127 Hours (2010)

*****/***** 

Ég skellti mér á myndina 127 Hours um helgina en ég hafði beðið hennar með mikilli eftirvæntingu. Að vísu fór raunverulegi atburðurinn sem átti sér stað 2003 algjörlega framhjá mér í fjölmiðlum enda líklega að pæla í allt öðrum hlutum á þeim tíma.

Leikstjóri myndarinnar er meistari Danny Boyle en hann hefur meðal annars leikstýrt myndum a borð við Trainspotting, 28 Days Later og Slumdog Millionaire sem fór sigurför um heiminn fyrir ekki svo löngu síðan. James Franco fer svo með aðalhlutverkið en hann hefur verið að koma sterkur inn síðustu ár með myndum eins og Pineapple Express, Milk og auðvitað Spider-Man þríleiknum.

Aron Ralston (James Franco) er nettur adrenalín fíkill sem unir sér best í náttúrunni og að þessu sinni er hann staddur í Utah þar sem hann stundar að príla í gljúfrum í öllum stærðum og gerðum. Allt gengur vel og kynnist hann meira að segja tveimur skvísum sem hann platar í smá vatnsleik í einni klettasprungunni. Hann heldur svo sína leið sem á eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar á líf hans til frambúðar og hér mæli ég með að fólk stoppi ef það er ekki búið að sjá myndina.

Aron er í eigin heimi þegar hann dettur um lausan grjóthnullung ofan í stóra sprungu með þeim afleiðingum að hann festist þar sem grjótið lendir beint á hægri handlegg hans. Hann reynir hvað hann getur til að losa sig en steinninn haggast ekki þrátt fyrir nokkrar ágætis tilraunir. Eins og titillinn gefur til kynna þá dúsir hann niðri í sprungunni í 127 klst. eða í rúmlega 5 daga. Hjálpin hefði kannski komið hefði hann látið eitthvern nákominn vita af ferðum sínum en hann klikkaði á því.

Ég get vel skilið að fólk kannski heillist ekki beint að hugmyndinni, að horfa á mann fastan í einhverri sprungu í einn og hálfan tíma. En það er vel þess virði enda er Danny Boyle klárlega rétti maðurinn í að matreiða svona mynd og koma henni vel til skila. Áhorfandinn dettur inn í þankaganga Arons og það að hann skildi gleyma rauða Gatorade drykknum í fjandans bílnum er eitt og sér frábært atriði. Þar að auki var hann með upptökuvél á sér sem hann tjáði sig í á mismunandi hátt í gegnum myndina. Maður fékk því nett að upplifa þessa ömurlegu stöðu sem hann var staddur í. Atriðin þegar hann er að drekka vatnið sitt (í hófi) gerðu mig líka virkilega þyrstann fyrir hlé, svo ég mæli með að þið farið ekki þyrst á myndina!

Að lokum fer það svo að hann ákveður að brjóta á sér hendina og skera hana af með vasahníf enda var það eina ráðið ef hann vildi halda lífi. Það var erfitt að sitja í salnum og hlusta á alla þá braki og bresti í beinunum á meðan hann var að losa sig við handlegginn en þá kom Sigur Rós til bjargar. Lagið "Festival" fær nefnilega að hljóma þegar Aron er búinn að frelsa sig og reynir að koma sér til læknishjálpar sem tekst að lokum. Lokasenan er gríðarlega falleg og "Festival" smellpassar inní atriðið enda var ég við það að breytast í gæs í sætinu mínu!

Mér finnst myndin vera góð ábending fyrir áhorfandann að náttúran hefur ennþá yfirhöndina og þó svo að við séum búin að eyðileggja marga hluta hennar og byggja upp stórhýsi og hvað eina að þá erum við ennþá svo lítil í samanburði við t.d. jarðskjálfta, flóð, fellibyli og í þessu tilviki grjóthnullung í Blue Canyon í Utah! Þar að auki eins og gagnrýnandi Frétta- eða Morgunblaðsins benti svo skemmtilega á að þá þarf Aron Ralston að taka ákvörðun sem mun hafa áhrif á líf hans til frambúðar. En einmitt stöndum við flest frammi fyrir því að þurfa að taka afdrifaríkar ákvarðanir á lífsleiðinni til að betrum bæta líf okkar á einn eða annan hátt. Það er erfitt að rífa sig upp af rassgatinu og gera eitthvað í málinu en það mun heldur betur borga sig á endanum.

Það er gaman að segja frá því að hinn raunverulegi Aron Ralston er á lífi í dag (35 ára) og á hann konu og eitt barn. Þrátt fyrir þessa hræðilegu lífsreynslu þá er hann hvergi banginn og heldur áfram að klífa fjöll og gljúfur.

Aron Ralston & James Franco
Meistararnir tveir, Aron Ralston og James Franco.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frekar pirrandi þessi spoiler alert hjá þér! Þetta byrjaði vel, klára þegar ég er búinn að sjá myndina :)

Ingvi (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 16:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband