Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Good Guys Gone Bad!

Nú fyrir stuttu síðan var það tilkynnt að leikarinn Joseph Gordon-Levitt hefði fengið kallið frá Christopher Nolan fyrir þriðju Batman-myndina, The Dark Night Rises sem er væntanleg í kvikmyndahús á sumartímanum á næsta ári. Þó er ekki búið að opinbera hvaða persónu Joseph kemur til með að leika en flestir reikna með því að hann leiki Alberto Falcone son mafíósans Carmine Falcone sem kom einmitt fyrir í Batman Begins og var leikinn af Tom Wilkinson.

Val Nolans ætti ekki að koma á óvart en Gordon-Levitt lék einmitt stórt hlutverk í síðustu mynd leikstjórans, Inception, sem var að margra mati besta mynd síðasta árs. Í myndinni breytti Joseph ímynd sinni rækilega og varð skyndilega að manni. Að vísu stóð hann sig líka vel í hinni rómantísku 500 Days of Summer en hann þurfti að sanna sig í spennumynd sem hann gerði svo sannarlega í Inception.

Það sem stóð upp úr að mati flestra í síðustu Batman-mynd, The Dark Night, var frammistaða Heath Ledgers heitins í hlutverki Jókersins. Ég held að það sé ekki til sá kvikmyndaunnandi sem var ekki brugðið við að heyra að Heath Ledger ætti að leika hinn útsmogna Jóker. Ég var t.d. einn af þeim, ég hafði ekki trú á því að þessi saklausi drengur frá Ástralíu gæti gert það gott í slíku hlutverki. En mér skjátlaðist og það illa því að Heath Ledger stóð sig það vel að hann lét Jack Nicholson líta illa út í samanburði og hreppti þar að auki Óskarinn fyrir leik sinn. Að vísu lét hann lífið áður en myndin var frumsýnd og jafnvel hafði hlutverkið einhver áhrif á dauða hans en hann gerði sig ógleymanlegan með frammistöðu sinni í myndinni.

Þess vegna ætla ég ekki að hafa neinar áhyggjur af því að Nolan hafi ákveðið að fá Gordon-Levitt til liðs við sig fyrir næstu mynd. Gordon-Levitt á eftir að standa sig vel, á því liggur enginn vafi en við skulum vona til Guðs að hann hljóti ekki sömu örlög og Heath Ledger.

Það sem er samt svo fyndið við þetta allt saman er það að báðir léku þessir öðlingar í gamanmyndinni 10 Things I Hate About You sem kom út árið 1999 en þá var Joseph 18 ára og Heath Ledger var tvítugur. Ef einhver hefði sagt mér þá að þessir tveir gæjar ættu eftir að leika helstu óþokkana í bestu Batman-myndum allra tíma eftir 10 ár hefði ég fussað og sveijað yfir því næstu daga. Ég hefði þó frekar trúað því að Heath Ledger myndi takast það enda var hann pínu skuggalegur og erfitt að reikna hann út. En Joseph Gordon-Levitt var algjört lamb í myndinni og ég man að mér fannst hann hálf glataður sem hinn seinheppni Cameron James.

En nú er fyrrum barnastjarnan orðin að þrítugum manni og myndi ég segja að hann eigi glæsta framtíð fyrir höndum haldi hann rétt á spöðunum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig honum tekst upp í The Dark Night Rises og ég vona svo sannarlega að hann haldi geðheilsunni og lífi sínu annað starfsbróðir hans!

heath_levitt.jpg 
Fyrir utan það finnst mér þeir vera nauðalíkir og það skyldi þó aldrei vera að Joseph tæki bara við hlutverki Ledgers sem Jókerinn...


Topp 5: Bestu körfuboltamyndir allra tíma

Körfuboltamyndir klikka seint enda eru þær lang vinsælustu íþróttamyndirnar. Ég meina hver nennir að horfa á bíómynd um krikket, golf eða sund? Ástæður fyrir vinsældum körfuboltamynda eru þrjár. Í fyrsta lagi eru leikmennirnir flestir hverjir aðeins of svalir og hata ekki að dólgast í frítíma sínum, í öðru lagi er unun að fylgjast með framgangi þjálfarans og hvernig honum tekst að ná árangri með vitleysingana sína og í þriðja og síðasta lagi er það taugaspennan sem myndast þegar liðið sem maður heldur með tekur þriggja stiga skot þegar bjallan er búin að hringja.

Dagfarinn ætlar nú að fara yfir 5 bestu körfuboltamyndir allra tíma að hans mati og hann lofar ykkur því að valið er ekki auðvelt enda um urmul af gæða körfuboltamyndum til!

5. The Cable Guy (1996)


Hversu gaman væri að spila með manni eins og honum?

Já ég veit, The Cable Guy er ekki körfuboltamynd en körfuboltaatriðið í myndinni á skilið 5. sæti listans hjá mér. Atriðið hefur allt, upphitunina, gredduna, skrínið og troðsluna sem brýtur spjaldið. Er hægt að biðja um mikið meira?

4. The Air Up There (1994)


Jimmy Dolan hittir Saleh í fyrsta skipti..


Aðstoðarþjálfarinn Jimmy Dolan (Kevin Bacon) ferðast til Afríku í þeirri von um að finna glænýja stjörnu fyrir háskólaliðið sitt og koma sér þannig í stöðu aðalþjálfara. Í Afríku finnur hann gæðablóðið Saleh (Charles Gitonga Maina) og kynnist þar að auki nýjum lífsháttum í menningu sem hann þekkti ei áður. Saman göfga þeir hvor annan og í hápunkti myndarinnar nær Saleh að gera "Jimmy Dolan Shake & Bake" og ég held ég segi ei meira.

3. Blue Chips (1994)


Ein svakalegasta ræða kvikmyndasögunnar, inn og út er aðferð
Pete's sem slær ræðu Al Pacino úr Any Given Sunday ref fyrir rass.


Þjálfarinn Pete Bell (Nick Nolte) er undir pressu hjá háskólaliðinu Western University Dolphins. Liðinu hefur ekki gengið sem skyldi og til að bæta úr því verður Pete að brjóta lögin. Hann þarf að lokka til sín góða leikmenn og færir hinum risavaxna Boudeaux (O'Neal) til að mynda Lexus og reddar móður skotbakvarðarins McRae (Hardaway) húsnæði og vinnu. Þetta skilar sér að sjálfsögðu í frábærum árangri en þar sem það er gert ólöglega fær Pete samviskubit og játar allt að lokum.

2. White Men Can't Jump (1992)


Frábær samvinna Sidney og Billy!

Það mætti halda að Larry Bird og Magic Johnson hafi hist útá velli en svo er ekki. Hér höfum við Sidney Deane (Wesley Snipes) og Billy Hoyle (Woody Harrelson) sem sameina krafta sína á vellinum. Þeir nýta sér það að hvíti maðurinn er ekki hátt skrifaður á vellinum og vinna veðmál eftir veðmál í kjölfarið. Woody og Snipes hafa sjaldan verið flottari á hvíta tjaldinu!

1. Space Jam (1996)


Michael Jordan niðurlægður í meira lagi..

Það er líklega ekki til sá maður sem varð ekki ástfanginn þegar hann sá Space Jam í fyrsta skipti. Plottið er frábært, geimverur stela kröftum frá mönnum eins og Patrick Ewing og Charles Barkley og ætla þannig að sigra Looney Tunes gengið sem hafði skorað á þá í körfubolta þegar þeir voru öllu minni. En geimverurnar gleymdu einum manni, Michael Jordan sem er nýhættur í boltanum til að reyna fyrir sér sem hafnaboltamaður. Útkoman er frábær og er unun að sjá hvernig teiknimyndaheimurinn og NBA-heimurinn tvinnast saman. Þar að auki var þeim Bill Murray og Wayne Knight hent inní myndina sem gerir hana ennþá áhugaverðari!

Aðrar myndir sem komu til greina:

Coach Carter (2005)
Glory Road (2006)
Love & Basketball (2000)
More Than a Game (2008)
The Sixth Man (1997)

Hvernig myndi ykkar listi líta út lesendur góðir?


Ljósmyndin

Það vakti mikla athygli í fyrra þegar Breiðablik varð í fyrsta sinn Íslandsmeistari í knattspyrnu í meistaraflokki karla. Úrslitin réðust ekki fyrr en í síðustu umferð og því var mikil spenna víðsvegar um landið. Síðasti leikur Blika var gegn Stjörnunni á útivelli og var vel mætt á völlinn og var ég á meðal áhorfenda.

Það er ekki frásögu færandi nema það að efnt var til átaks. Menn voru hvattir til að mæta í fjólublárri v-hálsmáls peysu sem Ólafur Kristjánsson þjálfari Blika var búinn að klæðast í nánast hverjum einasta leik á tímabilinu. Peysan var því orðin að hálfgerðu kennileyti þjálfarans enda gekk liðinu hans vel þegar hann skartaði henni á hliðarlínunni.

Ég hafði keypt nákvæmlega eins peysu í Dressmann fyrir nokkrum árum og þar sem ég átti ekki treyju með merkjum Breiðabliks ákvað ég að fara í henni á leikinn. En ég ákvað að ganga lengra með þetta. Á meðan flestir létu peysuna duga þá fannst mér það ekki nógu tilkomumikið. Eins og alþjóð veit að þá er ég rauðhærður en ekki sköllóttur eins og Ólafur. Ég fékk því lánaðan skalla hjá frænda mínum sem var með smá hári á. Þar að auki gróf ég upp gömul gleraugu sem ég notaði í leikritinu Með fullri reisn í MK en þar lék ég einmitt homma sælla minninga.

Útlitið vakti vægast sagt athygli á leiknum og mér leið eins og poppstjörnu á tímapunkti. Ég var á býsna góðum stað í stæði og var alveg fremst við auglýsingaskiltin enda mættur tímanlega á völlinn. Leikurinn var flautaður á og allt lék í lyndi þrátt fyrir frekar skítt veður. Elskuleg móðir mín hafði tekið með sér skærgult ponsjú sem ég klæddi mig í til að halda mér þurrum. Stuttu eftir það ýtti Þorsteinn félagi minn við mér og benti mér á að ljósmyndari á hliðarlínunni væri að reyna að ná mynd af mér. Ég setti mig að í sjálfsögðu í stellingar enda ánægður með uppátæki ljósmyndarans.

Lífið hélt áfram og fór það svo að leikurinn endaði 0-0 sem dugði Blikunum til sigurs í deildinni þar sem að ÍBV missteig sig gegn Keflavík. Trylltur dans var stiginn um kvöldið og Kópavogsbær var grænn næstu daga. Það var svo á mánudaginn að ég komst að því að ljósmyndarinn var að mynda fyrir mbl.is og svo skemmtilega vildi til að myndin var birt á vefnum.

Ljósmyndin
Ljósmyndin fræga Ég í múnderingunni ásamt móður minni, litla bróður og Þorsteini. 

Eins og sjá má á myndinni að ofan að þá myndu fæstir telja að hér væri ég að reyna að líkjast Ólafi Kristjánssyni en því miður gerði ég mér ekki grein fyrir því fyrr en löngu eftir leik. Öllu meira vit væri í því að segja að ég liti út eins og Andy í Little Britain enda fannst það mörgum sem sáu mig og myndina. Ég ætla því að sýna ykkur samanburð á Óla og Andy og leyfa ykkur lesendum góðum að dæma fyrir ykkur sjálf.

Andy Kri
Andy (fyrir miðju) x Óli Kri = Andy Kri

Það er deginum ljósara að ef Óli Kri myndi bæta aðeins á sig, láta hárið sem er eftir vaxa, skipta um gleraugu og brosa aðeins að þá væri hann nánast sami maður og Andy. Ég er þó ekki að hvetja hann til þess bara að benda á að möguleikinn er fyrir hendi.

Ég segi allavega fyrir mitt leyti að mér finnst ég ná Andy talsvert betur en Óla og kannski spurning um að ljósmyndari Morgunblaðsins hafi haldið svo, að sjálfur Andy væri mættur á völlinn með barninu sínu sem getið var í hjólastól. Ég áfellist hann allavega ekki.

En uppátækið nýttist mér ef svo má segja á hrekkjarvökunni í fyrra en þá notaði ég sömu hugmynd og mætti sem Andy í hrekkjarvökupartý sem margir þjóðfræðinemar muna kannski glöggt eftir. Þar átti fólk ekki í vandræðum með að vita hvern ég væri að reyna að stæla og var ég ófáum sinnum beðinn um að koma með einhverja línu frá Andy. Þar var t.d. önnur skemmtileg ljósmynd tekin og leyfi ég henni að sjálfsögðu að fylgja með.

Andy (2)
Hrekkjarvöku Andy Fullkomnun hefði ég reddað hjólastól.

En dagurinn sem Breiðablik varð Íslandsmeistari verður mér lengi í minnum hafður bæði fyrir afrek Blikanna, ljósmyndina og svo má ekki gleyma treyjunni sem Elfar Freyr gaf mér eftir leik sem hengur óþvegin uppá skáp heima. Spurning hvort að ég mæti ekki bara í þessari múnderingu á hvern einasta leik með Blikum á næstu leiktíð?


Sambandsfitan mín

Ég rakst á grein um daginn á hinum annars ágæta vef bleikt.is undir fyrirsögninni "Kærustufaggi". Henný Moritz, höfundur greinarinnar, ræðir þar hvað það er að vera kærustufaggi og hvað skemmtilegir einstaklingar breytast mikið þegar þeir fara í samband. Það var margt áhugavert í greininni að mínu mati og gæti ég alveg kvittað undir nokkur atriði þarna með góðri samvisku. 

Eitt af því er t.d. hin alræmda sambandsfita. Í greininni segir: "Kærustufagga er eðlilegt að fitna og slappast". Ég viðurkenni fúslega að ég hef fitnað síðan ég byrjaði með henni Kristínu minni en þó líklega af öðrum ástæðum en flestir aðrir kærustufaggar.

Atvikið átti sér stað 22. september árið 2009 og ég man eftir þessum degi eins og hann hefði verið í gær. Þá var ég ekki byrjaður með Kristínu en ég hafði svona verið að reyna að fá hana á deit. Það gekk hinsvegar ekkert alltof vel til að byrja með, hún neitaði eða frestaði alltaf en hélt mér þó alltaf heitum. Þennan miðvikudag stóð til boða að fara í sparkbolta með nokkrum HK-ingum í nístingskulda. En ég vildi ólmur hitta Kristínu og bjóða henni á rúntinn eða eitthvað álíka.

Daginn áður hafði hún játað þessum hitting en á allra síðustu stundu beilaði hún og gaf upp þessa ástæðu: "Ég er að fara í öldulaugina í Álftanesi með vinkonum mínum" sagði hún á msn og hljómaði eins og fermingarbarn í mínum eyrum. Ég sló því á þráðinn til strákanna og bauð komu mína í sparkboltann. Því hefði ég betur átt að sleppa.

Í boltanum var tekist mishart á. Ég var svona þekktastur fyrir að gera eitthvað upp úr engu, oftast vegna heppni og ég átti það líka til að vera harður í horn að taka. Ég ætlaði einmitt að láta Samma 70 finna til tevatnsins í einni sókninni. Hann geystist upp völlinn og missti boltann aðeins frá sér. Ég sá strax í hvað stefndi og hljóp að boltanum og ætlaði svo að senda Samma alla leið uppí Garðabæ en hann þykir mjög lítið eintak af manni. Ég setti allan minn skriðþunga (p := m v) í verkefnið og henti mér svona útí loftið og beið eftir snertingunni frá Samma. En snertingin kom aldrei og því flaug ég útí loftið og lenti óvænt með hægri löppina á gervigrasinu örfáum sekúndum síðar. Það skilaði sér í krossbandssliti og sködduðum liðþófa í hægra hné. Sammi var klókur og sleppti því að fara í návígið enda ekki mikið fyrir Garðabæinn.

Það kom ekki í ljós fyrr en í desember sama ár hvað amaði að mér en ég hafði alltaf frestað því að fara í skoðun enda ekki vanur að meiða mig illa. Skilaði það sér í nokkrum boltum í viðbót sem endaði oftar en ekki eftir örfáar mínútur. Eitt sinn var ég borinn af velli illa þjáður í Sporthúsinu af tveimur félögum og fór svo á Airwaves hátíðina sömu helgi og þið getið rétt ímyndað ykkur sársaukann að standa tímunum saman yfir misgóðum hljómsveitum.

Ég fór svo í aðgerð í mars næsta ár og smátt og smátt byrjuðu kílóin að hrannast á mig. Frí í 6 vikur eftir aðgerð gerði útslagið og sáu Kristín og móðir mín um að halda mér við efnið með bakkelsi og brauði.

Mér þykir það mikil kaldhæðni að ég væri jafnvel 10-20 kílóum léttari með heilbrigt hné í dag hefði Kristín haldið sig við það sem ákveðið var og ekki tekið upp á því að fara í tilþrifalausa sundferð með einhverjum stelpukjánum. Í staðinn fór ég í sparkbolta og rústaði á mér hnénu. Já sambandsfitan leggst á flest pör og eru sameiginleg afleiðing tveggja einstaklinga. Kristín tók forskot á sæluna og sá til þess að ég myndi fá langvarandi sambandsfitu. Ég hélt að hún myndi missa áhugann á mér ef ég myndi bæta á mig en nú sé ég að það var nákvæmlega það sem hún vildi.

Krossband
Fyrstu dagar eftir aðgerð, Kristín virðist vera stolt af sköpunarverki sínu.

Þið sem einhleyp eruð, farið gætilega ef deitið beilar skyndilega á fyrirfram plönuðum hitting, það gæti verið að leggja á ráðin.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband