Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Topp 5: Nostalgíulög á PoppTíví

Það eru líklega fleiri en ég sem áttu notalegar stundir með sjónvarpstöðinni PoppTíví fyrir nokkrum árum sem bauð uppá það allra ferskasta í tónlistinni á sínum tíma. Ég átti mínar bestu stundir með stöðinni á árunum 1999-2003 en þá var ég oftast einn heima eftir skóla og hafði lítið annað að gera en að glápa á PoppTíví.

Á þessum tíma uppgvötvaði ég marga listamenn, bæði góða og slæma, þó að mér finnist þeir góðu ekki endilega eins góðir í dag. Þrátt fyrir það fæ ég alltaf þessa nostalgíutilfinningu þegar ég heyri lögin aftur og minnist þeirra gömlu góðu daga sem ég átti í sjónvarpsherberginu heima.

Nú ætla ég að gera heiðarlega tilraun til að velja fimm "bestu" lögin sem toppuðu algjörlega hjá mér á þessum tíma. Það skiptir miklu máli að vera samkvæmur sjálfum sér í svona vali og hugsanlega mun ég ganga um með sært stoltið í kjölfarið. Hér kemur listinn.

5. The Lawyer - I Wanna Mmm

Ég veit í rauninni ekki hvað ég get sagt um þetta lag. Lítið er að finna um flytjandann á netinu nema það að hann kemur frá Bretlandi og skartar litlu hári. Ekki veit ég hvað heillaði mig svo mikið lagið en það var kannski frekar myndbandið og fíflalætin í þessum fábjána sem styttu mér stundirnar í sófanum heima. Mörgum finnst að lögfræðingurinn ætti að fara í mál við sjálfan sig fyrir þetta lag.

4. Pearl Jam - I Am Mine  

Þetta lag sá til þess að tónlistarsmekkur minn varð ekki að froðu vil ég meina. Afslappaður söngurinn og hið grípandi gítargrip fönguðu mig strax við fyrstu hlustun. Ég hafði aldrei heyrt um hljómsveitina fyrr en ég heyrði þetta lag og var diskurinn að sjálfsögðu keyptur en því miður fyrir hin lögin var þetta eina lagið sem var spilað. Ég verð Eddie Vedder og félögum ævinlega þakklátur fyrir framlag sitt á þessum mikilvægu árum barnæsku minnar.

3. Britney Spears - Oops!... I Did It Again

Það kann að hljóma undarlega (samt ekki) en ég var eitt sinn ástfanginn af söngkonunni Britney Spears. Hún snéri mér svo alveg í hringi þegar hún birtist í rauða latex gallanum í myndbandinu hér að ofan og er það ein af þessum minningum sem aldrei gleymist. Ég fór meira að segja svo langt með þetta að ég kunni dansinn við lagið og tók oft sporin með skólasystrum mínum í bekkjarafmælum. Á endanum þroskaðist maður svo upp úr þessu og þá fóru strákarnir loksins að láta heyra í sér aftur.

2. Eagle-Eye Cherry - Are You Still Having Fun?

Þó að popparinn frá Svíþjóð sé frægastur fyrir lagið "Save Tonight" þá var það þetta lag sem sló í gegn hjá mér á sínum tíma. Því miður fann ég ekki myndbandið við lagið en þar var Cherry í góðum gír á djamminu með gítarinn að vopni talandi við einhverjar skvísur. Það var sko partý í stofunni þegar að þetta lag dúkkaði upp á PoppTíví og já ég skemmti mér alltaf vel yfir þessu lagi elsku Cherry minn, takk fyrir að spyrja!

1. Eiffel 65 - Blue (Da Ba Dee)

Jú það er bláköld staðreynd en í efsta sætinu situr þríeykið frá Ítalíu, Eiffel 65 með sitt ódauðlega lag "Blue (Da Ba Dee)". Ég var líklega jafn hugfanginn og James Cameron af laginu en leikstjórinn geðþekki fékk mikinn innblástur af myndbandinu sem sást svo síðar meir í stórmyndinni Avatar. Alltaf var biðin eftir því að lagið poppaði upp á PoppTíví þess virði og hoppaði ég bókstaflega um af gleði þó að rassinn á mér væri álíka dofinn og vel deyft tannhold á tannlæknastofu. Þrátt fyrir að lagið sé komið langt fram yfir síðasta söludag er enn hægt að dilla sér við það daginn í dag og hafa gaman af því. Það myndi ég segja er ansi vel af sér vikið hjá liðsmönnum Eiffel 65.

Þessi lög komu einnig til greina:

Audioslave - Like a Stone
Bloodhound Gang - The Bad Touch
Bomfunk MC's - Freestyler
Britney Spears - (You Drive Me) Crazy
Crazy Town - Butterfly
Foo Fighters - Learn to Fly
Limp Bizkit - Take a Look Around
Metallica - I Disappear
Offspring - Pretty Fly (For a White Guy)
Puddle of Mudd - She Hates Me
Puff Daddy - Come with Me (ft. Jimmy Page)
Rammstein - Links 2 3 4
Rammstein - Sonne
Red Hot Chili Peppers - Californication
U2 - Stuck in a Moment You Can't Get Out Of
Vengaboys - Boom, Boom, Boom, Boom!!
Wamdue Project - King of My Castle
Wu-Tang Clan - Gravel Pit


Busalufsa

Busavígslur menntskælinga fóru fram í vikunni sem er að líða og þar á meðal gekk bróðir minn í gegnum eina slíka í Flensborg. Af því tilefni hef ég ákveðið að rifja upp mína busavígslu sem fór fram árið 2005 við Menntaskólann í Kópavogi og víðar.

Busavígslan í MK er af tvennum toga. Það er hefðbundna busavígslan sem er á vegum skólans og til að halda fólki á tánum eru nokkrir eldri nemendur búnir að setja sig í hlutverk böðla sem minna helst á orkana í LOTR. Í þessari vígslu þurfti maður að hlýða öllu því sem að böðlarnir báðu mann um að gera, eins og t.d. að halda á feitum nefndarfulltrúum, borða súrmat og drekka mysu.

Það má segja að hinn venjulegi busi hafi sloppið vel undan þessari busun og gat farið nokkuð sáttur heim. En það átti hinsvegar ekki við þá sem lentu í einkabusun en það er einmitt hinn leggurinn í busavígslunni.

Hvað varðar einkabusun þá er líklega betra að vera veggjarlús sem enginn þekkir. Einkabusun lýsir sér þannig að nokkrir eldri nemendur koma sér saman um að taka nokkra busa að sér, hella þá fulla og fara með þá niðrí bæ að leysa alls kyns þrautir. Því miður lenti ég í einni slíkri og hér fáiði söguna af því.

Ég hélt að ég væri hólpinn eftir busavígslu skólans en annað kom heldur betur á daginn. Gunni Torfa kom þá auga á mig og Davíð félaga minn og ákvað samstundis að við yrðum hans einkabusar. Gunni stóri eins og hann var gjarnan kallaður, hafði verið með okkur í Kársnesskóla og var gríðarlega bráðþroska unglingur en hann var til að mynda kominn með þykka skeggrót í sjöunda bekk!

Ferðinni var fyrst heitið í ríkið á Dalveginum en þar verslaði Gunni kassa af Lager ef mig minnir rétt. Ég var alls ekki vanur drykkju á þessum tíma en réttur minn var enginn á þessum degi. Bílakjallarinn í Hamraborginni var næsti áfangastaður en þar höfðu nokkrir safnað sér saman til að smána busana. Þarna fékk ég að bragða kattarmat í fyrsta skipti á ævinni og þykir mér mesta furða að kettir leggi sér slíkan viðbjóð til munns! Þarna mátti einnig sjá trektir þar sem boðið var uppá vodka og bjór í bland ásamt öðru sem hefur fallið í gleymsku.

Eftir þessa útreið var farið í Kringluna og beint í Vero Moda verslunina sem er nú aðallega hugsuð fyrir kvenfólk. Mér var komið fyrir í mátunarklefa og svo var séð um að henda í mig kvenmannstoppum og pilsum. Ég klæddi mig í fötin og sprangaði svo um búðina nokkuð ölvaður og bað um aðstoð starfsmanna.

Að Kringluferðinni lokinni var haldið heim til Viktors Sigurjóns en þar var boðið uppá bakkelsi og gúmmelaði. Ég hrúgaði í mig sætindum en komst fljótlega að því að ekki var allt með felldu í mallakútnum. Eftir fáeinar sekúndur var ég staddur úti á plani ælandi öllu sem ég hafði látið ofan í mig yfir daginn og nú leist Gunna stóra ekki lengur á blikuna, hann varð að fara með mig heim.

Hann fór reyndar ekki með mig alla leið heim. Hann henti mér út á ljósunum á Kársnesbraut sem er beint fyrir ofan húsið mitt. Ég kvaddi hann og þakkaði honum kærlega fyrir skemmtilegan dag og gekk svo niður brekkuna. Á þessum tímapunkti var ég mjög syfjaður og fannst mér það mjög góð hugmynd að leggja mig á grasblettinum fyrir neðan rafmagnsskúrinn en hann er einmitt 50 metrum fyrir ofan húsið mitt.

Ekki veit ég hvað leið langur tími þangað til að ég rankaði við mér í örmum lögreglunnar. En þá hafði líklega áhyggjufullur nágranni hringt í 112 og látið vita af ungum manni með litla meðvitund fyrir utan húsið sitt. Lögreglan var kurteis í alla staði og virtist gera sér grein fyrir því að um busadag væri að ræða. Hún spurði aðeins að kennitölunni minni og spurði svo hvar ég átti heima og blessunarlega gat ég bent á húsið mitt. Þar sem fjarlægðin var ekki meiri en þetta treysti lögreglan mér fyrir því að ganga sjálfur heim þar sem ég steinsofnaði einmitt í rúminu mínu.

Klukkan ca. 8 vaknaði ég svo við að félagi minn var kominn til að samferða mér á busaballið sem átti að hefjast fljótlega. Ég vissi í raun ekki neitt og af einhverjum völdum ákvað ég að sleppa sturtunni og mætti galvaskur á ballið með smá gubb í hárinu.

Engum sögum fer af busaballinu sjálfu en busadeginum gleymi ég seint og vil ég þakka Gunna stóra kærlega fyrir vel unnin störf á þessum viðburðaríka degi.

  uruk-hai
Hér er gott dæmi um hinn hefðbundna böðul.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband