Plötudómur: Vigri - Pink Boats

Kápan af plötunni Pink Boats með VigraÚtgáfudagur: 02/06/2011
Útgefandi: Vigri
Tegund: Popp, Rokk, Póst-Rokk, Klassík, Draumkennt, Tilraunakennt, Prógressív
Lykillög: Awakening, Animals, Í Augsýn, Sleep
Kápa plötunnar: Falleg og smart, vel gert Þuríður og Jón Ingi!
Minnir á: múm, Patrick Watson, Sigur Rós, Sin Fang

80%

Dagfarinn hefur ákveðið að rifja upp gamla takta og gagnrýna eitt stykki plötu sem kom út núna í byrjun mánaðar. Um er að ræða frumburð hljómsveitarinnar Vigra, Pink Boats.

Vigra skipa fimm drengir og þar af tveir bræður sem stofnuðu sveitina árið 2008. Í upphafi átti að vinna plötuna hratt en meðlimir áttuðu sig fljótt á erfiði verkefnisins og tóku sér góðan tíma í upptökur.

Platan kom svo út á Uppstigningardaginn sem er fyndið í ljósi þess að þá eru allar plötubúðir landsins lokaðar. Hún hafði þó verið aðgengileg í nokkra daga á gogoyoko fyrir það.

Tónlist Vigra má lýsa sem draumkenndu og tilfinningaríku poppi með klassísku ívafi. Inní þetta blandast svo náttúrudýrkun meðlimanna en þeir una hag sínum best annaðhvort á Esjustofunni eða uppí Flatey.

Maður tekur strax eftir því við hlustun plötunnar að þarna er um metnaðarfullt verk að ræða. Meðlimir sveitarinnar eru allir fjölhæfir listamenn og er illa við að skilja hljóðfæri útundan sem skilar sér í þéttum útfærslum. Bræðurnir Hans og Bjarki skipta svo söngnum bróðurlega á milli sín. Ekki veit ég hvernig þeir fóru að því en þeir gerðu það vel þar sem ég get ekki séð Hans fyrir mér að syngja lögin hans Bjarka og öfugt.

"Awakening" opnar plötuna með nokkuð drungalegum hætti og vísar um leið í titil plötunnar, frábært lag þar á ferð. Á eftir fylgja "Drag Down the Dark" og "Animals" en þau eru á meðal sterkustu laganna á plötunni án efa. Upptökur á Pink Boats fóru svo meðal annars fram í nokkrum kirkjum á landinu og má greina áhrifin þaðan í laginu "Coin Finder" sem hefst á klukkuslögum, glæsilegt lag. Eftir góða byrjun markar svo hið stutta "(fyrir) Skikkan Skaparans" nokkurs konar hálfleik. Ef platan kæmi út á vínyl myndi ég giska á að eftir þetta lag ætti skipta um hlið. Lagið gefur jafnframt fyrirheit um að eitthvað meira sé í vændum og ferskeytlan sem er á trúarlegu nótunum sýnir að strákarnir kunna að yrkja á góðri íslensku.

Seinni hálfleikur hefst á laginu "Sleep" en myndbandið við það lag hefur hlotið mikla athygli, bæði hér á landi og úti. Eitt sterkasta lag plötunnar. "Maternal Machine" er lakasta lagið á plötunni. Söngurinn hjá Hans kemst ekki á það flug sem hann þyrfti að gera og því nær lagið ekki að fanga mann eins mikið og hin. "Í Augsýn" er eina lagið ásamt "(fyrir) Skikkan Skaparans" sem sungið er á íslenskri tungu sem er fínasta tilbreyting frá enskunni og væri gaman ef þeir gerðu meira af því í framtíðinni. Einlæg og falleg ballaða sem sungin er af mikilli snilld hjá Bjarka og píanóið í laginu er undurfagurt. "Fume" og "These are the Eyes" koma svo sterk inn og loka plötunni með sóma og sleppa við það þekkta vandamál að vera týndu lögin á plötunni.

Helsti kostur Vigra er sá að þeim hefur tekist að þróa sinn eigin stíl og tekst oft að gera hið ófyrirsjáanlega í lagasmíðum sínum sem er afar góður kostur. Hans og félagar geta gengið stoltir frá verki og nú er bara að fylgja plötunni eftir og kynna hana fyrir fólki. Hún á það nefnilega svo sannarlega skilið.

Niðurstaða: Pink Boats er áferðafallegur frumburður sem fellur snyrtilega saman í eina heild. Ein af bestu plötum ársins og ef stærri hljómsveit hefði gert hana þá seldist hún í bílförmum!

http://soundcloud.com/iceland-music-export/animals
http://soundcloud.com/iceland-music-export/coin-finder-vigri
http://soundcloud.com/iceland-music-export/drag-down-the-dark


Myndbandið við lagið "Sleep".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband