Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Tvífarinn: Anna Özil & Daði Fabianski

Það er löngu kominn tími á nýja tvífara hér á Dagfaranum og eru þeir næstu ekki af verri gerðinni. Þeir eru afhjúpaðir núna þar sem að ný sparktíð var að hefjast og allt að gerast!

Fyrri tvífarinn er jafnframt fyrsti kvenkyns tvífarinn og ber að fagna því. Það er hún Anna Fanný Sigurðardóttir og er hennar tvífari enginn annar en þýska undrabarnið Mesut Özil sem spilar einmitt fyrir prímadonnurnar í Real Madrid. Dagfaranum líður eins og hann hafi leitt saman týnd systkini en þau þykja afskaplega lík eins og sjá má á myndunum.

Anna Fanný Mesut Özil
Líkindin eru í einu orði sagt sláandi og maður gapir gjörsamlega yfir þessu. Mesut Özil er aðeins ári eldri heldur en Anna Fanný og mikil leynd hvílir yfir þjóðerni mannsins en flestir vilja meina að hann sé hálfur Tyrki og hálfur Þjóðverji. Dagfarinn heldur hinsvegar að hann sé íslenskur og sé Sigurðarsson..

Næsti tvífari er ekki síðri en samt aðeins. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á fótbolta og eru sömuleiðis mikið meiddir. Þetta eru þeir Daði Þór Steinþórsson fyrrum bakvörður N.W.A. og Lukasz Fabianski varamarkvörður Arsenal. Þeir þykja nokkuð líkir þó að Daði sé í öllu betra formi en Pólverjinn. Daði hefur einmitt mikla reynslu af Pólverjum í Noregi og aldrei að vita nema að þeir taki kannski upp mikinn vinskap skyldu þeir hittast úti á götu.

Daði Þór Lukasz Fabianski
Eins og sjá má á þessum myndum munar ekki miklu á andlitum þeirra. Ef Daði myndi kíkja í nokkra ljósatíma og fá sér nokkra fæðingabletti þá erum við að tala um nánast sömu mennina.


Benicàssim 2011: Sunnudagur

Þá var komið að síðasta degi hátíðarinnar og sem fyrr fór kvöldið frekar hægt af stað. Það var ósk mín að sjá velsku hljómsveitina Joy Formidable en þar sem ég vildi kaupa hátíðar bol þurfti ég að sætta mig við að hlusta á sveitina í þéttum hópi fólks sem beið eftir afgreiðslu. Svekkjandi það.

En það þýddi ekkert að hengja haus enda hljómsveitin bara písl miðað við það sem framundan var. Það var ágætis spenna í hópnum fyrir hljómsveitinni Noah and the Whale en hún ætti að vera hlustendum X-ins og Rásar 2 að góðu kunn þar sem lagið þeirra "L.I.F.E.G.O.E.S.O.N." hefur verið mikið í spilun sem og fleiri lög. Strákarnir mættu í snyrtilegum klæðnaði uppá svið og hárgreiðslan "síður toppur til hægri" virðist vera að gera góða hluti á þeim bænum. Þeir tóku öll sín bestu lög að mati Dagfarans en náðu þó aðeins að spila í 40 mínútur en ekki 60 eins og til stóð. Þeir enduðu einmitt á fyrrnefndu "L.I.F.E.G.O.E.S.O.N." og gerðu heiðarlega tilraun til að láta klappa sig upp en lófatakið lét á sér standa. Lýðurinn var greinilega farinn að huga að næstu tveimur hljómsveitum.

Rúmlega klukkutíma síðar hóf hljómsveitin Portishead leikinn og þvílik veisla sem Beth Gibbons og félagar buðu uppá! Tónleikarnir voru í einu orði sagt fullkomnir. Lagavalið var virkilega gott en mest var tekið af síðustu plötu þeirra Third ásamt helstu slögurunum af Dummy. Sviðsetningin var ein sú flottasta á hátíðinni og minnti Dagfarann mikið á gjörninginn hjá Radiohead á Reading hátíðinni 2009. Portishead er hljómsveit í þungavigt og það þýðir í raun ekkert að fjölyrða neitt um þessa tónleika eitthvað frekar enda voru þeir fullkomnir í alla staði.

Portishead á FIB 2011

Þá var loksins komið að hljómsveitinni sem Dagfarinn hefur ætlað að sjá síðan að hann heyrði upphafslagið á plötunni Funeral árið 2005, Arcade Fire. Uppáhalds núlifandi hljómsveit Dagfarans og hefur verið það lengi. Meðlimir sveitarinnar hafa aldrei verið kenndir við neitt rugl og eru í senn afar þroskaðir einstaklingar sem lifa fyrir tónlistina og ekkert annað. Einskonar Lionel Messi tónlistarinnar.

Eins og hjá Portishead var sviðið fallega skreytt sem gerir upplifunina enn betri. Útlitið minnti helst á inngang á gamaldags kvikmyndahúsi sem auglýsti sýningu kvöldsins, The Suburbs. Og það var einmitt raunin því að tónleikarnir byrjuðu á smá stiklu af stuttmyndinni Scenes from the Suburbs en hún er skrifuð af söngvaranum Win Butler og leikstjóranum Spike Jonze.

Loks birtust meðlimirnir á sviðinu og töldu að sjálfsögðu í lagið "Ready to Start" enda vel við hæfi. Áfram hélt fjörið og voru leikin lög af öllum ferlinum þó mest af frumburðinum Funeral og þeirri nýju The Suburbs. Hápunktar tónleikanna voru líklega þegar þau tóku "Intervention" og "Neigboorhood #1 (Tunnels)" sem eru uppáhalds tónverk Dagfarans. Einnig komu "No Cars Go", "We Used to Wait" og "Sprawl II (Mountains Beyond Mountains)" sterk inn ásamt öllum hinum lögunum. Arcade Fire er nefnilega þeim kostum gædd að hún á engin léleg lög, svona svipað eins og Bítlarnir.

Það kom bersýnilega í ljós á þessum tónleikum hversu ofboðslega miklu máli það skiptir að hafa góðan "frontmann" eins og hann Win Butler er og skilur það á milli góðra og frábærra hljómsveita. Að vísu þarf Win Butler ekkert að kvarta yfir samstarfsmönnum sínum sem geta spilað á hvaða hljóðfæri sem er og eru óhrædd við að skipta um hlutverk á milli laga. Arcade Fire sannaði það á þessu kvöldi að þau eru ein besta hljómsveit og tónleikasveit samtímans ef ekki allra tíma.

Og þannig endaði Benicàssim hátíðin árið 2011... með fullkomnun!

AF 1 AF 4

AF 5 AF 2
Nokkrar myndir frá kærustunni og þar á meðal hópurinn sem Dagfarinn fór með.


Benicàssim 2011: Laugardagur

Þær voru ekki nema sex hljómsveitirnar sem mig langaði til að sjá þetta kvöldið og dreifðust þær á tvö svið svo ég gat ekki séð þær allar. Þetta er að mínu mati einn af fáum ókostum við hátíðina en úrvalið af góðum hljómsveitum er ekki eins og gott og verða vill á öðrum sambærilegum hátíðum í Evrópu. Þess í stað beita FIB-liðar sér fyrir því að hafa stóru hljómsveitirnar stórar og litlu hljómsveitirnar mjög litlar. Þetta er að sjálfsögðu bara mín skoðun.

Fyrst á dagskrá þetta laugardagskvöldið var hljómsveitin Bombay Bicycle Club en hún stóð sig með miklum sóma á síðustu Iceland Airwaves hátíð. Sveitin er að fara að gefa út nýja plötu í enda þessa mánaðar en lagið þeirra "Shuffle" hefur til að mynda verið í spilun á X-inu í sumar. Ég var því nokkuð spenntur fyrir tónleikum þeirra og í þetta sinn á stærri hátíð fyrir framan fleiri áhorfendur. Tónleikarnir voru í einu orði sagt mikil vonbrigði og á endanum fannst mér þeir það slappir að ég ákvað að færa mig yfir á Mumford & Sons. Ástæðan var algjört kraftleysi af þeirra hálfu og veit ég ekki hvort hægt sé að kenna hljóðkerfinu um eða þeirra eigin getuleysi. Söngvarinn var að sama skapi virkilega lélegur þetta kvöldið og virtist hann eiga í miklum erfiðleikum með sönginn sinn sem heyrðist varla fyrir utan sviðið. Þeir náðu aldrei að skapa stemninguna sem myndaðist t.d. á Airwaves hátíðinni og þrátt fyrir slagara sína komst aldrei nein almennileg hreyfing á gestina.

Það hefði þótt ólíklegt fyrir hátíðina að ég léti mig hafa það að fara að sjá Mumford & Sons en það var ekkert annað í boði eftir vonbrigði Bombay. Ég stóð á besta stað, á barnum fyrir framan risaskjá og gat verið silkislakur enda nauðsynlegt að hlaða batteríin fyrir Arctic Monkeys sem voru næstir í röðinni. Mumford-liðar voru þokkalegir en ég bjóst við betri tónleikum og meiri keyrslu ef ég á að segja eins og er. Kannski var ég of langt frá sviðinu en það ætti ekki að koma að sök enda risa hátalarar útum allt. En fólk var að fýla þetta vel og auðvitað enduðu þeir á laginu "The Cave" við mikinn fögnuð áhorfenda.

Spennan eftir Arctic Monkeys var orðin býsna mikil enda kvöldið ekki búið að fara neitt sérstaklega vel af stað. Fyrst var það skita Bombay, svo var það svekkelsið að missa af Beirut og eftir allt saman endaði maður á Mumford. Arctic Monkeys átti heldur betur eftir að rífa kvöldið upp. Dagfarinn hafði áður séð þá á Reading hátíðinni árið 2009 en þá voru þeir nýbúnir að gefa út plötuna Humbug. Stemningin á þeim tónleikum var nokkuð spes og minnti helst á jarðarför. Í þetta skiptið var allt annar bragur á þeim enda nýbúnir að gefa frá sér hina vel heppnuðu Suck It and See. Alex Turner forsprakki sveitarinnar var aðeins of svalur á því í eiturhörðum leddara og ekki síðri hlýrabol. Lagavalið var virkilega gott hjá Sheffield strákunum en mest var tekið af Favourite Worst Nightmare og Suck It and See. Aðeins tvö lög voru tekin af Humbug mér til mikillar ánægju en því miður var "Cornerstone" ekki eitt þeirra. "Still Take You Home" og "When the Sun Goes Down" af fyrstu plötunni voru svo sérlega miklir gleðigjafar fyrir Dagfarann. Heilt yfir frábærir tónleikar og sviðsframkoma Alex Turners var með besta móti enda skemmti hann sér greinilega vel og það smitaði að sjálfsögðu út frá sér.


Skemmtilegt viðtal við meðlimi Arctic Monkeys fyrir tónleikana.

Síðasta hljómsveit kvöldsins hjá Dagfaranum var Primal Scream en samkvæmt plakatinu áttu þeir sérstaklega að kynna til leiks meistaraverkið sitt Screamadelica sem er líklega ein besta plata allra tíma. Bobby Gillespie og félagar voru algjörlega með þetta og hlóðu í hvern slagarann á fætur öðrum. Að auki voru þeir með eina vel þétta svarta söngkonu sem fékk greinilega raddbönd í vöggugjöf og átti hún stóran part af sýningunni sem Primal Scream bauð uppá. Eftir að búið var að taka flest lögin af Screamadelica var stuðið keyrt ennþá meira upp með lögunum "Country Girl", "Jailbird" og "Rocks" og réð Dagfarinn sér ekki af gleði enda um eitt af hans uppáhalds lögum í gervöllum heiminum að ræða. Ekki amalegt að sjá þessa mögnuðu hljómsveit flytja sín bestu lög og virkilega góður lokahnykkur á þessu laugardagskvöldi.

Bobby Gillespie
Bobby Gillespie söngvari Primal Scream í fýling.

Erfitt var að sjá á eftir: Beirut, Big Audio Dynamite


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband