sælla minninga.

Útlitið vakti vægast sagt athygli á leiknum og mér leið eins og poppstjörnu á tímapunkti. Ég var á býsna góðum stað í stæði og var alveg fremst við auglýsingaskiltin enda mættur tímanlega á völlinn. Leikurinn var flautaður á og allt lék í lyndi þrátt fyrir frekar skítt veður. Elskuleg móðir mín hafði tekið með sér skærgult ponsjú sem ég klæddi mig í til að halda mér þurrum. Stuttu eftir það ýtti Þorsteinn félagi minn við mér og benti mér á að ljósmyndari á hliðarlínunni væri að reyna að ná mynd af mér. Ég setti mig að í sjálfsögðu í stellingar enda ánægður með uppátæki ljósmyndarans.

Lífið hélt áfram og fór það svo að leikurinn endaði 0-0 sem dugði Blikunum til sigurs í deildinni þar sem að ÍBV missteig sig gegn Keflavík. Trylltur dans var stiginn um kvöldið og Kópavogsbær var grænn næstu daga. Það var svo á mánudaginn að ég komst að því að ljósmyndarinn var að mynda fyrir mbl.is og svo skemmtilega vildi til að myndin var birt á vefnum.

Ljósmyndin
Ljósmyndin fræga Ég í múnderingunni ásamt móður minni, litla bróður og Þorsteini. 

Eins og sjá má á myndinni að ofan að þá myndu fæstir telja að hér væri ég að reyna að líkjast Ólafi Kristjánssyni en því miður gerði ég mér ekki grein fyrir því fyrr en löngu eftir leik. Öllu meira vit væri í því að segja að ég liti út eins og Andy í Little Britain enda fannst það mörgum sem sáu mig og myndina. Ég ætla því að sýna ykkur samanburð á Óla og Andy og leyfa ykkur lesendum góðum að dæma fyrir ykkur sjálf.

Andy Kri
Andy (fyrir miðju) x Óli Kri = Andy Kri

Það er deginum ljósara að ef Óli Kri myndi bæta aðeins á sig, láta hárið sem er eftir vaxa, skipta um gleraugu og brosa aðeins að þá væri hann nánast sami maður og Andy. Ég er þó ekki að hvetja hann til þess bara að benda á að möguleikinn er fyrir hendi.

Ég segi allavega fyrir mitt leyti að mér finnst ég ná Andy talsvert betur en Óla og kannski spurning um að ljósmyndari Morgunblaðsins hafi haldið svo, að sjálfur Andy væri mættur á völlinn með barninu sínu sem getið var í hjólastól. Ég áfellist hann allavega ekki.

En uppátækið nýttist mér ef svo má segja á hrekkjarvökunni í fyrra en þá notaði ég sömu hugmynd og mætti sem Andy í hrekkjarvökupartý sem margir þjóðfræðinemar muna kannski glöggt eftir. Þar átti fólk ekki í vandræðum með að vita hvern ég væri að reyna að stæla og var ég ófáum sinnum beðinn um að koma með einhverja línu frá Andy. Þar var t.d. önnur skemmtileg ljósmynd tekin og leyfi ég henni að sjálfsögðu að fylgja með.

Andy (2)
Hrekkjarvöku Andy Fullkomnun hefði ég reddað hjólastól.

En dagurinn sem Breiðablik varð Íslandsmeistari verður mér lengi í minnum hafður bæði fyrir afrek Blikanna, ljósmyndina og svo má ekki gleyma treyjunni sem Elfar Freyr gaf mér eftir leik sem hengur óþvegin uppá skáp heima. Spurning hvort að ég mæti ekki bara í þessari múnderingu á hvern einasta leik með Blikum á næstu leiktíð?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst að þú ættir að prófa að mæta sem Andy á leiki í sumar og sjá hvernig það skilar sér fyrir liðið og ef það gengur vel, afhverju þá að hætta því :)

Ingvi (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 18:31

2 identicon

Undirtitill myndar: Pedo-Torfi fékk dagleyfi frá Litla-Hrauni til að fylgjast með sínum mönnum krækja í titilinn, hann var fljótur að finna sér góðan félagsskap á meðan leiknum stóð.

Elís (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband