Reykjavík Music Mess 2011

Dagfarinn var svo lánsamur að bjóðast frír miði á hátíðina Reykjavík Music Mess sem haldin var um helgina í fyrsta skipti. Já krakkar, það kann að hljóma undarlega en stundum getur það komið sér vel að vita eitthvað um tónlist.

Hátíðin hófst á föstudegi en þá kíkti ég í Norræna húsið og sá þar þrjár hljómsveitir. Fyrst sá ég Nive Nielsen frá Grænlandi sem var alveg þokkaleg en náði samt ekki að heilla mig nóg. Hljóðið var eitthvað að stríða hljómsveitinni líka og bassinn var til að mynda alltof hátt stilltur. En hljómsveitin fær prik fyrir að bjóða uppá óvenjuleg hljóðfæri eins og sög og gítar sem virtist vera úr Kornflex kassa!

Næst var komið að krúttsprengjunni Sóley en hún spilar á hljómborð í Sin Fang og Seabear ef mér skjátlast ekki. Hérna er hún komin með sitt eigið efni og er plata væntanleg frá henni en í fyrra gaf hún út EP plötuna Theater Island. Sóley var búin að smala saman í litla hljómsveit að eigin sögn en því miður var hún ekki nógu þétt sem er synd því að efniviðurinn lofar mjög góðu. Ég hlustaði svo á EP plötuna hennar þegar ég kom heim og þar var miklu betri hljómur eins og mig grunaði. Sóley hefur annars frábæra rödd og mér var mikið skemmt á tónleikum hennar sökum krúttleika og skemmtilegrar sviðsframkomu. Framtíðin lofar góðu hjá þessari stúlku.

Hljómsveitin Stafrænn Hákon lokaði svo kvöldinu í Norræna húsinu en upphaflega ætlaði ég að hlusta á eitt lag með þeim og fara svo heim en þeir héldu mér rígföstum í salnum og komu mér skemmtilega á óvart. Ekki láta nafnið plata ykkur, ég hélt að ég væri að fara að hlusta á rólega rafræna tóna en annað kom heldur betur á daginn! Tónlistinni þeirra mætti lýsa sem einhvers konar samsuðu af The Shadows og Godspeed You Black Emperor. Hljómsveitin var áberandi þéttust af því sem ég hafði séð þetta kvöld enda hafa þeir/hann gefið út plötur jafnt og þétt í 10 ár.

Á laugardeginum var ég aðeins búinn að fá mér og kvöldið lofaði mjög góðu þegar að meistari Sindri steig á stokk undir merkjum Sin Fang á Nasa. Eins og við mátti búast voru hljómgæðin í húsinu talsvert betri heldur en í því Norræna. Sin Fang naut sín til botns á sviðinu og það skilaði sér svo sannarlega útí salinn. Fyrir utan nokkra háværa fm-hnakka frá Þýskalandi sem að voru líklegast eitthvað villtir af leið voru þetta frábærir tónleikar.

Bandaríska hljómsveitin Lower Dens var næst á svið en hún hefur meðal annars hitað upp fyrir Deerhunter og Beach House. Lower Dens er svo sem ekki ósvipuð þeim hljómsveitum en hún á þó langt í land enda fannst mér indí rokkið sem þau buðu uppá ansi tilþrifalítið. Kannski hafði það áhrif að ég hef aldrei hlustað á hljómsveitina áður en tónlistin þeirra hreif mig allavega ekki neitt sérstaklega við fyrstu hlustun. Sviðsframkoma þeirra var líka döpur í meira lagi. 

Næst á svið var íslenska sveitin kimono en það tók mig nokkra stund að fatta kynið á söngvaranum. Að lokum komst ég svo að því að um karl væri að ræða enda bentu raddböndin hans til um eitt stykki pung. Þeir voru ögn harðari en ég bjóst við en það var bara gaman að fá smá fútt í þetta eftir vonbrigðin á undan. Virkilega flott band sem kann að spila á hljóðfærin sín og vera "fucking awesome" eins og einn gesturinn sagði.

Ég gekk svo fljótlega út eftir að Reykjavík!+Lazyblood byrjaði enda fattaði ég ekki tilburði söngkonunnar.

Sunnudagurinn var að mínum dómi þéttasti dagurinn. Ég hóf leikinn í Norræna húsinu þar sem að Mugison fór á kostum. Mér leið meira eins og gesti heima hjá honum heldur en tónleikagesti. Hann var gríðarlega heimilislegur og skemmtilegur og lék óaðfinnanlega á gítarinn sinn og minstrumentið sitt. Söngurinn var svo algjörlega sér á báti, maður heyrði hvert einasta orð og innlifunin hans skilaði sér beint í æðarnar á mér. Þá sérstaklega í laginu um hátíðina Aldrei fór ég suður. Besta íslenska hljómsveitin á hátíðinni, staðfest!

Skakkamanage tók svo við á Nasa og lék lögin sín af mikilli list. Ég verð þó að viðurkenna að ég er meira fyrir fýlinginn sem var á Lab of Love plötunni þeirra en þau hafa heldur betur bætt í eftir það. Uppátækið með vodkann var svo afar skemmtilegt en ég stóð frekar aftarlega og kunni ekki við að teyga af sama stút og svona 100 manns.

Það var svo ekki að ástæðulausu sem að Deerhunter lokaði þessari annars ágætu hátíð. Væri samt einhver til í að gefa söngvaranum Bradford Cox eitthvað að borða!?!? Það var virkilega óþæginlegt að horfa á hann og ég er ennþá að furða mig á því hvernig hann gat haldið á gítarnum sínum. En jæja, Deerhunter voru drullu þéttir og gerðu mikinn hávaða sem varð til þess að tónlistarmaðurinn Pétur Ben hélt fyrir eyrun á sér. Þeir skiptu jafnt á milli sín grípandi lagasmíðum og suðandi og háværum lögum þannig að bifhárin fengu að kenna alvarlega á því! Glæsilegt sett hjá þessari frábæru sveit.

Um hátíðina sjálfa hef ég í raun bara gott að segja. Það var ekki þessi brjálæðislegi troðningur og raðir sem að einkenna Iceland Airwaves, ágætis tilbreyting þar á ferð. Það gæti þó breyst í framtíðinni og tala nú ekki um þegar þeir draga svona stórfiska í land eins og Deerhunter. Norræna húsið fannst mér þó skrítin staðsetning, eiginlega ekki í göngufæri í nýstíngskulda í apríl og svo var alltaf eitthvað vesen með hljóðið. Fyrir utan það er þetta virkilega fín viðbót í íslenskt tónlistar- og menningarlíf og er það afar ánægjulegt á þessum síðustu og verstu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband