Benicàssim 2011: Föstudagur

Eftir að hafa legið í skugga mest allan daginn var loksins komið að því að fara á tónleika og spennan var í hámarki því nú var komið að þeim hljómsveitum sem drógu okkur krakkana á hátíðina.

Ég byrjaði kvöldið á pönksveitinni goðsagnakenndu The Undertones sem tilkynnti strax í byrjun að þeir ætluðu að spila fyrstu plötu sína í heild sinni sem var að mínu mati mjög sterkur leikur. Lög eins og "Here Comes the Summer", "Jimmy Jimmy" og síðast en ekki síst "Teenage Kicks" fengu að óma við gríðarlega góðar undirtektir áhorfenda. Söngvarinn Paul McLoone var í banastuði uppi á sviði en vissulega hefði verið skemmtilegra að sjá upprunalega söngvarann Feargal Sharkey þenja raddböndin á FIBCLUB sviðinu þetta kvöldið. Mjög svo skemmtilegir tónleikar og góð byrjun á þessu föstudagskvöldi.

Stefnan var nú tekin á næststærsta svið hátíðarinnar FIBERFIB.COM til að sjá franska dúettinn Herman Düne en þeir eru sagðir undir áhrifum frá mönnum eins og Bob Dylan, Leonard Cohen og Chuck Berry. Þó þeir tali um sig sem dúett eru fleiri sem spila með þeim á tónleikum svo úr verður ansi þétt og góð hljómsveit. Ég var virkilega ánægður með Herman Düne en sveitin stóðst væntingar mínar og vel það. Það sveif yfir þeim gamaldags og þægileg stemning og færni gítarleikarans minnti oftar en ekki á stjörnutakta Chuck Berry. Þar að auki eiga þeir bara fjandi góð lög og fyrir Íslendinga mæli ég hiklaust með nýju plötunni þeirra Strange Moosic.

Eftir nokkur gefins karamelluskot var haldið aftur að FIBERFIB.COM sviðinu í þeim tilgangi að bera The Stranglers augum. Hljómsveitin hefur lengi verið í uppáhaldi hjá Dagfaranum og ekki síst lagið "Golden Brown" sem er líklega það besta sem samið hefur verið á þessari jörð. Því miður vorum við í tímaþröng þar sem stutt var í The Strokes en til allrar lukku var "Golden Brown" einmitt síðasta lagið sem þeir tóku áður en við héldum á brott. Það var með sorg í hjarta sem við kvöddum The Stranglers enda sýndu þeir að þeir hafa engu gleymt í tónleikahaldi.

Þá var komið að fyrstu hljómsveitinni sem var svona ástæðan fyrir því að við skelltum okkur á Benicàssim hátíðina, The Strokes. Spennan var mikil í hópnum enda um eina merkilegustu hljómsveit 21. aldarinnar að ræða. Þeir létu reyndar bíða eftir sér í nokkrar mínútur en byrjuðu með látum á laginu "New York City Cops" er þeir mættu loksins. Tekin voru lög af öllum ferlinum en þó var mest tekið af Is This It plötunni, gallhörðum aðdáendum til mikillar gleði. Þó að þeir hafi spilað lögin sín óaðfinnanlega mátti greinilega sjá að lítill kærleikur er í gangi hjá hljómsveitinni þessa stundina og fannst mér það bitna á skemmtanagildi tónleikana. Þeir spiluðu einnig hálftíma minna en til stóð og fannst mér alveg vera pláss fyrir lög eins og "12:51" og "Heart in a Cage" sem hefðu fullkomnað þessa tónleika fyrir mér. Góðir tónleikar en ekki fullkomnir.

Breska hljómsveitin Friendly Fires var næst á svið og þvílíkir tónleikar sem þeir buðu uppá! Ég vissi reyndar að þeir væru góðir en ekki svona góðir. Á eitthvern ótrúlegan hátt blanda þeir saman indí rokki, fönki og diskó tónlist svo úr verður svakaleg partý tónlist. Stemningin var einhvern veginn allt önnur en á The Strokes og var söngvarinn kófsveitti Ed Macfarlane í sérstaklega miklu stuði sem skilaði sér beint til áhorfenda. Þeir spiluðu lög af báðum plötum sínum og skiptu þeim bróðurlega á milli sín en þeir gáfu einmitt út plötuna Pala fyrr á þessu ári og sá Dagfarinn ástæðu til þess að nefna hana í færslu sinni um fyrri hluta plötuársins 2011. "On Board" var hápunkturinn að mínu mati enda dillaði ég mér eins og ég ætti lífið að leysa. Friendly Fires tókst að loka þessum góða flöskudegi með stæl og væri ég alveg til í að sjá þá aftur einn daginn.

Ed söngvari Friendly Fires
Eins og sjá má á þessari mynd var Ed Macfarlane í góðum gír!

Erfitt var að sjá á eftir: James Murphy, The Morning Benders, The Stranglers


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

úff ... ég fæ illt í hjartað ... þrái að sjá Friendly Fires ... one day!

Auður (IP-tala skráð) 28.7.2011 kl. 13:33

2 identicon

Ok mjög leiðinlegt að heyra með Strokes, þeir verða að rífa sig uppúr þessu!

Nína Gunn (IP-tala skráð) 5.8.2011 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband