Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Fjallar 'Hafið, bláa hafið' um samfarir?

Allir þekkja lagið 'Sigling' og hafa líklegast sungið það ófáum sinnum í tónmennt í grunnskóla. Lagið er eftir Friðrik Bjarnason en textinn eftir Örn Arnarson. Dagfarinn hefur oft pælt í textanum og þykir hann afar dónalegur ef rýnt er rétt í hann. Í eitt skipti fyrir öll verður gerð krufning á þessum texta og brátt munuð þið banna börnum ykkar að syngja um "hafið, bláa hafið".

Hafið, bláa hafið, hugann dregur.
Hér á Örn líklega við um konu og áhuga karlsins á henni.
Hvað er bakvið ystu sjónarrönd?
Hvað er á bakvið Barmahlíðina?
Þangað liggur beinn og breiður vegur.
Við vitum hvað þú átt við Örn, en vegurinn er kannski ekki alltaf breiður.
Bíða mín þar æsku drauma lönd.
Greinilega látið sér dreyma um samfarir síðan hann var lítill.

Beggja skauta byr
Jú jú, hér er augljóslega verið að vísa í sköp kvenmannsins!
bauðst mér aldrei fyrr.
Hér komumst við að því að hann er að gera þetta í fyrsta sinn.
Bruna þú nú, bátur minn.
Báturinn orðinn sjófær , nú hefst fjörið!
Svífðu seglum þöndum,
Nú gengur mikið á og skiptstjórinn tekur stjórnina.
svífðu burt frá ströndum.
Skipstjórinn ætlar að sleppa sér og tjalda öllu til sem hann á.
Fyrir stafni er haf og himininn.
Markmiðið er að fá fullnægingu, hafið er sum sé vökvinn úr karlinum
og himininn jafnast á við þá tilfinningu að fá það.

Eins og sjá má á krufningunni er alls ekki ósennilegt að höfundur sé að meina eitthvað annað en hann segir. Nánast allar setningarnar eru frekar vafasamar þó þær séu að einhverju leyti tengdar sjómennsku.  

Það er auðvitað löngu orðið þekkt að textahöfundar eru ekki allir þar sem þeir eru séðir og búa oft til einhverja kápu yfir mjög svo viðkvæm málefni eins og fíkniefni og í þessu tilfelli samfarir. Dagfarinn var meira að segja að komast að því að Örn Arnason var bara dulnefni Magnúsar Stefánssonar. Þar með fá vangaveltur mínar um textann byr undir báða vængi.

Kor
Saklaus stúlknakór Akureyrar tekur lagið.  


Kossinn sem ég aldrei kyssti

Öllum strákum í heiminum dreymir að kyssa sætustu stelpuna í skólanum en vita það innst inni að það á aldrei eftir að gerast. Aðeins örfáir fá kannski tækifærið á að smella einum á gyðjuna og enn færri fá tvö tækifæri. Ég var einn af þeim.

Það var í Kársnesskóla sem fyrra tækifærið gafst og var ég þá í 8. bekk. Sætasta stelpan í skólanum þá var án efa Katrín Ella en hún var þá í 10. bekk. Þegar maður er í 8. bekk í Kársnesskóla er maður gjaldgengur á fyrstu alvöru árshátíðina þar sem hljómsveit spilar fyrir dansi, nammibás er handan við hornið og útnefndir eru myndarlegustu, fyndnustu og gáfuðustu nemendur skólans. Hljómar alls ekki illa en eitthvern náði þetta ekki til mín og Gunnars Þórs en í stað þess að kaupa okkur miða á árshátíðina hjóluðum við uppí Kringlu og keyptum okkur tölvuleik. Okkur fannst árshátíðarkvöldinu betur borgið heima hjá Gunna fyrir framan sjónvarpsskjáinn með tvær fjarstýringar. Þangað til síminn minn hringdi.

Arnar Kári bekkjarbróðir var á línunni og honum lá mikið á.

AK: "Torfi, þú varst valinn húmoristi ársins! Hvar í fjandanum ertu?"
Ég: "Ehh, ég er heima hjá Gunna að spilatölvuleik, ertu samt ekki að grínast?"
AK: "Nei ég lofa, drífðu þig niður í skóla, styttan bíður ennþá eftir þér en ég er hræddur um að þú hafi misst af kossinum hennar Katrínar Ellu."
Ég: "Ha!! Hvað meinarðu?"
AK: "Já hún var að kynna verðlaunin og kyssti alla þá sem fengu verðlaun á kinnina."
Ég: "Við erum á leiðinni!"

Það tók ekki langan tíma að sannfæra Gunnar um að fara á árshátíðina. Fataskiptin tóku fljótt af og stuttu síðar vorum við mættir móðir og másandi í miðasöluna uppí skóla. Friðjón, forstöðumaður Ekkó, tók vel á móti okkur og óskaði mér innilega til hamingju með titilinn, rétti mér styttuna og sagði það mikið afrek hjá mér að vinna húmorista ársins svo ungur að árum. En mér stóð á sama því að það eina sem ég gat hugsað um var kossinn hennar Katrínar en fyrir hann var ég því miður of seinn.

Ég var búinn að jafna mig er næsta tækifæri var í augsýn þrem árum seinna. Þá var ég í MK rétt eins og Katrín en hún var líka sætasta stelpan þar. Ég landaði þá hlutverki Brad Majors í uppfærslu MK á The Rocky Horror Picture Show og það þýddi að ég myndi leika á móti Katrínu þar sem hún lék unnustu Brad, Janet Weiss.

Í handritinu var allavega einn augljós koss og því var ég gríðarlega spenntur. Ekki ósvipað því þegar Hayden Christensen komst að því að hann myndi leika á móti Natalie Portman í Star Wars II. Nú myndi ég loks fá kossinn sem ég missti af í 8. bekk og ekki bara einn heldur nokkra þar sem að sýningarnar voru tíu talsins og mögulega þyrfti að æfa kossinn á æfingum. Lukkan var á mínu bandi.

Tíminn leið og æfingarnar hófust. Ég fékk gjarnan far með Katrínu á æfingar þar sem ég var ekki með bílpróf og átti heima í næsta nágrenni. Það var ekkert lítið skrítið að sitja hliðina á henni í fallegri eðalkerru og var ég greinilega öfundaður af mönnum úti á götu. Ég var einn af þessum "Ohh, er hún svo bara með svona lúða!" gaurum. Lífið var ljúft.

En þegar æfingarnar hófust var ekki útlit fyrir neinn koss. Eftir lagið mitt "Erfitt Janet" átti að vera koss í endann en í staðinn áttum við að horfast í augu og mætast svo með kinnarnar og horfa útí salinn. Gat þetta í alvörunni verið? Bjarni (Frank 'n' Furter) og Viktor (Rocky) myndarlegir menn með meiru fengu úr meiru að moða og voru atriðin þeirra með Janet svæsin svo ekki sé meira sagt. Brad litli var skilinn eftír sár með tár.

Auðvitað fór maður að pæla af hverju Brad fékk ekki að kyssa Janet í leikritinu. Það hlýtur bara að vera að Katrín hafi beðið leikstjórann um að fjarlægja kossinn úr handritinu enda ekkert sérlega spennandi að kyssa rauðhærðan busa og það hefði getað svert mannorð hennar. Það er allavega eina skýringin sem mér dettur í hug.

Hvað er maður svo sem að kvarta? Ég fékk tvö tækifæri til þess að kyssa sætustu stelpu skólans, tvisvar sinnum fleiri en skólabræður mínir fengu.

90014843RL142633880
Erfitt, Janet. Janet og Brad baksviðs í Tjarnarbíói.


Þorvaldur Davíð ósáttur við lagaval í Svartur á leik

Leikarinn Þorvaldur Davíð Kristjánsson segist vera ósáttur við þá Frank Hall og Árna Sveinsson varðandi lagaval eitt í kvikmyndinni Svartur á leik í viðtali við Morgunblaðið í dag. Um er að ræða lagið "Þú og ég" eftir Hljóma sem var endurhljóðblandað af Frank Hall með góðum árangri. Lagið var notað undir atriði með Þorvaldi og Maríu Birtu og þótti það afar vel heppnað.

Þrátt fyrir það er Þorvaldur ósáttur þar sem hann hafði bent leikstjóranum Óskari Þór á lagið sitt "Sumarsaga" sem kom út árið 2009. Óskar sagði Þorvaldi að hann myndi bera hugmyndina undir þá Árna og Frank sem sáu um tónlistina í myndinni. Sá fundur gekk ekki vel enda var löngu búið að ákveða að lögin í myndinni væru frá þeim tíma sem myndin gerðist eða í kringum aldamótin og að lagið "Sumarsaga" væri einfaldlega of nýtt fyrir myndina.

Óskar sagði Þorvaldi frá niðurstöðu fundarins og var leikarinn hneykslaður yfir útkomunni enda taldi hann að staða hans í myndinni gæti hjálpað honum við að koma laginu í gegn.

Í viðtali við Moggann í dag hafði hann þetta að segja:

Auðvitað er þetta leiðinlegt enda fannst mér lagið smellpassa við atriðið í myndinni enda kómískt og rómantískt. "Sjáumst aftur" eftir Pál Óskar var t.d. notað í myndinni og gerði mikla lukku og ég sé ekki neina ástæðu fyrir því að "Sumarsaga" hefði ekki gert það líka. Þar að auki hefði Frank alveg mátt leika sér með það eins og hann gerði með lagið "Þú og ég". En að þeirra mati var lagið of ungt og spyr ég þá á móti, er "Þú og ég" ekki of gamalt?

En maður er víst leikari eftir allt saman en ekki tónlistarráðgjafi og því verður maður bara að sætta sig við þetta. Þetta er samt synd því að mér fannst lagið alltaf henta karakterunum Stebba og Dagnýju vel.

Þorvaldur hefur kannski nokkuð til síns máls og hefði verið fróðlegt að sjá útkomuna ef lagið hefði verið notað. Annars eru víst allir Íslendingar búnir að sjá myndina nema hjónin í Kirkjubóli í Vaðlavík en Dagfarinn hvetur þau til að skella sér í bæinn við fyrsta tækifæri og sjá myndina!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband